Djásn

eftir Sif Sigmarsdóttur

Mál og menning, 2014

Af frelsi, ánauð og ósýnilegum hlekkjum

Djásn eftir Sif SigmarsdótturFantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform.

Múrinn er fyrri hluti Freyju sögu og kom út í fyrra. Þar er sagt frá framtíðarsamfélaginu í borginni Dónol sem er umkringd háreistum múr. Íbúar lifa í algerri einangrun frá umheiminum, tækni er hverfandi og fátækt og skortur mikil en ógnandi stjórnandi heldur öllu í skefjum. Aðalpersónan Freyja elst upp í borginni hjá ömmu sinni en kemst að því undir lok sögunnar að hún eigi foreldra í Vanheimum, borg sem er handan múrsins. Djásn hefst þar sem Freyju hefur tekist við illan leik að brjótast út og flýja til Vanheima þar sem faðir hennar, forseti Ríkisins eða hins sameinaða Íslands, tekur á móti henni opnum örmum. Hann lofar Freyju að frelsa fólkið í Dónol og hefst strax handa við að búa hana undir að vera krýnd lausnari Ríkisins. Samfélagið í Vanheimum er alger andstæða alls sem Freyja hefur áður kynnst, allt er fallegt, gljáandi og hreint, allir eiga gsm-síma og tölvur og Freyja kynnist Interneti og sjónvarpi í fyrsta sinn á ævinni. Hún telur sig nú hafa lokið verki sínu og frelsað fólk í Dónol undan ánauðinni, en skömmu fyrir krýninguna berst henni bréf sem vekur með henni ugg. Í því er viðvörun til hennar um að hún verði í hættu stödd á krýningunni, en það er meira við bréfið sem vekur óhug og atburðir við krýninguna næsta dag verða til þess að hún fer að efast um að hlutverki hennar sé raunverulega lokið.

Sagan er eins og áður sagði skrifuð inn í hefð dystópískra bókmennta en sú bókmenntategund nýtur töluverðra vinsælda um þessar mundir. Hungurleika-þríleikur Suzanne Collins og Divergent þríleikur Veronicu Roth hafa báðir slegið rækilega í gegn svo dæmi séu tekin. Þó að forminu sé að mestu leyti fylgt hér gætir einnig áhrifa úr öðrum áttum svo sem úr ásatrú og íslenskri menningu. Í sögunni eru íslenskar fornsögur til að mynda orðnar að einskonar helgiritum, hetjur sagnanna eru tilbeðnar eins og guðir og fólk lifir eftir Njáls sögu, Sturlungu og svo framvegis. Ásatrúin er einnig notuð á afar hugmyndaríkan hátt til að undirbyggja söguna. Persónur og staðir bera nöfn úr goðsögum og örlög þeirra haldast að vissu leyti í hendur við örlög goðanna, auk þess sem ákveðnir atburðir eru greinilega byggðir á sögum af ásum. Þetta verður þó ekki til þess að gera söguna fyrirsjáanlega, síður en svo, þar sem atburðarásin tekur reglulega óvænta stefnu og hlutverk persónanna eru stokkuð upp.

Í Djásnum er farið frekar í bakgrunn sögunnar, Íslandssöguna, og því lýst hvað varð til þess að samfélagið er orðið eins og það er. Freyja lærir meira og meira um fortíð lands og þjóðar og eftir því sem hún fær að vita meira skýrist myndin fyrir lesandanum líka. Sögulegur bakgrunnur er vel útfærður og hugsað fyrir öllu þannig að úr verður heildstæð heimsmynd. Uppbyggingu samfélagsins er einnig lýst nánar og sérkennum ólíkra borga í álfunni Íslandi. Samfélaginu í Vanheimum og hinu sameinaða Íslandi, sem samanstendur af fleiri stórborgum, er haldið gangandi með Djásnum, hlutum sem fólk safnar til að eignast framhaldslíf. Greitt er fyrir Djásnin með yfirdrætti sem er borgaður með vinnu og því meira sem fólki hefur tekist að safna sér af Djásnum því meiri tíma fær það í framhaldslífinu. Úr verður stöðug hringrás þar sem fólk kaupir fleiri og fleiri Djásn og vinnur alltaf meira og meira til geta keypt meira. Fólk fórnar hamingjunni, frelsinu og fjölskyldunni og er svo háð því að eignast fleiri Djásn að það veitir því ekki eftirtekt sem stjórnendur gera, eða að það hafi lítið sem ekkert um örlög sín að segja.

Það er fagnaðarefni að þessi bókmenntategund sé að skjóta rótum í íslenskum bókmenntaheimi og að hér sé sýnt og sannað að vel sé hægt að skrifa dystópíur á íslensku og um Ísland. Í bókum af þessu tagi er hefð fyrir þríleikjum en Freyju sögu lýkur með annarri bók og er það ágætis tilbreyting, áherslan verður á að lýsa tveimur ólíkum heimsmyndum innan sama ramma og leysa úr vanda miðað við forsendur hvors um sig. Í sögunni er mikil áhersla lögð á að lýsa samfélaginu, uppbyggingu þess og aðstæðum fólks og er það gert svolítið á kostnað persónusköpunar, vinir og fjölskylda Freyju í Vanheimum verða ekki eins skýrar persónur og þær sem lesandinn kynntist í Múrnum. Freyja sjálf verður samt nokkuð marghliða og innri átökum hennar er lýst af miklu innsæi. Á heildina litið er Djásn vel heppnað framhald af Múrnum og góður lokakafli í sögunni af Freyju og baráttu hennar fyrir frelsi. Samfélagsgagnrýni er áberandi, gagnrýni á neysluhyggju, græðgi og andvaraleysi gagnvart stjórnvöldum og því sem er á seyði í samfélaginu. Margar hliðstæður eru dregnar með nútímasamfélagi og reynt að vekja lesandann til umhugsunar, og tekst bara nokkuð vel að varpa ljósi á hluti sem geta komið okkur í koll ef við erum ekki með hugann við efnið.

María Bjarkadóttir, desember 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason
Þá er komið að síðustu bókinni um Jón Jónsson þar sem hann tekst á við fótboltann, ástina og lífið. Fyrri bækur Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda og Aukaspyrna á Akureyri sem kom út í fyrra hlaut Bókaverðlaun barnanna, þar sem lesendur sjálfir velja bestu bók ársins. ...
Skálmöld eftir Einar Kárason
Skálmöld | 28.12.2014
Skálmöld er fjórða og jafnframt síðasta bók Einars Kárasonar um atburði og persónur Sturlungaaldar. En þótt Skálmöld sé síðasta bókin í Sturlungakvartett Einars er hún ekki framhald Skálds, þriðju bókarinnar, heldur er um að ræða svokallað „prequel“. Skálmöld er með öðrum orðum fyrsta bókin í kvartettnum, en þar er fjallað um atburði sem eiga sér stað á undan þeim sem fjallað er um í Óvinafagnaði. ...
Dimmubókin eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
Dimmubókin | 22.12.2014
Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg. Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. ...
Djásn eftir Sif Sigmarsdóttur
Djásn | 22.12.2014
Fantasíur eru bókmenntaform sem oft er notað til að koma á framfæri gagnrýni á samfélagið í heild eða að hluta. Þegar vel er að verki staðið geta þær vakið athygli á einhverju sem við erum löngu orðin samdauna og hætt að taka eftir, með því að setja það í nýjar og óvæntar aðstæður og gera það framandi. Ein af undirgreinum fantasíunnar er dystópían, sem lýsir framtíðarsamfélagi þar sem allt er farið úr skorðum og inniheldur gjarnan alvaldan einræðisherra stjórnar fólki með ofbeldi og ógnum. Freyju saga fellur undir þetta bókmenntaform. ...
Kátt skinn (og gloría) eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Landakort og kortlagningar hafa sett mark sitt á ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún er iðulega á ferð, stundum á óþekkjanlegar slóðir. Fyrsta bók hennar sem vakti verulega athygli var Hnattflug (2000) og á síðasta ári sendi hún frá sér ljóðabókina Bréf frá borg dulbúinna storma sem, eins og titillinn gefur til kynna, er einskonar kveðja frá öðru landi, nánar tiltekið frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Í bókinni Brúður vinnur hún út frá orðinu brúðir og leikur sér með fjölmargar tilvísanir þess. Í nýjustu ljóðabók sinni, Kátt skinn (og gloría), er ferðalagið meira inn á við, eða réttara sagt, ferðin fer ekki langt, því hún hverfist að miklu leyti um líkamann. ...
Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín
Bréfabók | 09.12.2014
Við lifum undarlega tíma. Ég veit að það kemur málinu ekki við. Raunar er það áhugaverðasta við ritdóma einatt það sem kemur málinu ekki beinlínis við. Þannig að: Við lifum undarlega tíma. Á okkar undarlegu tímum eru bókmenntirnar orðnar iðnaður. Já, ég veit að það hljómar eins og svartagallsraus en það gera kenningar í loftlagsfræðum líka. Tökum rússneskar bókmenntir. Á nítjándu öld voru þær fullar af risum. Risarnir skrifuðu tröllaukinn skáldskap með stórum hugmyndalegum dráttum og stórfengnum persónum. Risunum er stundum skipt í tvennt: Annað hvort voru þeir af skóla Dostojevskíj, með melódramatískum einkennum og frásagnarspennu, eða Tolstoj, með fíngerðari hughrifum og meiri texta, texta í merkingunni lýrík. ...
Alzheimer tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson
Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Hjartar um Alzheimer sjúkdóminn sem er bæði óhugnanlegur sjúkdómur og áhugaverður, því hann einkennist hvort tveggja af minni og gleymsku, sem hvort um sig eru óþrjótandi viðfangsefni. Segja má að minni sé grundvallaratriði hugverunnar og órjúfanlegur þáttur í sjálfi hennar. Við það að missa minnið glötum við þeim sögum og frásögnum sem eru undirstaða persónu okkar og um leið missum við tökin á því hver við erum. Hugtakið „tilbrigði“ í titlinum minnir á tónlist en einnig á symbólíska ljóðagerð þar sem brugðið er upp táknrænum senum sem takast á við hugmyndir um skynjun og skynhrif. Þá felur orðið einnig í sér umbreytingu eða viðsnúning sem verður til dæmis á manneskju sem veikist af alzheimer. Það má gera sér í hugarlund að sú breyting eigi ekki aðeins við um persónuna frammi fyrir ástvinum og ættingjum heldur verði hún í hugarheimi og heimsmynd hennar sjálfrar. ...
Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson
Um Fuglaþrugl og naflakrafl eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn, Örleif og hvalinn eftir Julian Tuwim og Bohdan Butenko, og Maxímús Músíkús kætist í kór eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. ...
Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur
Gæðakonur | 09.12.2014
Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. ...
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn
Draugagangur á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn er framhald bókarinnar Strokubörnin á Skuggaskeri sem kom út í fyrra. Þar kynntist lesandinn hópi barna sem fær leið á ósætti og stríði heima fyrir og ákveður að flýja til Skuggaskers, sem er mannlaus og frekar draugaleg eyja skammt frá Fagradal þar sem börnin eiga heima. Nú hafa foreldrar barnanna loksins samið um frið og freista þess að fá börnin til að snúa heim. Áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir því börnin neita að koma með þeim. Þau ætla að vera á Skuggaskeri um sumarið á meðan foreldrarnir vinna að því að byggja samfélagið upp að nýju. Hringur, Lína og tvíburasysturnar Anna og Beta ætla að búa áfram í gráa húsinu á eyjunni ásamt systkinunum Reyni og Björk, og Karra sem bjó á eyjunni áður en hin komu. Kornelía, amma Bjarkar og Reynis, bætist í hópinn en hún ætlar að vera hjá þeim í nokkra daga eða þangað til fullorðna fólkið kemur aftur með vistir. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál