Vargsöld

eftir Þorstein Mar

Rúnatýr, 2013

Ímynd norðursins

VargsöldÁ allra síðustu árum hefur íslenskum fantasíum verið að vaxa fiskur um hrygg, en svo virðist sem að í kjölfar vinsælda glæpasögunnar sé að myndast rými fyrir fleiri greinar afþreyingarbókmennta. Þetta má auðvitað einnig þakka miklum vinsældum fantasía erlendis, aðallega frá enskumælandi höfundum, en einnig hafa komið öflugar fantasíur frá Danmörku og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin. Fantasíur fyrir unglinga hafa notið heilmikilla vinsælda og hafa fjölmargar slíkar verið þýddar á íslensku. Jafnframt hafa komið fram þýðingar fyrir fullorðna; nú á þessu ári kom út ný þýðing á frægustu vampýrusögu allra tíma, Drakúla eftir hinn írska Bram Stoker, en í kringum aldamótin 1900 kom út stytt og all breytt útgáfa sögunnar á íslensku.

Þorsteinn Mar stendur að útgáfunni Rúnatýr og undir merkjum hennar hefur hann sent frá sér þrjár bækur, hrollvekjurnar Myrkfælni og Þoka og þýðingar á sögum bandaríska hrollvekjumeistarans H.P. Lovecraft. Og nú er komin frá honum fantasía með hrollvekjandi ívafi, Vargsöld, sem mun vera fyrsta bindið í seríu sem nefnist Roðasteinninn. Samkvæmt bókatíðindum er Vargsöld unglingabók, en ætti fullt eins vel að höfða til eldri lesenda, þeirra sem á annað borð hafa áhuga á fantasíum. Þó er ljóst að Þorsteinn skrifar með yngri lesendur í huga og heldur ofbeldi og grimmd nokkuð til hlés. Þetta sést best þegar sagan er borin saman við eina vinsælustu fantasíuseríu síðari tíma, Söng um ís og eld bandaríska höfundarins Georges R.R. Martin.

Það er reyndar ýmislegt sem kallar á samanburð við þær bækur, en slíkt er ekki óalgengt innan heims fantasíu og hrollvekju, tilvísanir milli verka eru virkur hluti af sagnaheiminum. Það sem er athyglisvert við báðar bækurnar er sú áhersla sem þar er á norðrið, en svo virðist sem ekki aðeins norrænar glæpasögur kveiki forvitni hjá lesendum, fantasíur sem lýsa kulda og auðn norðlægra slóða eru greinilega eftirsóknarverðar. Inn í þetta blandast svo ímynd víkinga, en þess má geta að fyrr á árinu kom út, á ensku, norðlæga víkingafantasían Swords of Good Men eftir hinn alíslenska Snorra Kristjánsson

Líkt og Krúnuleikarnir gerist Vargsöld á óræðum tíma fantasíunnar, sem er yfirleitt einskonar heimur miðalda, með tilheyrandi frumstæðri tækni og áherslu á sjálfbærni, og ákveðnum undirtónum fortíðarþrár. Þetta er auðvitað líka tími ævintýranna, jafnvel goðsagna, en á margan hátt eru fantasíur beint framhald af frásögnum ævintýra, goðsagna og þjóðsagna.

Vargsöld segir frá Ráðgríði, sem er nítján ára dóttir fógetans í þorpinu Vegamótum. Hún er sjálfstæð og sterk, meðlimur í flokki grænstakka, sem eru varðliðar þorpsins. Besti vinur hennar og félagi er Hrærekur, en hann er dökkur yfirlitum ólíkt hinum ljósu norðurbúum, sonur dularfullrar aðkomukonu. Ráðgríður er þó trúlofuð öðrum manni, gömlum félaga sem er eldri en hún og fjarverandi í þessari fyrstu bók. Hér má glöggt greina vísanir til Hungurleikanna eftir Suzanne Collins, en þar er einmitt ung stúlka aðalsöguhetja og þarf að velja milli tveggja vonbiðla.

Atburðarásin hefst með því að illvættir ráðast á þorpið, svokallaðir Naddar, en þeir eru að hálfu dýr og hálfu menn. Nánar tiltekið eru þeir úlfar, og kemur titillinn af því, fyrir löngu hafði verið spáð plágu varga og myrkum tímum. Ráðgríð tekur að sér, í félagi við Hrærek, að fara til borgarinnar Fálkahafnar og fá greifann þar til að aðstoða þau í baráttunni við þessi afskræmi, en þegar þangað er komið er ljóst að ekki er allt sem skyldi hjá greifanum og Hrærekur er handtekinn án sýnilegrar ástæðu. Ráðgríð, í félagi við unga stúlku sem þau vingast við, ákveður að bjarga honum og með það er farin af stað ævintýraleg atburðarás.

Vargsöld er, líkt og þær nýlegu íslensku fantasíur sem ég hef lesið, ekki fullkomlega vel heppnað verk. Stíllinn er svolítið stirður og svo virðist sem verið sé að fanga hæfilega fornt og formlegt málsnið, sem virkar á stundum tilgerðarlegt og truflar frásagnarflæðið. Þetta birtist meðal annars fram í nöfnunum sem eru ansi sérviskuleg, en slíkt er ekki óalgengt í fantasíubókmenntum.

Hinsvegar kemur þetta ekki í veg fyrir að það er margt vel gert í sögunni. Heimurinn sem teiknaður er upp er sannfærandi og heimsmyndin, með tilvísunum til ólíkra menningarheima, sömuleiðis vel hugsuð. Þorsteinn leggur sig fram um að hafa sterkar kvenhetjur í forgrunni, og víkur víða að hlutverki kvenna, en fantasían hefur verið notuð af höfundum til að deila á kvenhlutverk þó það sé langt í frá algilt. Persónurnar eru almennt áhugaverðar og þó dramatíkin sé allnokkur þá er það við hæfi í þessari tegund bókmennta (þó vissulega myndi það ekki skaða að viðhafa smá húmor, svona annað slagið). Sagan er ágætlega skemmtileg aflestrar, framvindan hröð og vekur áhuga á framhaldinu.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2013


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

HHhH
HHhH | 11.03.2014
Titill bókarinnar stendur víst fyrir „Heili Himmlers heitir Heydrich“. Þessi bók greip mann heljartökum undir eins og fór víst líka rakleiðis á metsölulista Eymundssonar eftir að gagnrýnendur lýstu yfir hrifningu sinni í Kiljunni. Það er ekki að spyrja að áhrifamætti þess sjónvarpsþáttar. Þungamiðja bókarinnar er fræg tilraun tékkóslóvakískra andspyrnumanna til að ráða Reinhard Heydrich af dögum í Prag árið 1942, sem hafði í för með sér voðalegar hefndaraðgerðir þýska hernámsliðsins. Meðal annars var þorpið Lidice máð af landakortinu og öllum íbúum þess komið fyrir. Sú grimmilega hefndaraðgerð kom Þjóðverjum raunar illa á alþjóðavettvangi enda var þorpið valið eftir duttlungum ráðamanna þegar í óefni var komið með eftirgrennslan og leit að tilræðismönnunum. Upphaflega hafði höfundurinn ráðgert að bókin yrði nefnd „Anthropoid“ en það var heitið á aðgerðinni sem var eiginlega, eða átti að vera, sjálfsmorðsárás. ...
Af hjaranum eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur
Af hjaranum | 11.02.2014
Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að undirrituð hefur ekki lesið margar bækur sem fjalla um eða gerast á Grænlandi og er það sannarlega miður. Ég hef lesið um það bil hundrað blaðsíður í Lesið í snjóinn eftir Peter Höeg, sem fjallar um hina hálfgrænlensku Smillu er þekkir snjó betur en flestir og les hann til að leysa glæpamál, en ég hef ekki lesið svo mikið sem eitt ljóð sem tengist Grænlandi með einum eða öðrum hætti þar til nú. Það er því kærkomið og skemmtilegt að fletta nýjustu ljóðabók Heiðrúnar Ólafsdóttur, Af hjaranum, sem kom út núna fyrir jólin og segir frá tveggja mánaða dvöl hennar á Grænlandi. ...
Skessukatlar
Skessukatlar | 20.12.2013
Í sumum ljóðanna í nýjustu bók sinni Skessukötlum er Þorsteinn frá Hamri einu sinni sem oftar á slóðum forfeðranna, nánar tiltekið á slóðum sagna þeirra og kvæða. Hann vitnar til þeirra og finnur þeim stað í sjálfum sér, enda segir ljóðmælandi á einum stað „Ég er gata sem þau gengu“. ...
Elst milli hendinga
Elst milli hendinga | 20.12.2013
„Aldrei hefur fjall / sagt sitt síðasta orð“ segir í ljóðinu „Með fjöll í fasi“ eftir Þóru Jónsdóttur, í nýútkominni ljóðabók hennar. Það sama má segja um skáldkonuna, sem hefur allt frá árinu 1973 sent frá sér ljóðabækur og bætir nú nýrri við, 88 ára gömul. ...
Vargsöld
Vargsöld | 18.12.2013
Á allra síðustu árum hefur íslenskum fantasíum verið að vaxa fiskur um hrygg, en svo virðist sem að í kjölfar vinsælda glæpasögunnar sé að myndast rými fyrir fleiri greinar afþreyingarbókmennta. Þetta má auðvitað einnig þakka miklum vinsældum fantasía erlendis, aðallega frá enskumælandi höfundum, en einnig hafa komið öflugar fantasíur frá Danmörku og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin. Fantasíur fyrir unglinga hafa notið heilmikilla vinsælda og hafa fjölmargar slíkar verið þýddar á íslensku. Jafnframt hafa komið fram þýðingar fyrir fullorðna; nú á þessu ári kom út ný þýðing á frægustu vampýrusögu allra tíma, Drakúla eftir hinn írska Bram Stoker, en í kringum aldamótin 1900 kom út stytt og all breytt útgáfa sögunnar á íslensku. ...
Rangstæður í Reykjavík
Hér er komin þriðja bókin eftir Gunnar Helgason um þróttarann Jón Jónsson og vini hans, fótboltann og lífið. Bókin er sjálfstætt framhald af Víti í Vestmannaeyjum (2011) og Aukaspyrnu á Akureyri (2012) sem hafa báðar notið mikilla vinsælda meðal lesenda. Aukaspyrna á Akureyri hlaut nýverið Bókaverðlaun barnanna þar sem lesendur á aldrinum 6-12 ára velja bestu barnabók síðasta árs. ...
Rödd í dvala
Rödd í dvala | 18.12.2013
Hvað verður um sögur sem lífshættulegt er að segja? Breytast þær í bælt öskur, þögn brjálseminnar? Eða geta þær átt sér framhaldslíf, vaknað úr dvala? Undir lok 20. aldar sprakk svokölluð ‚minnissprengja‘... ...
Hinir réttlátu
Hinir réttlátu | 17.12.2013
Nú í nóvember var haldin glæpasagnahátíð í Reykjavík sem nefndist Iceland Noir. Þar komu fram bæði innlendir og erlendir höfundar og spjölluðu saman í pallborðsumræðum og lásu upp á upplestrarkvöldum. ...
Tímakistan
Tímakistan | 16.12.2013
Í þessari nýjustu bók Andra Snæs bíða sögupersónurnar eftir að tíminn líði og hvíla aðgerðalausar á meðan í svo kölluðum tímakistum. Kisturnar gera þeim kleift að spara tíma með mjög bókstaflegum hætti; á meðan þau hvíla í kistunni eldast þau ekki eina mínútu en tíminn umhverfis kistuna gengur sinn vanagang og líður áfram. Kisturnar eru þar að auki markaðsettar af fyrirtækinu Tímax sem ákjósanlegur kostur til að bíða af sér fjármálakreppu. Tímakistan er því saga eða ævintýri sem fjallar um tímann sem fyrirbæri en felur um leið í sér skírskotanir til samtímans og hvaða þýðingu tíminn og það athæfi að geta stoppað tímann (að minnsta kosti að vissu leyti) hefur í nútímasamfélagi. ...
Draumsverð
Draumsverð | 13.12.2013
Draumsverð eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson er önnur bókin í þríleiknum Þriggja heima sögu. Bókin er beint framhald af Hrafnsauga sem kom út í fyrra og hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2012. Sagan hefst í Hrafnsauga þar sem er sagt frá Ragnari, 16 ára foreldralausum strák sem býr í þorpinu Vébakka í Janalandi. Dag einn ráðast hræðilegar ófreskjur á Vébakka og Ragnar flýr ásamt tveimur öðrum unglingum, þeim Sirju og Breka. Í ljós kemur að ófreskjurnar voru að leita að Ragnari því hann geymir eitt af sjö innsiglum sem voru notuð fyrir þúsund árum til að loka illar skuggaverur inni fjarri mönnum. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál