Bréfabók

eftir Míkhaíl Shíshkín
Þýðandi: Áslaug Agnarsdóttir

Bjartur, 2014

Ástin og krókaleiðirnar

Bréfabók eftir Míkhaíl ShíshkínVið lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. Af þessum höfundum höfum við fengið talsvert í íslenskum þýðingum á undanförnum árum og áratugum (Tolstoj hreinlega nú í ár, þrjú bindi magnaðrar ævisögu). Gogol kemur einnig í hugann, og Turgenév með sinn „óþarfa mann“. En hvað gerðist svo? Á hverju lúra rússneskar bókmenntir dagsins í dag?

Og hvað ætti að gerast? Hvert er rökrétt skref í línulegri þróun?

Saga vestrænna nútímabókmennta er þessi: Módernismi gerði rómantíska kröfu um nýsköpun og frumleika, um sjálfstætt, hugsandi andóf gegn kennivaldi og fjölfaldaðri flatneskju í vélvæddum, sálarsnauðum heimi, gegn stjórnmálalegu valdi, fagurfræðilegu valdi, fyrirfram skilgreindum tilfinningum. Eftirmódernisminn vefengdi frumleikakröfu módernismans og leitaði í lágmenningu, gerði tilraunir með endurritanir, sótti í frelsi þess að segja sögur sem lúta þekktum og fyrirsjáanlegum lögmálum, nautnina við endurtekningu ævintýrisins. Eftirmódernískar bókmenntir voru vísast nær Dostojevskíj en Tolstoj. Þegar Dan Brown lagði undir sig engilsaxneskan markað með sínum marflötu bókum, unnum út frá dirfskulegum fagurfræðihugmyndum Umberto Eco, var ámælislaust að láta sér detta í hug að dvergar hefðu endanlega tekið yfir. Að allar spár um að bókmenntirnar væru að verða hreinn iðnaður hefðu ræst. Ákveðin þröngsýni breiddist hratt út meðal handritalækna sem vildu frásagnarlögmál Aristótelesar ómenguð, klippt og skorin, og með góðu dassi af ódýrum hugmyndum, klisjum, tilfinningavellu og klámi. Tilraunamennska varð óheimil, formalismi jafn mikið skammaryrði og í Sovétríkjunum. Iðnvæddustu boðskapsbókmenntir létu ekki  hvarfla að sér annað en að form og innihald væru allsendis óskyld og leggja skyldi áherslu á innihaldið, sem skuli vera skrúðlaust, bert, laust við hismi auðmeltanlegt, krókaleiðalaust, með einföldum og réttum skoðunum; með öðrum orðum: lítið.

Ætli það sé kirkjubrot að lýsa skáldskap samtímans sem dauðum iðnaði? Rithöfundarnir vensla sig ekki við neitt háfleygt, innri þörf eða hugsjón, dvergvöxnustu höfundar samtímans vilja ekki einu sinni láta kalla sig rithöfunda, þeir hrista skáldskapinn fyrirhafnarlaust fram úr erminni í hjáverkum og tala með fyrirlitningu um pússun stíls, sýsl með orð, formtilraunir. Furðu illa séð er að flækja tímahugsunina út fyrir eðlisfræði Newtons, jafnvel það eitt er glæpur gegn iðnaðinum, líkt og módernisminn hafi gufað upp sporlaust. Spænski skáldsagnahöfundurinn Javier Marías (já, ég neimdroppa bara ef mér sýnist!) segir á einum stað að fyrir höfund sem dedúar við orðin og hefur fyrir hlutunum, kvelst yfir þeirri iðju að skipta út „og“ fyrir „en“, hnika til fastmótuðum formgerðum, að fyrir þannig höfunda sé samtíminn líkt og veröld full af gangandi uppvakningum, og hann vísar í kvikmyndina Night of the Living Dead. Eina leiðin til að komast af er að þykjast vera dauður eins og hinir. Annar spænskur höfundur (reynið ekki að stoppa mig!), Javier Cercas, orðaði það sem svo að í dag þyrfti höfundur að vera galinn til að gangast við því að vera intelektúel, svo illu orði hefði tekist að koma á það hugtak. Við lifum undarlega tíma. Ég hef jafnvel heyrt því fleygt að Italo Calvino sé ekki fyndinn.

Bréfabók eftir rússneska skáldsagnahöfundinn Mikhaíl Shíshkín hefst á víxlskiptum köflum með ástarbréfum elskenda. Og heldur raunar þannig áfram bókina á enda. Tónninn er Hamsunsk einlægni. Sá tónn er erfiðastur af þeim öllum, það er ekki hægt að falsa hann. Einlægnin má ekki vera mærðarleg og ekki væmin, minnsti feiltónn gerir allt falskt og flatt og ómögulegra en allt sem ómögulegt er. Bréf elskendanna fanga lesandann með þeim magnaða svartagaldri sem einlægni getur verið. Þau ræða það sem ástfangið fólk ræðir, um daginn og veginn, um það sem á dagana drífur, um eigin sögu, um lítilsverða hluti; þau skrifa af innileika og ákafa, af viðkvæmni, af tilfinninganæmi. Stundum eru þau upphafin, stundum húmorísk, stundum glögg og greinandi og fróð, alltaf áköf. Stundum með hugdettum, vísindahugmyndum, klassískri heimspeki, eða undursamlegum kenningum með óvæntum snúningum, eins og þessari hér, um kínverskt ritmál:

Það virðist sem skrifmálið hafi upphaflega verið þróað til að skrá niður réttu aðferðina við fórnir. Myndirnar sýndu sjálfa helgiathöfnina, þátttakendurna og áhöldin sem voru notuð við athöfnina. Og það er mjög skiljanlegt. Og svo gerðist hið undraverða! Sjáðu til, það var þannig að þessi leynilega athöfn varð augljós hverjum þeim sem horfði á myndina. Hundur var hundur, fiskur var fiskur, hestur var hestur og maður maður. Og þá fóru þeir að flækja skrifmálið af ásettu ráði svo að einungis innvígðir gætu skilið það. Táknin fóru að frelsast frá trjánum, sólinni, himninum og ánum. Áður höfðu táknin endurspeglað samræmi og fegurð. Í stað samræmis kom nú sjálf skriftin. Núna endurspeglaði skrifmálið ekki fegurðina heldur var sjálf fegurðin!
(bls. 118)

Bréfaskáldsagan er átjándu aldar bókmenntaform. Þessi litla kenning hér að ofan er nettur viðsnúningur á hugmyndum átjándu aldar um tákn og um náttúrulegt tungumál. Eða kannski örlítið eldri hugmyndum, frá málspekihugsuðinum John Wilkins á sautjándu öld, eða öllu yngri, frá nítjándu öld eða úr tuttugustu aldar módernisma þar sem hana má víða sjá. Bréfabók Shíshkíns minnir um margt á hina alhliða skáldsögu módernismans, verkið sem skyldi ná utan um allt og rúma allan heiminn. Og með einhverjum hætti er Bréfabók algerlega tímalaus og raunar í andstöðu við ríkjandi hugmyndir um tímann. Því elskendurnir tveir eru ekki aðeins fjarlæg hvort öðru á sviði rúmsins, þar sem höf og álfur skilja að, heldur kemur fljótlega á daginn að meðan hann, Volodenka, berst í stríði sem má ráða að sé boxarauppreisnin í Kína, situr hún, Sashenka, heima í umhverfi sem virðist miklu nútímalegra en sögusvið þess stríðs, sem átti sér stað undir lok nítjándu aldar (boxarauppreisnin snerist um afleiðingar nýlendustefnunnar, stórveldin sameinuðust þar gegn uppreisn kínverskra þjóðernissinna). Á þessum tímamismun er engin skýring gefin. Hann gengur fullkomlega upp og er eðlilegur í veröld sögunnar.

Það hefur líka verið sannað með tilraunum að það er eitthvað skrýtið að gerast í sambandi við tímann. Atburðir geta komið fyrir í hvaða röð sem er og fyrir hvern sem er. Það er hægt að sitja í eldhúsi og spila á greiðu með sígarettupappír þannig að mann klæjar í varirnar á sama tíma og maður situr í allt öðru eldhúsi og les bréf frá manneskju sem er ekki lengur til. Þú ert hjá tannlækninum, það er búið að stinga nál upp í rótina og pota í taugina, átta öldum síðar hreyfist svo kögrið á borðdúknum í vindinum. Og almennt er það þannig, eins og menn til forna höfðu þegar áttað sig á, að fortíðin fjarlægist ekki með tímanum heldur nálgast.
(Bls. 207-208)

Afsakið orðbragðið, en andskoti er þetta flott! Alveg sama hvort á það er litið frá sjónarhóli nútímavísindanna eða forneskjunnar, út frá ljóðrænu eða mystík. „Fortíðin fjarlægist ekki með tímanum heldur nálgast.“

Eftir því sem á líður verður sagan í senn frásagnarkenndari og kontemplatívari og á köflum er textinn næsta þéttofinn vefur vísana úr hugmyndasögunni. Erkielskendurnir Abelard og Heloise skjóta upp kollinum eftir miðja bók og manni dettur í hug að þar sé kominn lykill bókarinnar. En loftinu er hleypt úr þeirri hugmynd jafnskjótt:

Manstu hvað sonur Abelards og Heloise hét?

Astralobe.

Og hvað varð um þennan Astralobe? Líklega er saga hans ekki ómerkilegri en saga Hamlets. En enginn mun skrifa hana. Hann er óþarfur maður. Hver man eftir honum?

En, sem sagt, ég mundi eftir honum og vorkenndi honum. Kannski dó hann án þess að þurfa að þjást.
(Bls. 217)

Það eru fleiri eru í spilinu en hinir ástföngnu og einnig eru þriðju hjól undir vagni hjá aukapersónum, án þess að ég ljóstri meiru upp. Enda skiptir það engu máli. Raunar er ekki að sjá að dauðinn skipti öllu til eða frá: Án fyrirhafnar, án tilgerðar, án þess að það kalli á sérstakt melódrama eða einu sinni eftirtekt sigrar ástin dauðann, sem þó verður fyrirferðarmeiri eftir því sem líður á söguna. Stríðslýsingar verða harla óhugnanlegar. Fjölskyldumál verða plássfrekari, ást, skilnaður, sjúkdómar, elli, dauði, dauði. Og alltaf þessar litlu furðulega hugljómandi athuganir:

Myndin var tekin um svipað leyti og getnaður minn átti sér stað. Mamma brosir en augun eru samt alvarleg. Pabbi skellihlær – vissi ekkert enn um sjálfan sig, eða mömmu eða mig. Á gömlum ljósmyndum veit almennt enginn nokkurn tíma neitt um sjálfan sig.
(Bls. 253)

Eða kannski er þetta ekki vel valin tilvitnun. Nær væri að benda á næmar sálrænar athuganir á fólki og umhverfi. Höfundur hefur gott auga fyrir slíkum lýsingum, lag á að útmála það sem er kunnuglegt úr lífinu án þess að auðvelt sé að færa það í orð. Honum er vel gefið að draga upp sterkar senur, ölóður faðir í lest á leið að dánarbeði móður meðan dóttirin situr rétt hjá og læst ekki kannast við hann. Tvær konur sem mætast á götu. Erótískar senur. Hversdagssenur.

Endirinn er með sínu móti óvæntur. Ég, hér í þessu plássi, stefni að jákvæðri niðurstöðu. Rétt er að geta þess að umbrotið á bókinni er ekkert sérstakt, það eru of mörg orð á síðunum, þau eru of neðarlega og innarlega, eins og alltof oft vill brenna við. Kápan er fín. Þýðingin er firnagóð, enda eftir þaulvanan þýðanda úr rússnesku. Það er þrautin þyngri að ferja svona texta á milli mála. Afraksturinn er áreynslulaus texti sem ekki gefur afslátt.

Þetta er ástarsaga. Maður tvístígur við að fella Bréfabók beinlínis í einhverja þrönga eða auðveldlega orðaða kategoríu þar sem ást er sannleikur eða sannleiksleit ellegar kastljós sem beinist að samfélagi og sögu og tæpast verður hún heldur flokkuð sem nein ofurvenjuleg ástarsaga. Þetta er stórfurðuleg bók. Svo innilega laus við útskýringar og einfaldanir, svo gersneydd tilhneigingu til að mata lesanda sinn með teskeið á auðveldum lausnum. Svo laus undan aristótelískum kreddum iðnvæddra bókmennta. En þó er hún svo tær. Og í raun sjálfsögð og einföld.  Við lifum undarlega tíma. Meðalmennska er í hávegum höfð. Ég veit ekki að hve miklu leyti það stafar af sérstakri bókmenntahefð Rússa en einhverra hluta vegna er þessi bók ein þeirra sem mynda sannfærandi svar við undarlegum tímum, halda uppi merkjum klassískra bókmennta og búa um leið til eitthvað raunverulega nýtt. Bókin er áskorun og það er gaman að takast á við hana. Þessi magnaða saga um ást og krókaleiðir setur sig saman um leið og lesið er og ekki síður eftir á. Ég á eftir að melta hana lengi.

Hermann Stefánsson, desember 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins. ...
Skálmöld eftir Einar Kárason
Skálmöld | 28.12.2014
Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds, þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði. ...
Dimmubókin eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
Dimmubókin | 22.12.2014
Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg. Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. ...
Djásn eftir Sif Sigmarsdóttur
Djásn | 22.12.2014
Fantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform. ...
Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Landakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. ...
Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín
Bréfabók | 09.12.2014
Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. ...
Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson
Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Hjartar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar. ...
Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson
Um Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn, Örleif og hvalinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko, og Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. ...
Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur
Gæðakonur | 09.12.2014
Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. ...
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál