Kátt skinn (og gloría)

eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

JPV útgáfa, 2014

Furðulegt háttalag ljóðs

Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu ÞrastardótturLandakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. Myndir sem fylgja með minna á landakort – eða borgarkort – og því er ekki úr vegi að hugsa sér að skáldkonan sé að leitast við að kortleggja líkama sinn, í það minnsta að finna honum stað, í ljóðinu. Þetta tekur á sig ýmsar myndir, meðal annars klassískar náttúrumyndir eins og landakortið í „Eldfjallaferð“:

Sorgin í íslensku landslagi
er mikil

þar titra strengir í kulnandi brjóstum og
slitna
undir hamri þar sem enginn
kemur að sjá þig
nema –

aldauða fuglar
búa sér
hreiður í alskeggi
þurfalinga

dysjaðir sandar svíkja
og
drifhvítar kjúkur
leita upp
að slá raddir úr dvergmálum

þó þannig
að dýpstur ymur lifi,
elti

Íslenskt landslag er líkamnað – sem lík, myndmálið vekur upp tilfinningu fyrir grafreit eða ‚dauðraborg‘ (necropolis). Og svo mætti auðvitað tengja þessa miklu sorg við átökin um ‚náttúrupassann‘ svokallaðan, en út í þá sálma verður ekki farið hér.

Önnur landslagsmynd birtist í „Flauelslifur“, en þar erum við komin út í geim – og yfir á svið ævintýrsins, öfugt við hrollvekjuna sem gnauðar yfir „Eldfjallaferðinni“.

Hér
í svo að segja
stjarnrænni
þyngdarmiðju skrokksins

lafir á
bláþræði fjársjóðskista, drjúpandi og flauelsblá

þegjandi um
ævintýrið sem eftir er

Hverjar gersemarnar eru fáum við því ekki að vita, nema að það séu allar þær margvíslegu myndir sem skáldkonan galdrar upp úr líkamanum.

Það er klassískt minni endurreisnarbókmennta að tákngera líkamann sem landakort og það landakort er svo táknmynd ýmiskonar fyrirbæra umheimsins: allt frá himintunglum til heimsálfa, tilfinningum til tálsýna. Líkami mannsins, skapaður í mynd guðs, var fullkomnun sköpunarverksins og í honum endurspeglaðist allur heimurinn á einn eða annan hátt. Líkami konunnar, hinsvegar, var öllu vafasamara fyrirbæri, enda opinn og óljós. En það er einmitt kvenlíkaminn sem er landakortið í ljóðum Sigurbjargar, eins og kemur fram í „Brjóstin mín“, en þau taka á sig form tónlistar, kannski sem forleikur fyrir „Að koma“, en þar er markmiðið að kljúfa „magaveggi“, svo „hráar / legkökur bíði síns / tíma, haldi ró“. Þetta er líkami formleysu og óreiðu, hann tekur stöðugum breytingum og ummyndast að lokum í bát:

Líflína

Húðbátur gjöktir við festar
yst

við hægra hvel
á straumlygnum stað

í botninum pollur
í skutnum
vél
á byrðingum glampandi vefir

hann bíður
þess hriplekur, þrár


ég þurfi eins manns far út úr þessu glensi

Hin lifandi óreiða sem einkennir mörg ljóðanna endar í þessari kyrramynd af lúinni skektu sem bíður átekta.

Í „Strax“ fylgjum við ljóðmælanda eftir inn í líkamann, en þar er hún „Komin útí / orðlausa tjáningu“ og farin að „rissa útlínur í / síryk“:

anda músík og gríp daglangt
um axlarskinn, held svo fast að
mætti túlka, sýg hálsæðar, vísa hári
frá augum, oná kinnbein ef
lóða, yrki
með tárum og skríð
inní hljómbotna

Líkt og flauelslifurin er þögul er tjáning líkamans orðlaus, um það eru fræðikonur sammála, hið líkamlega er andstæða orðsins. En hvernig er þá hægt að ná taki á líkamanum? Með trufluðu tungumáli, truflunum í tungumáli, svona eins og til dæmis í straumþungum ljóðum. Og með músík, en hún kemur hér aftur fyrir, samhliða því sem líkaminn er virkjaður í skrifin – „yrki með tárum“.

Tungumálið sjálft er viðfangsefni ljóðsins „Glithoruð“, en þar fara „Orðskáir herir“ „að / hetjum, hjúum / búaliði“ og „kveðja fast, rista djúpt“. Ljóðmælandi lifir þetta ekki af, „orðsjúk sem ég / er / og tærhúðuð“. Enn á ný er tungumálið tengt húð, með tilheyrandi tilvísunum um skrif á skinn.

Eins og sjá má af þessari lýsingu eru tilfinningar einnig líkamnaðar. Fyrsta ljóð bókarinnar ítrekar þetta, en það nefnist „Dýrmæddir klárarnir í gerðinu“. Ljóðmælandi bendir á að ef hún elskaði þann sem hún ávarpar „yxu þykkri sneiðar / um bein mín / og safar byltust í hvítu leðri“. En svo er víst ekki, því „hér er / frost um nætur // snautt af draumum“. Draumarnir virðast mikilvægir til að hægt sé að elska. En draumarnir geta líka tekið á sig líkamlegar myndir eins og í „Mig dreymdi svo harkalega að“, en þar fær ljóðmælandi blóðnasir af draumförum.

Því fer þó fjarri að hægt sé að fella öll ljóð bókarinnar í einn haganlegan vef, merkja þau inn á skýran uppdrátt af líkamanum og smíða svo módel. Ljóðin skreppa auðveldlega undan tilraunum til að negla niður merkingu, en bjóða jafnframt upp á margháttaða leiki með túlkanir („held svo fast að / mætti túlka“). Þrátt fyrir að greina megi stíga og leiðir um bókina er Kátt skinn (og gloría) ekki eins þéttofin heild og sést hefur í sumum öðrum bókum Sigurbjargar, inni á milli hinna líkamlegu ljóða eru gloríur af ýmsu tagi.

Dæmi um það er „Idjót“, en þar á ljóðmælandi sér idjót sem eltir hana og gerir allskonar gloríur. Stundum er það til vandræða, stundum styrkir það ljóðmælandann í erfiðleikum. Idjótið er karlkyns – „lýsir af honum líkamlegi þokkinn“ – hann stundar kynlíf með ljóðmælanda, en er ósýnilegur öllum öðrum. Hann er mállaus, eins og líkaminn, og „sá eini sem / veit í hvernig myrkri ég vil sofa / og er fullkomlega háður mér um mat“. Hér er auðvitað freistandi að velta fyrir sér hvort idjótið sé einskonar táknmynd líkamans, allavega er það afar áþreifanlegt, þrátt fyrir að vera ósýnilegt. En er þá líkaminn ósýnilegur? Já, á vissan hátt allavega, virkni líkamans er eitthvað sem við almennt flöggum ekki.

Annað ljóð sem býður upp á getgátur er „Gamalt tré“, en við fyrstu sýn virðist það ekki falla inn í líkamsþemað:

Hálfbrotinn bolur
þar sem rjóðrið opnast
neðsta
grein sígur hægt til jarðar

það slitnar
úr himni í september

hér býr ekkert
sem bærist
nema kórsöngur ómar á þýsku
og

Rauðhetta liggur dáin á klöppinni
með þrífalt klófar
á hálsi

En bíðum við: er það ekki þekkt að ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn er táknsaga um kynþroska og nývaknaða kynvitund? Og (trjá)bolurinn, er hann ekki einskonar líkami?

Þannig bjóða ljóðin upp á ýmsar vangaveltur tengdar líkama, tilfinningum og tungumáli, draumum og fjársjóðum. Ljóðið um gamla bolinn og flauelslifurina vísa bæði til ævintýra, á borð við þau sem lesandi getur lent í, fylgi hann órum landakortanna vandlega eftir.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins. ...
Skálmöld eftir Einar Kárason
Skálmöld | 28.12.2014
Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds, þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði. ...
Dimmubókin eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
Dimmubókin | 22.12.2014
Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg. Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. ...
Djásn eftir Sif Sigmarsdóttur
Djásn | 22.12.2014
Fantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform. ...
Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Landakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. ...
Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín
Bréfabók | 09.12.2014
Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. ...
Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson
Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Hjartar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar. ...
Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson
Um Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn, Örleif og hvalinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko, og Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. ...
Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur
Gæðakonur | 09.12.2014
Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. ...
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál