Ég elska máva

eftir Þorgrím Þráinsson

Mál og menning, 2015

Af því sem mestu máli skiptir

Ég elska máva eftir Þorgrím ÞráinssonÞorgrímur Þráinsson hefur sent frá sér fjölda barnabóka og tvisvar hlotið íslensku barnabókaverðlaunin, árið 1997 fyrir Margt býr í myrkrinu og árið 2010 fyrir Ertu guð afi. Hann hefur að mestu einbeitt sér að barna- og unglingabókum og hefur farið víða í vali á umfjöllunarefni. Ég elska máva er líkt og Ertu guð afi á andlegu nótunum og er hér blandað saman daglegu lífi tveggja barna og djúpri lífsspeki, sem er á köflum afskaplega falleg og full innsæis.

Aðalpersóna sögunnar er Anton sem er 12 ára og gengur í Melaskóla í Reykjavík. Hann er ekki mjög vinamargur en á eina bestu vinkonu í bekknum sem heitir Pandóra og þau vinirnir verja flestum stundum saman. Eldsnemma einn morguninn flýgur bréfdúfa inn um svefnherbergisgluggann hjá honum og er með skilaboð bundin um fótinn. Fuglinn forðar sér aftur út áður en Anton nær að nálgast hann en Anton er sannfærður um að skilaboðin hafi verið til hans og að þau séu mikilvæg. Þegar hann bíður þess að fuglinn komi aftur með bréfið birtist í staðinn dularfull ljósvera sem tekur Anton tali og þrátt fyrir að hann hafi miklar efasemdir í fyrstu ákveður hann að hlusta á það sem veran hefur að segja. Veran veitir Antoni innsýn í ýmis mikilvæg mál og í kjölfarið hefur hann um margt að hugsa.

Þegar Pandóra mætir ekki í skólann skömmu seinna áttar Anton sig á að eitthvað hljóti að hafa komið fyrir hana. Þar sem Pandóra á engan annan að ákveður hann að hafa uppi á henni og hjálpa henni ef eitthvað skyldi hafa komið fyrir, en til þess að geta gert það verður hann að yfirvinna óöryggi sitt og læra að treysta á sjálfan sig. Anton fær óvænta aðstoð við ætlunarverk sitt þar sem bréfdúfan kemur aftur við sögu og hann kemst líka að því að vinir geta leynst víðar en maður á von á.

Margir þræðir eru fléttaðir saman í sögunni og tengjast allir beint eða óbeint Antoni og Pandóru. Daglegt líf þeirra tveggja er samt sem áður í fyrirrúmi og er býsna ólíkt. Anton býr með mömmu sinni, stjúpa og hálfsystur en pabbi hans lést fimm árum áður en sagan hefst. Anton saknar pabba síns mikið og finnst hann ekki fá að syrgja í friði fyrir stjúpanum sem honum finnst koma illa fram við sig. Pandóra er hins vegar hálfgerð Lína Langsokkur. Hún býr sama sem ein í blokkaríbúð í Vesturbænum þar sem mamma hennar vinnur erlendis og pabbi hennar er sjómaður. Hún á reyndar afa sem hún getur leitað til en gerir það ekkert allt of mikið. Antoni finnst fjölskyldan sín yfirþyrmandi og er í stöðugri uppreisn gegn henni á meðan Pandóra er nánast yfirgefin; án foreldra hefur hún litla peninga til að kaupa mat og þó að hún láti líta út fyrir að hún lifi frjálsu og spennandi lífi er hún oft einmana. Það eru svo ekki bara aðstæður barnanna sem eru ólíkar heldur einnig persónuleikar þeirra. Allt virðist leika í höndunum á Pandóru en Anton er aftur á móti óöruggur og kvíðinn, hann er með Tourette sem gerir að verkum að hann á erfitt með að sitja kyrr í skólanum og erfitt með nám og lestur. Pandóra reynir að stappa í honum stálinu, við misjafnan árangur, en hún hefur tekið að sér að vera verndari hans bæði innan veggja skólans og utan.

Ég elska máva er nokkuð flókin og margþætt. Inn í daglegt líf barnanna í skólanum og heimafyrir er til að mynda fléttað frásögnum úr bókum sem Pandóra les og sem hafa mikil áhrif á þau bæði. Sagan er svo á köflum mjög dularfull, ljósveran sem birtist Antoni fer með hann á staði sem eru handan þessa heims og svo virðist sem skólahúsvörðurinn Hallfreður, sem er nýlega látinn í sögunni, hafi skilið eftir skilaboð til að hjálpa þeim. Ljósveran, Hallfreður og fleiri færa börnunum ýmsa speki um lífið og tilveruna. Anton tekur fróðleikinn sérstaklega sín og hann vekur hann til umhugsunar um margt sem mætti betur fara og hvernig hann geti stuðlað að bótum. Tónninn í sögunni er í fyrstu nokkuð leitandi og sögumaðurinn talar í upphafi nokkrum sinnum um Anton og Pandóru sem drenginn og telpuna, sem virðist svolítið úr takti við stílinn í heild. Eftir því sem líður á er frekar vísað til þeirra með nafni en við það verður tóninn afslappaðri og sögumaðurinn kemst nær persónunum.

Sagan er grípandi og lesandinn fær mikla samúð með Antoni og Pandóru. Anton þroskast mikið og lærir að standa á eigin fótum þegar Pandóra er fjarverandi en hann lærir líka hversu mikilvægt er að hafa trú á sjálfum sér. Ekki er leyst úr öllum þráðunum í lok sögunnar og er það viljandi gert. Ekki svo að skilja að lesandinn sé skilinn eftir í lausu lofti heldur er nokkrum spurningum haldið opnum svo hann geti velt fyrir sér framhaldinu sjálfur. Í boðskapnum sem börnunum í sögunni er kynntur er meðal annars deilt á neysluhyggju, sýndarmennsku og hraðann og stressið í samfélaginu. Lesandinn er vakinn til umhugsunar um það hvað er mikilvægast í lífinu og hvað vinátta, umhyggja og virðing hafi góð áhrif á sálina og er það boðskapur sem er vel þess virði að taka til sín.

María Bjarkadóttir, desember 2015


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Sögumaður eftir Braga Ólafsson
Sögumaður | 04.02.2016
Á rigningardegi í júní, meðan heimsmeistarakeppnin í fótbolta stendur sem hæst, fer G. á pósthúsið í miðbænum til að póstleggja handrit að skáldsögu. Meðan hann bíður í röð á pósthúsinu sér hann mann sem hann kannast við. Maðurinn reynist vera hinn hálfbrasilíski Aron Cesar, sem G. álítur vera vandræðadreng og jafnvel tengjast undirheimunum. G. ákveður, án þess að hafa skýra ástæðu til, að elta Aron Cesar. Eftirförin í gegnum miðbæ Reykjavíkur verður að þungamiðju frásagnarinnar en hún er einnig krydduð með misskýrum endurlitum og hugleiðingum G. ...
Lóaboratoríum: nýjar rannsóknir
Nýjar rannsóknir er samansett úr fjölbreyttum einnar síðu myndasögum, sem eru allt frá því að vera eins ramma og orðlausar yfir í margra ramma og fjölmálga myndasögur. Þrátt fyrir að engar sagnanna nái lengra en eina blaðsíðu í senn er sterk innbyrðistenging milli þeirra í gegnum umfjöllunarefni og myndrænan stíl. Margir ættu að þekkja til efnistaka og teiknistíls Lóu þar sem myndasögur eftir hana birtast reglulega í dagblöðum og á netinu. Stíll Lóu er oft ‚naívur‘ eða einfaldur og einkennist af feitlaga manneskjum – sem eru oftar en ekki rjóðar í kinnum og freknóttar. Sparlega er farið með skyggingar og aðra tækni til að veita myndunum raunverulegri blæ og þess í stað fær lita- og sköpunargleðin að njóta sín. ...
Útlaginn eftir Jón Gnarr
Útlaginn | 21.01.2016
Útlaginn eftir Jón Gnarr í samvinnu við Hrefnu Lind Heimisdóttur er þriðja verkið sem Jón sendir frá sér í röð sjálfsævisögulegra verka og er því framhald af Indjánanum og Sjóræningjanum sem notið hafa mikilla vinsælda og verið þýddar á þó nokkur tungumál. Hér eru það unglingsárin sem eru undir og bókin er sú lengsta í flokknum, enda liggur sögumanni ýmislegt á hjarta. Fyrri hlutinn fjallar einkum um dvöl hans á Núpi í Dýrafirði, þeim sögufræga heimavistarskóla sem fjölmargir svokallaðir ‚vandræðaunglingar‘ úr bænum voru sendir í og margar sögur gengu um á sínum tíma. Síðari hlutinn segir frá árunum sem fylgja á eftir, þar sem hann reynir fyrir sér í ýmiss konar verkamannavinnu og kannski ekki síður í atvinnuleysi, sem honum finnst nú fara sér best. ...
Í leyfisleysi: ástarsaga eftir Lenu Andersson
Bækur um þráhyggju og ranghugmyndir eru oft erfiðar aflestrar, þ.e.a.s. þegar vel er haldið á penna, mann langar til að henda bókinni út í horn, vill ekki hlusta á þetta, vill allra helst snúa af þeirri augljósu braut hörmunga sem söguþráðurinn er kominn á, í stuttu máli geta þær gert lesandann galinn. ...
Drauga-Dísa eftir Gunnar Theodór Eggertsson
Drauga-Dísa | 18.12.2015
Tilhugsunin um að geta ferðast í tíma hefur heillað marga enda býður tímaflakk upp á endalausa möguleika. Kannski væri hægt að breyta fortíðinni eða sjá framtíðina, eða að upplifa merkilega sögulega atburði og sjá hvernig fólk lifði í raun fyrir mörg hundruð árum. Í Drauga-Dísu eftir Gunnar Theodór Eggertsson verður þessi draumur margra að veruleika þegar hin 14 ára gamla Dísa uppgötvar tímahlið í sumarbústaðarlandi foreldra sinna. Gunnar Theodór hlaut íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bók sína Steindýrin árið 2008 en sjálfstætt framhald hennar, Steinskrípin, kom út árið 2012. ...
Dimma eftir Ragnar Jónasson
Dimma | 18.12.2015
Það spunnust nokkrar umræður um Dimmu Ragnars Jónassonar eitt morgunsárið á Borgarbókasafninu. Einni fannst bókin ekki mjög merkileg – hann hefur skrifað betri bækur, sagði hún með þunga –, annarri fannst hún bara sallafín. Mér leiddist aldrei lesturinn, sagði ein, ég lagði hana ekki frá mér, sagði önnur. Sú sem hafi verið skeptískust var sammála þessu. Ég velti því upp hvort það væri endilega málið að ætlast til að allt væri merkilegt? hvort það væri ekki bara allt í lagi að sumar bækur væru ágætar, ánægjuleg afþreying á meðan lestrinum stæði, og það gátu allar verið sammála um. Hún kemur líka inn á allskonar hluti sem eru til umræðu í samfélaginu, það var líka sameiginleg niðurstaða. Og svo má líka alveg enda svona, bætti sú við, sem í upphafi hafði verið minnst hrifin. ...
Ég elska máva eftir Þorgrím Þráinsson
Ég elska máva | 18.12.2015
Ég elska máva er líkt og Ertu guð afi á andlegu nótunum og er hér blandað saman daglegu lífi tveggja barna og djúpri lífsspeki, sem er á köflum afskaplega falleg og full innsæis. ...
Nautið eftir Stefán Mána
Nautið | 18.12.2015
Líkt og fyrri verk Stefáns Mána hentar Nautið vel til myndrænnar útfærslu en mikið er lagt upp úr nákvæmum lýsingum og sviðsetningum eins og kemur vel fram í tveimur fyrstu köflum bókarinnar. Í fyrsta kaflanum, sem rammar verkið inn, segir frá tveimur erlendum stúlkum á ferð um Ísland. Bíllinn bilar og símasamband næst ekki og því ganga þær af stað í von um hjálp. Það er hábjartur dagur og glampandi sól sem undirstrikar enn frekar þá ógeðfelldu sýn sem blasir við þeim þegar þær banka upp á að Uxnavöllum. ...
Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Humátt | 17.12.2015
Þjóðsagan gengur ljósum logum um ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, humátt. Fyrri ljóðabækur hennar hafa heimsótt sagnir og ævintýri, eins og í Slitur úr orðabók fugla frá síðasta ári, en þar voru sagðar sögur af fuglum, eða réttara sagt endursagðar, því Guðrún hefur sérstakt lag á því að taka þjóðsögur, ævintýri og sagnir og smíða úr þeim nýja gripi. ...
Þýska húsið eftir Arnald Indriðason
Þýska húsið | 16.12.2015
Tímabil hernámsins og seinni heimstyrjaldar hefur verið áberandi í sögum Arnaldar Indriðasonar frá upphafi og er honum greinilega hugleikið. Þetta ætti í sjálfu sér kannski ekki að koma mikið á óvart þegar við skoðum það út frá glæpasagnaforminu. Glæpasagan hefur lengi tengst stríðsbókmenntum að mörgu leyti. Stríðsástand býður upp á margar þær forsendur sem liggja glæpasögunni til grundvallar: ofbeldi, manndráp, morð, feluleiki og njósnir – sem allt myndar ógn við lög og hugmyndafræði samfélagsins og þarf því að afhjúpa og vinna á móti til þess að endurheimta það siðferði sem samfélagið byggist á. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál