Ariasman: frásaga af hvalföngurum

eftir Tapio Koivukari, þýð. Sigurður Karlsson

Uppheimar 2012

Saga af samskiptum

Ariasman: frásaga af hvalföngurum eftir Tapio KoivukariÍ raun ætti þessi titill að vera ‚saga af samskiptaleysi‘, en það væri þó heldur ekki rétt nema að takmörkuðu leyti, því fjölbreytt samskipti einkenna skáldsögu finnska rithöfundarins Tapio Koivukari, Ariasman: frásaga af hvalföngurum. Fyrir utan þau samskipti Íslendinga og Baska sem sagan fjallar um er hér einnig um að ræða annarsskonar samskipti, þau sem felast í því að finnskur höfundur skrifi sögulega skáldsögu um það sem hann í eftirmála íslensku útgáfunnar með réttu nefnir „fjöldamorð“ (438) á Íslandi. Ein samskiptin enn eru svo þau þegar íslenskur þýðandi, Sigurður Karlsson, tilfærir úr finnsku yfir á íslensku, með þeim lesvæna bravúr sem lesendur eru farnir að kannast við frá honum.

Þó er ljóst að samskiptaleysi er lykilatriði í verkinu, því það lýsir því hvernig skortur á samskiptum, og slæm samskipti sem komin eru til af ýmsum ástæðum, verða þess valdandi að fjöldamorð eru framin: en eins og Koivukari bendir á eru Spánverjavígin (árið 1615), viðfangsefni skáldsögunnar Ariasman, ekkert annað en fjöldamorð. Baskneskum hvalföngurum, skipsbrotsmönnum við strandir Íslands, var einfaldlega slátrað, og hvort sem lýsingarnar (teknar úr samtímaskrifum) eru orðum ýktar eða ekki er ljóst að hér er um að ræða andstyggilegt illvirki.

Titill sögunnar, Ariasman, gefur til kynna að höfuðpaurinn á bakvið slátrunina hafi verið ‚vestfjarðakóngurinn‘ Ari í Ögri, en Ariasman er heitið sem Baskar gáfu honum. Í verkinu kemur fram að Ari er bæði gráðugur á fé og völd og selur Böskum veiðileyfi í stórmennskuþótta sínum. Þegar það rennur af honum rifjast upp að kóngsleyfi þarf til, og grípur hann því til örþrifaráða til að vernda eigið skinn. Sekt Ara hefur verið vinsæl kenning og kemur meðal annars fram í skáldsögu Sjóns, Rökkurbýsnum (2008), en sú er einnig söguleg skáldsaga og byggir á ævi Jóns lærða Guðmundssonar, sem í bók Koivukari nefnist Jón málari. Þar eru þó vígin ekki til umfjöllunar sem slík, heldur frekar sá eftirmáli þeirra að Jón (sem í Rökkurbýsnum nefnist Jónas), er hrakinn í útlegð af Ara og fylgismönnum hans eftir að hafa skrifað óvægin rit um drápin. Þrátt fyrir að sök Ara sé vissulega dregin fram er einnig eftirtektarvert að Koivukari hafnar einföldum ‚lausnum‘ og dregur fram í hnausþykkri sögu sinni margvíslegar hliðar á málinu. Til dæmis lætur hann fara fyrir Böskum ungan og óreyndan, en afar metnaðargjarnan og stoltan skipstjóra, sem brást ekki sem skyldi við aðstæðum. Einnig er mikil áhersla lögð á að almenn fáfræði og fordómar eyþjóðarinnar, að ekki sé talað um græðgi og heimóttarskap, léku mikilvægt hlutverk í þeirri atburðarás sem leiddi til fjöldamorða á erlendum mönnum sem leituðu skjóls við strendur landsins einfaldlega vegna þess að þeir áttu ekki í önnur hús að venda. Lái mér hver sem vill en ég á ekki erfitt með að lesa ýmis samtímamál í spegli íhugulla lýsinga finnska höfundarins á heimsmynd Íslendinga snemma á sautjándu öld.

Þó Rökkurbýsnir hafi hér verið nefndar er tæplega hægt að hugsa sér ólíkari verk og segir það sitt um þá fjölbreyttu skepnu sem sögulega skáldsagan er. Frásögn Koivukari er raunsæ, en Sjóns ekki, svo ekki sé meira sagt. Markmið verkanna, ef tala má um markmið skáldverka yfirleitt, eru líka gerólík: þar sem Sjón leggur helsta áherslu á að teikna upp heimsmynd sautjándu aldar er saga Koivukari sögulega línuleg lýsing á aðdraganda blóðugrar atburðarásar. Til að ná fram sem flestum hliðum sögunnar gerist hún bæði á Íslandi og á Spáni, þaðan sem Baskarnir sigla, og fyrir utan að fjalla um sögulegar persónur, meðal annars Ara í Ögri og Jón málara, er nokkur áhersla lögð á að segja söguna útfrá hversdagshetjum, hinni ungu og íslensku Kristrúnu og unga Baskanum Gartzia. Allt eykur þetta á raunsæisyfirbragð verksins og gefur þétta og sterka mynd af atburðarásinni, auk þess að lýsa vel hversdeginum, aðstæðum bænda á Íslandi og baskneskra sjómanna.

Það voru þó lýsingarnar á hvalveiðunum og –vinnslunni sem fönguðu mig hvað mest; ‚ung var ég gefin Moby Dick‘ og hef æ síðan verið hrifin af hvölum (þó Greenpeace og álíka væmnilið hafi gert sitt til að turna mér gegn þeim). Vissulega er Koivukari flínkur í að lýsa persónum en þó nær færni hans næstum ævintýralegum hæðum í nálgun hans á hvalfiskana og fangbrögð veiðimannanna. Það er helst þarna sem þeir ná saman, texti Sjóns og Koivukaris, í því að fylla tungumálið efnislegum eiginleikum sem ekki aðeins skapar verkunum aukinn kraft heldur býður upp á áþreifanlega lestrarupplifun – inngöngu í heim saltvatns, ullarsokka og gnægta af blóðugu kjöti. Lýsingarnar á slátrun hvalanna eru svo að sjálfsögðu viðeigandi aðdragandi að vígunum sjálfum, en ekki má heldur gleyma því að blóð Baskanna fann sér (blessunarlega) aðra farvegi.

úlfhildur dagsdóttir, apríl 2013


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Ariasman: frásaga af hvalföngurum eftir Tapio Koivukari
Samskiptaleysi er lykilatriði í Ariasman, því bókin lýsir því hvernig skortur á samskiptum, og slæm samskipti sem komin eru til af ýmsum ástæðum, verða þess valdandi að fjöldamorð eru framin: en eins og Koivukari bendir á eru Spánverjavígin (árið 1615), viðfangsefni skáldsögunnar Ariasman, ekkert annað en fjöldamorð. Baskneskum hvalföngurum, skipsbrotsmönnum við strandir Íslands, var einfaldlega slátrað, og hvort sem lýsingarnar (teknar úr samtímaskrifum) eru orðum ýktar eða ekki er ljóst að hér er um að ræða andstyggilegt illvirki. ...
Teikn eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Teikn | 05.04.2013
Það fór ekki mikið fyrir Teiknum í jólabókaumræðu síðasta árs. Þó hefði verið full ástæða til að gera smá hávaða: bæði var ekki mikið um ljóðabækur það árið og svo er bókin einfaldlega góð. Sem út af fyrir sig er mikilvæg ástæða til að vekja á henni athygli, koma ljóðum hennar ekki bara til sinna, heldur allra hinna, svo ég leyfi mér að skella fram asnalegum frasa – en slíkt bull myndi Guðrún aldrei láta um lyklaborð sitt fara. ...
Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur
Ljósmóðirin | 27.02.2013
Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga sem kom út fyrir síðustu jól og segir sögu Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka á árunum í kringum aldamótin 1900. Ljóst er að mikil heimildavinna og rannsóknir liggja að baki söguefninu sem Eyrún fléttar svo inn í skáldskaparlegt samhengi. Sagan rekur því ekki aðeins sögu Þórdísar ljósmóður heldur gefur hún sannfærandi mynd af því hvernig íslenskt sveitasamfélag gæti hugsanlega hafa verið fyrir um hundrað árum. ...
Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur
Jenna Hvítfeld er aðalpersóna nýrrar skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur. Sem unglingur er Jenna afburða persóna, hún er fimleikastjarna og henni gengur vel í skólanum. Á fullorðinsárum hefur hún alið manninn í Texas í Bandaríkjunum og í gegnum íslenska slúðurpressu berast fréttir af afrekum hennar; hún er ekki einungis afburða falleg heldur einnig afburða klár, úrvalsnemandi í eðlisfræði sem stundar geimþjálfun til að undirbúa sig fyrir geimferðir, og þekkir allt fræga og fína fólkið í Hollywood. Þegar systir hennar deyr neyðist hún til að fara aftur til Íslands, ásamt dóttur sinni Jackie, og mæta fjölskyldu sinni og vandamálum hennar. Það fær Jennu til að horfast í augu við sjálfa sig og að afhjúpa fjölskylduleyndarmálin sem hafa haft meiri áhrif á persónu hennar en hún gerði sér grein fyrir. ...
Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur
Ósjálfrátt | 22.01.2013
Auður Jónsdóttir hefur getið sér gott orð í íslenskum bókmenntaheimi fyrir skáldsögur sínar sem hafa skýran raunsæislegan undirtón, eru skrifaðar af kaldhæðni og húmor og veita fyrir vikið sannfærandi og næmt sjónarhorn á mannlegt líf. Sögur Auðar hafa verið vinsælar meðal lesenda og hafa þrisvar sinnum verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2004 hlaut hún svo verðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum. Leikgerð sögunnar sló einnig í gegn á fjölum Borgarleikhússins nokkrum árum síðar og undirrituð man eftir einstaklega eftirminnilegri og vel leikinni sýningu. ...
Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson
Suðurglugginn | 21.12.2012
Rithöfundurinn í Suðurglugganum, nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar, reynir að skrifa bók á olivetti ritvélina sína sem er með bilað b. Hann drekkur þó nokkuð af kaffi, en líka bjór, einu sinni danskan bjór með 1944-réttinum sem honum finnst hálf ómóralskt. Hann á í basli með fólkið sem er að skrifa um, sem er fúllynt í sumarfríi í Tyrklandi. Hann fær of mörg símtöl frá móður sinni, of fá frá konunni sem hann skrifar bréf en sendir ekki. ...
Undantekningin – de arte poetica eftir Auði Övu Ólafsdóttur
Það var með mikilli eftirvæntingu að ég hóf lesturinn á Undantekningunni, fjórðu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Fyrri bækur höfundar, og þá sérstaklega skáldsagan Afleggjarinn frá 2007, eru mér einfaldlega að skapi; efnistökin eru lágstemmd, stíllinn vandaður og textinn myndrænn og skrifaður af næmni. Þá drógu fréttir af tilnefningu Undantekningarinnar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna ekki úr áhuganum en þetta er í fyrsta skipti sem verk eftir Auði Övu kemur þar við sögu. Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að sagan stóðst allar mínar væntingar og gott betur. ...
Vampíra eftir Sirrý Margréti og Smára Pálmarsson
Vampíra | 13.12.2012
Ég hef öruggar heimildir fyrir því að skáldsagan sé dauð. Sem og ljóðið. Hvort dauðsföllin tengjast á einhvern hátt veit ég ekki, fréttin lét þess ekki getið og nú bíð ég bara eftir því að heyra af andláti hennar sömuleiðis. Við sem viljum lesa sögur af pappír þurfum þó ekki að líða skort vegna þess að atorkusamir höfundar og listamenn halda áfram að skaffa okkur myndasögur. ...
Fjarveran eftir Braga Ólafsson
Fjarveran | 10.12.2012
Ármann Valur, söguhetja skáldsögu Braga Ólafssonar, Fjarveran, þolir ekki fyrirsagnir í eignarfalli. Hann er prófarkalesari og alkahólisti sem vaknar upp í byrjun bókar og veit ekki vel hvar hann er. En mikið rétt, það rifjast upp fyrir honum að hann hafði endað í einskonar partýi kvöldið áður, eftir að hafa komið heim frá London, en þar hafði hann hitt ungan mann sem af einhverjum ástæðum tók gleraugu Ármanns heim með sér. Sá hafði svo ekki verið heima þegar Ármann Val bar að garði, en í staðinn var þar fyrir annað fólk sem hélt uppi stuði. ...
Illska eftir Eirík Örn Norðdahl
Illska | 07.12.2012
Daginn eftir að ég lauk við Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl heyrði ég lag í alls óskyldu hlaðvarpi (er það ekki örugglega íslensk þýðing á „podcast“?). Lagið er frá árinu 2005, það er samið af grínistanum og tónlistarmanninum Stephen Lynch og heitir Tiny Little Moustache. Í texta lagsins ávarpar maður að nafni Stephen Lynchburgstein kærustuna sína, hann segist hafa uppgötvað að hún sé nasisti og að þess vegna þurfi þau að hætta saman. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál