Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna

Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin Eldjárn og Sigrúnu Eldjárn.
Vaka-Helgafell, 2014
Örleifur og hvalurinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko. Þýðandi: Þórarinn Eldjárn.
Vaka-Helgafell, 2014

Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson.
Mál og menning, 2014

Af ljóðlist og tónlist í bókum fyrir yngstu lesendurna

Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu EldjárnÞórarinn og Sigrún Eldjárn hafa unnið saman að gerð fjölda ljóðabóka fyrir börn þar sem ljóð Þórarins og myndir Sigrúnar eru lesin saman og mynda litríka og lifandi heild. Bæði ljóð og myndir lýsa miklu hugmyndaflugi og sköpunargleði og hin nýútkomna Fuglaþrugl og naflakrafl eftir þau systkinin gefur fyrri bókum þeirra ekkert eftir. Ljóðin þar eru af ýmsum toga, mörg hver stuðluð og rímuð, og má meðal annars finna öfugmælavísur, hetjukvæði, dýravísur og orðaleiki. Myndlýsingarnar við ljóðin eru fullar af lífi og fjöri og eru ekki síður hluti af ljóðunum en textinn. Umfjöllunarefni eru í flestum tilvikum kunnugleg: afi og amma, dýrin í sveitinni og fuglar (eins og titillinn gefur til kynna), þó einnig megi finna ljóð þar sem umfjöllunarefnið er meira framandi, svo sem sjóræningjar, riddarar og ljón. Svo verður auðvitað að minnast á að nokkur ljóðanna fjalla um nafla og eins óvenjulegt og það kann að hljóma þá er það einkennandi fyrir það hvernig lesandanum er reglulega komið á óvart við lesturinn og hvernig því sem hann á von á er snúið á hvolf.

Fuglarnir sem ort er um eru bæði ímyndaðir og raunverulegir. Hér er bæði að finna lýsingu á lundarfari lunda og á naflafugli sem étur naflakusk úr börnum sem liggja í sólbaði í Nauthólsvík. Myndin sem er dregin upp af honum er óvænt, svolítið ógeðsleg og fyndin. Á myndinni sem fylgir ljóðinu má sjá naflafuglinn svífa yfir ströndinni og miða á nafla barns í sólbaði:

Þetta er hvorki þrugl né rugl
þvættingur né sífur:
Í Nauthólsvík býr nytjafugl
sem nafla á krökkum þrífur.

Á ylströndinni bjó sér ból
bæði klár og iðinn.
Leggstu þar í sand og sól
og sólbakaðu kviðinn.

Til þín fuglinn flögrar hratt,
fýsir hann í aflann.
Lækkar flug og lendir bratt,
leitar uppi naflann.

Brýnir gogg og glennir kló,
gottinu í sig treður.
Pillar kusk og losar ló,
lyftir sér og kveður. (bls. 4-5)

Í öllum ljóðunum er stutt í húmorinn og leikur að tungumálinu er áberandi. Í ljóðunum „Íslenskan“ og „Gaggalagó og mö“ er sérstaklega fjallað um tungumálið og lesandanum bent á að haninn segi ekki gaggalagú heldur gaggalagó og kýrin mö frekar en mu. Tungumálið er einnig til umfjöllunar á síðustu síðu bókarinnar en þó á allt annan hátt. Þar er að finna rímleitara, töflu þar sem hægt er að skoða hvaða stafir og hljóð ríma, og það er fróðlegt að fara yfir listann og spá og spekúlera hvað passar og hvað ekki. Eins og fram kemur í lokalínum ljóðsins um rímleitarann er hann „[g]leði- og viskuveitari“ og má með sanni segja að það eigi við um bókina í heild.

Örleifur og hvalurinn eftir Julian Tuwim og Bohdan ButenkoÞórarinn Eldjárn hefur einnig verið ötull þýðandi og í ár kemur út þýðing hans á rímaða ævintýrinu Örleifur og hvalurinn eftir pólska ljóðskáldið Julian Tuwim með myndum eftir Bohdan Butenko. Tuwim var þekkt ljóðskáld í heimalandinu og orti bæði fyrir fullorðna og börn. Kvæðið um Örleif og hvalinn er meðal þekktustu ljóða hans en hann var þekktur fyrir orðaleiki og hugmyndaríka nálgun á tungumálið. Bohdan Butenko er samlandi Tuwims og hefur getið sér góðs orðs fyrir myndskreytingar sínar en hann hefur meðal annars myndskreytt fjölda barnabóka og er margverðlaunaður fyrir verk sín.

Í Örleifi og hvalnum er sagt frá hinum agnarsmáa Örleifi sem er á stærð við kaffibaun og á sér þann draum heitastan að berja augum hval. Örleifur smíðar sér bát úr hálfri hnetu, hleður hana alls konar munum sem hann gæti þurft á að halda og fær svo far með fiðrildi niður að sjó. Það er þó ekki hlaupið að því að finna hval og Örleifur siglir um höfin í hnetunni sinni í margar vikur og marga mánuði. Að lokum kemur hann að eyðieyju þar sem hann ætlar að tjalda en viti menn! Eyjan er ekkert annað en hvalur. Örleifi líst ekkert á þennan risa og forðar sér heim hið snarasta.

Það er eitthvað svo einstaklega heillandi við smáa hluti, pínulítinn grammófón sem passar í hnetu, örlítið útvarp og agnarsmáa inniskó. Andstæðurnar við ógnarstórt hafið og við hvalinn eru rosalegar. Hafið er óendanlegt og hvalurinn svo stór við hliðina á Örleifi að hann gæti allt eins verið fast land. Sögur af pínulitlum mannverum hafa ávallt notið vinsælda, samanber ferðir Gúllivers um Putaland, Indíánann í skápnum og Þumalínu (sem er reyndar blómálfur) svo dæmi séu tekin. Kannski undirstrika þessar smáu manneskjur (og blómálfar) smæð okkar í stóra samhenginu og gagnvart umhverfi okkar, þó að við lítum auðvitað ansi stórt á okkur – rétt eins og Örleifur sem lætur risahvalinn ekki slá sig út af laginu nema tímabundið. Honum tekst að gera það sem hann ætlar sér og það er feykinóg til að stæra sig af. Myndirnar sem fylgja sögunni eru einfaldar og heillandi í bláum tónum hafsins, nema hnetan hans Örleifs og húsið hans sem eru gul og Örleifur sjálfur sem er svart-hvítur. Litirnir mynda einnig skarpar andstæður og leggja áherslu á árekstur ólíkra heima, Örleifs annars vegar og hvalsins hins vegar. Þýðing Þórarins er leikandi og lipur. Hrynjandin kallar á að sagan sé lesin upphátt, helst með miklum tilþrifum, og myndirnar sem dregnar eru upp í ljóðinu verða ljóslifandi í huga lesandans.

Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má BaldurssonMaxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson er fjórða bókin um tónelsku músina Maxímús Músíkús. Bækurnar um Maxímús eru liður í því að kynna starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bjóða lesendum upp á innsýn bæði í starfsemina sem þar fer fram og í heim tónlistarinnar. Maxímús hefur hingað til kynnt sér sinfóníuna sjálfa, tónlistarskóla og ballettskóla en í þetta sinn hittir hann fyrir barnakór í kórferðalagi. Höfundar bókanna starfa báðir við sinfóníuna en Hallfríður er flautuleikari og Ólafur Már víóluleikari.

Aðalhetja sögunnar er sem sagt Maxímús Músíkús, pínulítil mús sem hefur tekið upp búsetu í sinfóníunni. Hann hefur unun af því að fræðast um alla hluti sem þar fara fram. Langafi hans hefur þó kennt honum að það sé langöruggast að láta mannfólk ekki sjá sig og hann reynir eftir bestu getu að vanda sig við að fylgja þeim ráðum. Dag einn þegar Maxímús liggur í sólbaði fær hann löngun til að heimsækja sveitina, eins og þá þar sem hann ólst upp. Hann fær óvænt tækifæri til þess að láta ósk sína rætast þegar hann sér hóp af krökkum sem eru á leið upp í rútu. Þau eru í barnakór og eru að fara í æfingabúðir í sveitina. Maxímús slæst í för með þeim en í sveitinni eru ekki bara beljur og blóm í haga heldur líka kisi sem eltir Maxímús um allt. Eftir mikinn eltingarleik tekst honum þó að hrista kisa af sér og rekst þá á stóran hóp af börnum sem æfa sig að syngja saman í kór. Börnin fara svo út til að njóta náttúrunnar og þá verður Maxímús vitni að rifrildi systkina, sem finnst gaman í sveitinni en eru með heimþrá og Maxímús ákveður að brjóta regluna um að aldrei megi láta mannfólk sjá sig til að hjálpa þeim.

Sagan af Maxímús í kórferðalagi er samtvinnuð tónlist og lögunum sem börnin æfa og flytja síðar á tónleikunum. Í lok sögunnar eru bæði Lagið hans Maxa með nótum og texta og lög sem börnin syngja. Bókinni fylgir einnig geisladiskur með tónlistinni þannig að hægt er að lesa og hlusta og upplifa þannig það sem Maxímús upplifir í sögunni. Sjónarhorn Maxímúsar á söguna er skemmtilegt og svolítið framandi, hann stendur utan við það sem gerist en er samt meiri þátttakandi en kórbörnin grunar. Maxímús Músíkús er sniðug leið til að kynna ýmis klassísk verk og þjóðlög fyrir börnum og vel er vandað til verksins. Fróðleikurinn um hvernig það er að vera í kór er fléttaður inn í söguna og verður eðlilegur hluti af henni og tónlistin sem fylgir gerir umfjöllunarefnið lifandi fyrir lesandanum.

María Bjarkadóttir, desember 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins. ...
Skálmöld eftir Einar Kárason
Skálmöld | 28.12.2014
Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds, þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði. ...
Dimmubókin eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
Dimmubókin | 22.12.2014
Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg. Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. ...
Djásn eftir Sif Sigmarsdóttur
Djásn | 22.12.2014
Fantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform. ...
Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Landakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. ...
Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín
Bréfabók | 09.12.2014
Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. ...
Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson
Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Hjartar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar. ...
Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson
Um Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn, Örleif og hvalinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko, og Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. ...
Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur
Gæðakonur | 09.12.2014
Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. ...
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál