Alzheimer tilbrigðin

eftir Hjört Marteinsson

Tunglið, 2014

Margbrotin minni II

Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört MarteinssonEins og titillinn gefur til kynna fjallar þessi ljóðabók Hjartar Marteinssonar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar.

Höfundur hefur í viðtölum skýrt frá því að hugmyndin að ljóðunum sé komin frá afa hans sem ætlaði á efri árum að setjast niður og skrifa æviminningar sínar en sóttist verkið illa þar sem minnið var þá farið að svíkja hann. Sögupersónan í ljóðunum byggir á þessum aðstæðum afans og ljóðmælandi lýsir því hvernig afinn hverfur inn í gleymsku og tekur að blanda saman ólíkum tíma og rýmum. Hugarheimur afans tekur þannig að minna á söguheim symbólískra ljóða þar sem skapast ákveðið rof í skynjun og ólík skynhrif takast á og jafnvel víxlast. Á meðan hann sjálfur og líkami hans er staddur á hjúkrunarheimili er hugurinn kominn mörg ár aftur í tímann þegar hann stundaði sjómennsku úti við Garðskaga. Á sama tíma er hugmyndinni um hið botnlausa minni og gleymsku teflt gegn sögusviði heimahaganna og auðninni á Reykjanesi. Hér endurspeglar ytra landslag hið innra, auðnin táknar gleymskuna og lýsir því á afar frjóan hátt hvernig það, að tapa minninu og um leið sjálfum sér, samsvarar því að hverfa út í auðnina. Þessi hugmynd kemur skýrt fram í ljóðinu „Vitinn“ sem er ákaflega hrífandi:

Vitinn framundan
steingert tré í auðninni
lýsir út yfir víðáttuna
hinum megin
þar sem jafnan er slökkt.

Þegar ljóskeilan fer hjá glugganum
hverfur veröldin
mín megin
og sjóndeildarhringurinn
breytist eitt andartak
í mjólkurgráa helgimynd.

Hjörtur hlaut nú í ár Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Alzheimer tilbrigðin en árið 2000 hlaut hann sömu verðlaun fyrir skáldsöguna AM 00. Áður hefur hann hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör og sent frá sér ljóðabækurnar Ljóshvolfin árið 1996 og Myrkurbil árið 1999. Þá hefur Hjörtur einnig lagt stund á myndlist og haldið málverkasýningar. Myndrænir eiginleikar textans í Alzheimer tilbrigðunum eru áberandi og auðvelt fyrir lesendur að sjá fyrir sér sögusviðið sem ljóðmælandi leitast við að lýsa. Bókin hefst á myndrænum inngangi sem slær tóninn fyrir þema ljóðanna en þar er birt gömul mynd af manni sem gæti verið afinn í ljóðunum. Yfir henni er síða úr hálfgagnsæjum pappír svo að myndin af afanum leysist upp í þoku þegar síðunni er hægt og rólega flett frá myndinni.

Ljóðin eru prósaljóð og frásögnin lýsir ákveðnu ferli sem í upphafi hefur sínar töfrandi og húmorísku hliðar en verður smátt og smátt sorglegri og blákaldari þegar líður á frásögnina. Þá má einnig finna í þeim skapandi sýn á lífið og gráglettinn tón, hlýju og fegurð. Sem dæmi mætti nefna ljóðið „Matsalurinn“ þar sem atferli og hegðun afans tekur að minna á sérvitran konseptlistamann. Hann kaupir sér 3M eyrnatappa, límir þá á vegg og segir við barnabarn sitt þegar það kemur í heimsókn: „Hún er marglit þögnin hérna inni.“ Þessi setning birtir ennfremur þann leik með skynhrif sem einkennir ljóðin og tengja má við fyrrnefnda symbólista. Þá er ljóðið „Kartöflurækt“ einnig gott dæmi um þá lágstemmdu og jarðbundnu töfra sem mér þykir einkenna Alzheimer tilbrigðin öðru fremur:

Þegar afi hafði sett niður kartöfluútsæðið breiddi hann
gamla rúmteppið með rósamynstrinu yfir garðinn;
sagði að það lokkaði til sín birtuna og ylinn. Eftir að
teppið tók óvænt að spíra um sumarið sagðist hann
heyra rósirnar teygja anga sína eftir moldinni þótt
enginn tæki orð hans trúanleg fyrr en þær fóru að
blómstra. (...)

Hér má heldur ekki gleyma að Alzheimer er afar algengur sjúkdómur og flestir lesendur eiga sjálfir sínar sögur og eigin reynslu af ástvinum, ömmum og öfum, sem hafa horfið inn í gleymsku og orðið e.t.v. aðeins skugginn af sjálfum sér. Þær sögur og sú reynsla verða örugglega í bakgrunni við lesturinn. En þrátt fyrir útbreiðslu sjúkdómsins sýna Alzheimer tilbrigðin einnig fram á sértæk einkenni hvers tilfellis fyrir sig sem litast af aðstæðum persónunnar og  þeim áhrifum sem sjúkdómurinn hefur á hana. Ljóðabókin birtir þannig afar næma sýn á minnistap og ljóðin fjalla um gleymsku af djúphygli og hugmyndaauðgi. Höfundur bregður upp táknrænum myndum sem af stafar hlýju og yl en blámi og drungi kurra undir og minna á yfirvofandi endalok.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins. ...
Skálmöld eftir Einar Kárason
Skálmöld | 28.12.2014
Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds, þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði. ...
Dimmubókin eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
Dimmubókin | 22.12.2014
Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg. Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. ...
Djásn eftir Sif Sigmarsdóttur
Djásn | 22.12.2014
Fantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform. ...
Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Landakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. ...
Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín
Bréfabók | 09.12.2014
Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. ...
Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson
Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Hjartar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar. ...
Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson
Um Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn, Örleif og hvalinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko, og Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. ...
Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur
Gæðakonur | 09.12.2014
Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. ...
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál