Teikn

eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Salka, 2012

Malurt, mold og marbendlar

Teikn eftir Guðrúnu HannesdótturTeikn er þriðja ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur en áður hafði hún sent frá sér barnabækur og einnig sinnt myndskreytingum. Hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 og ljóðabækur hennar Fléttur (2007) og Staðir (2010) hlutu almennt jákvæðar viðtökur, enda um vönduð verk að ræða. Þó er ekki hægt að segja að Guðrún sé áberandi höfundur í íslenskum bókmenntum, það fór til dæmis ekki mikið fyrir henni og þessari bók í jólabókaumræðu síðasta árs. Þó hefði verið full ástæða til að gera smá hávaða: bæði var ekki mikið um ljóðabækur það árið og svo er bókin einfaldlega góð. Sem út af fyrir sig er mikilvæg ástæða til að vekja á henni athygli, koma ljóðum hennar ekki bara til sinna, heldur allra hinna, svo ég leyfi mér að skella fram asnalegum frasa – en slíkt bull myndi Guðrún aldrei láta um lyklaborð sitt fara.

Eitt einkenni Staða var þjóðsagnaþema, en á sínum tíma kenndi Helga Kress mér að það væru helst konur sem vísuðu til þjóðsagna í ljóðum sínum. Vissulega eru á þessu undantekningar (Þorsteinn frá Hamri og Gyrðir Elíasson koma strax upp í hugann), en þó get ég ekki betur séð en að Helga hafi haft rétt fyrir sér; heimur þjóðsögunnar virðist einfaldlega nærtækari kvenhöfundum, eins og sést meðal annars í ljóðum ólíkra skáldkvenna á borð við Þóru Jónsdóttur, Vilborgu Davíðsdóttur og Gerði Kristnýju (beygist eins og ný: G. Kristný, G. Kristnýrri, etc.). Afsakið, ég er aftur farin að bulla.

Það er eitthvað sem ég hef tilhneigingu til að gera þegar ég les góð ljóð, það losnar um eitthvað í huganum og allt fer á fleygiferð. Ég flissa eins og vitleysingur, ekkert endilega af því að ljóðin eru fyndin (sem þau reyndar eru oft hjá Guðrúnu) heldur vegna þess hvað flínk meðferð tungumáls getur verið mikill gleðigjafi.

Mig grunar að Guðrún viti vel af þessu, allavega birtist púki í ljóðinu, „umgangur (engill dauðans)“, sem reyndar er sál sem situr á bita, og hefur „safnað að sér forða sem þér sást yfir / fullum poka af ískrandi kátínu og gleði / sem ég hef gert ráðstafanir til að skili sér / á réttan stað að mér genginni“.

Þjóðsagnaþemanu fylgir svo oft einhverskonar náttúrusýn, sem þarf ekki að koma á óvart en auk þessa er ákveðinn andi eldri skáldskapar í bókinni, sem kemur hvað helst fram í leik með form, ljóðin leika mörg á mörkum þess að vera háttbundin. Og svo er líka vísað hingað og þangað, dónaljóð um Lousiu Bourgeois kallaði fram glatt glott og Kjarval fær að vera með – enda Guðrún tengd myndlistinni eins og áður hefur komið fram. Og af því ég nefndi Gerði Kristnýju áðan, þá er ekki úr vegi að benda á að báðar þessar skáldkonur hafa setið við sauma á síðasta ári: saumaskapur kemur við sögu í ljóðabálki Gerðar í Ströndum, „Skautaferð“, og í ljóði Guðrúnar, „í rökkri“ er einnig dundað við nál og tvinna:

þræddu augnaráðið
gegnum setningarnar
varlega
eins og svartan þráð
í lósvart klæði

notirðu letiþráð
verður ekki að sökum spurt
tapir þú þræðinum
færðu nálina beint í augað 

Ég ætla þó að halda mig á slóðum þjóðsögunnar, enda sló það mig sérstaklega í Stöðum hvað tök Guðrúnar á henni voru skemmtileg, og eru enn hér í Teiknum (sem ég kýs að telja fleirtöluorð í þessu tilfelli). Í ljóðinu „dans“ er vísað til þjóðsögunnar „Móðir mín í kví kví“, en þar er það útburðurinn sjálfur sem dansar. „Örfiri“ er dularfullt ljóð um fortíð sem er svo myrk að andskotinn lá „enn í vöggu / og nagaði hendur sínar // helvíti hafði ekki enn skotið rótum“, „skoffínið skríður / afturábak inn í eggið sitt“ og í lokin vex á ströndinni „stór steinn / beittur eins og vígtönn“. Þetta finnst mér skemmtileg vísnagáta og sjálfsagt er lausnin augljós öllum nema mér.

Í „mold“ er fjallað um örugga greftrun:

ég þríf handfylli og þeyti henni tilbaka

það er eins og enginn kunni til verka í
þessu landi lengur vita menn ekki að þegar
draugur er vakinn upp þarf að fara varlega að
mokstrinum annars liggur moldin aldrei kyrr
upp frá því

gusurnar ganga

Náttúrutilvísunin í moldinni, tákni frjósemi og landgæða – lands og þjóðar – umbreytist hér í krafti draugasögunnar og verður að sviði átaka. Samskonar viðsnúningur á fegurð náttúru er að finna í næsta ljóði, „jurt“, en það hefst á ljúfri lýsingu á jurt sem unir undir björkum, næfurkyrrð, ljómandi dögg, „og bikar blómanna / fullur af blíðustu þögn“. En þegar hlustað er grannt heyrist að rótin er „illvíg og eitruð / krækir fyrir stein og höfuðbein / inn um augu, út sem tunga / smýgur hún og sýgur ramma mold / vítisvatn og dómsdagsmyrkur“. Og hver er hún svo þessi rót? „Nafn mitt er malurt í ykkar munni / en innfæddir kalla mig / chernobyl“. Við þetta má bæta að malurtin er einnig mikilvægt efni í eðaldrykknum absinth, sem einmitt er grænn og fagur.

En það er fleira sem hér kemur til. Ljóðin í Stöðum búa yfir lymskulegri og snarpri ádeilu á þjóðfélagsmál og pólitík, gróðæri og hrun. Og ég get ekki betur séð en að í Teiknum megi einnig greina slíkt, án þess þó að gusurnar gangi. Helsta vísbending sem ég hef um að Guðrún skemmti sér við að skjóta á ýmis málefni er í eftirfarandi ljóði – sem segir í raun allt sem segja þarf (og um svo margt...):

úr þingræðum
(vitjunartími)


góðir landsmenn!

nú eru veður válynd
og ýmsar blikur á lofti:

viðhlæjendur komnir
í vina stað
við skynjum hvorki
auðsýnda tryggð
né ríkidæmi okkar
til sjávar og sveita

aðeins eitt til ráða:

það verður
að margfalda
marbendlakvótann
umsvifalaust!

úlfhildur dagsdóttir, apríl 2013


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Ariasman: frásaga af hvalföngurum eftir Tapio Koivukari
Samskiptaleysi er lykilatriði í Ariasman, því bókin lýsir því hvernig skortur á samskiptum, og slæm samskipti sem komin eru til af ýmsum ástæðum, verða þess valdandi að fjöldamorð eru framin: en eins og Koivukari bendir á eru Spánverjavígin (árið 1615), viðfangsefni skáldsögunnar Ariasman, ekkert annað en fjöldamorð. Baskneskum hvalföngurum, skipsbrotsmönnum við strandir Íslands, var einfaldlega slátrað, og hvort sem lýsingarnar (teknar úr samtímaskrifum) eru orðum ýktar eða ekki er ljóst að hér er um að ræða andstyggilegt illvirki. ...
Teikn eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Teikn | 05.04.2013
Það fór ekki mikið fyrir Teiknum í jólabókaumræðu síðasta árs. Þó hefði verið full ástæða til að gera smá hávaða: bæði var ekki mikið um ljóðabækur það árið og svo er bókin einfaldlega góð. Sem út af fyrir sig er mikilvæg ástæða til að vekja á henni athygli, koma ljóðum hennar ekki bara til sinna, heldur allra hinna, svo ég leyfi mér að skella fram asnalegum frasa – en slíkt bull myndi Guðrún aldrei láta um lyklaborð sitt fara. ...
Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur
Ljósmóðirin | 27.02.2013
Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga sem kom út fyrir síðustu jól og segir sögu Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka á árunum í kringum aldamótin 1900. Ljóst er að mikil heimildavinna og rannsóknir liggja að baki söguefninu sem Eyrún fléttar svo inn í skáldskaparlegt samhengi. Sagan rekur því ekki aðeins sögu Þórdísar ljósmóður heldur gefur hún sannfærandi mynd af því hvernig íslenskt sveitasamfélag gæti hugsanlega hafa verið fyrir um hundrað árum. ...
Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur
Jenna Hvítfeld er aðalpersóna nýrrar skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur. Sem unglingur er Jenna afburða persóna, hún er fimleikastjarna og henni gengur vel í skólanum. Á fullorðinsárum hefur hún alið manninn í Texas í Bandaríkjunum og í gegnum íslenska slúðurpressu berast fréttir af afrekum hennar; hún er ekki einungis afburða falleg heldur einnig afburða klár, úrvalsnemandi í eðlisfræði sem stundar geimþjálfun til að undirbúa sig fyrir geimferðir, og þekkir allt fræga og fína fólkið í Hollywood. Þegar systir hennar deyr neyðist hún til að fara aftur til Íslands, ásamt dóttur sinni Jackie, og mæta fjölskyldu sinni og vandamálum hennar. Það fær Jennu til að horfast í augu við sjálfa sig og að afhjúpa fjölskylduleyndarmálin sem hafa haft meiri áhrif á persónu hennar en hún gerði sér grein fyrir. ...
Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur
Ósjálfrátt | 22.01.2013
Auður Jónsdóttir hefur getið sér gott orð í íslenskum bókmenntaheimi fyrir skáldsögur sínar sem hafa skýran raunsæislegan undirtón, eru skrifaðar af kaldhæðni og húmor og veita fyrir vikið sannfærandi og næmt sjónarhorn á mannlegt líf. Sögur Auðar hafa verið vinsælar meðal lesenda og hafa þrisvar sinnum verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2004 hlaut hún svo verðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum. Leikgerð sögunnar sló einnig í gegn á fjölum Borgarleikhússins nokkrum árum síðar og undirrituð man eftir einstaklega eftirminnilegri og vel leikinni sýningu. ...
Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson
Suðurglugginn | 21.12.2012
Rithöfundurinn í Suðurglugganum, nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar, reynir að skrifa bók á olivetti ritvélina sína sem er með bilað b. Hann drekkur þó nokkuð af kaffi, en líka bjór, einu sinni danskan bjór með 1944-réttinum sem honum finnst hálf ómóralskt. Hann á í basli með fólkið sem er að skrifa um, sem er fúllynt í sumarfríi í Tyrklandi. Hann fær of mörg símtöl frá móður sinni, of fá frá konunni sem hann skrifar bréf en sendir ekki. ...
Undantekningin – de arte poetica eftir Auði Övu Ólafsdóttur
Það var með mikilli eftirvæntingu að ég hóf lesturinn á Undantekningunni, fjórðu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Fyrri bækur höfundar, og þá sérstaklega skáldsagan Afleggjarinn frá 2007, eru mér einfaldlega að skapi; efnistökin eru lágstemmd, stíllinn vandaður og textinn myndrænn og skrifaður af næmni. Þá drógu fréttir af tilnefningu Undantekningarinnar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna ekki úr áhuganum en þetta er í fyrsta skipti sem verk eftir Auði Övu kemur þar við sögu. Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að sagan stóðst allar mínar væntingar og gott betur. ...
Vampíra eftir Sirrý Margréti og Smára Pálmarsson
Vampíra | 13.12.2012
Ég hef öruggar heimildir fyrir því að skáldsagan sé dauð. Sem og ljóðið. Hvort dauðsföllin tengjast á einhvern hátt veit ég ekki, fréttin lét þess ekki getið og nú bíð ég bara eftir því að heyra af andláti hennar sömuleiðis. Við sem viljum lesa sögur af pappír þurfum þó ekki að líða skort vegna þess að atorkusamir höfundar og listamenn halda áfram að skaffa okkur myndasögur. ...
Fjarveran eftir Braga Ólafsson
Fjarveran | 10.12.2012
Ármann Valur, söguhetja skáldsögu Braga Ólafssonar, Fjarveran, þolir ekki fyrirsagnir í eignarfalli. Hann er prófarkalesari og alkahólisti sem vaknar upp í byrjun bókar og veit ekki vel hvar hann er. En mikið rétt, það rifjast upp fyrir honum að hann hafði endað í einskonar partýi kvöldið áður, eftir að hafa komið heim frá London, en þar hafði hann hitt ungan mann sem af einhverjum ástæðum tók gleraugu Ármanns heim með sér. Sá hafði svo ekki verið heima þegar Ármann Val bar að garði, en í staðinn var þar fyrir annað fólk sem hélt uppi stuði. ...
Illska eftir Eirík Örn Norðdahl
Illska | 07.12.2012
Daginn eftir að ég lauk við Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl heyrði ég lag í alls óskyldu hlaðvarpi (er það ekki örugglega íslensk þýðing á „podcast“?). Lagið er frá árinu 2005, það er samið af grínistanum og tónlistarmanninum Stephen Lynch og heitir Tiny Little Moustache. Í texta lagsins ávarpar maður að nafni Stephen Lynchburgstein kærustuna sína, hann segist hafa uppgötvað að hún sé nasisti og að þess vegna þurfi þau að hætta saman. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál