Klækir

Sigurjón Pálsson

Útgáfa höfundar, Reykjavík 2011

KlækirSigurjón Pálsson kynnir sig á bókarkápu Klækja sem hönnuð og “óskrifað blað í íslenskri bókmenntasögu”. Það má bæta því við að bók á borð við þessa hefur heldur ekki áður tilheyrt íslenskri bókmenntasögu. Bókin er 350 þéttprentaðar síður og tekur dágóðan tíma að krafla sig í gegnum hana. Undirtitillinn er „Spennusaga“ og það er orð að sönnu. Hún sver sig í ætt við margar systur sínar erlendar þar sem atburðarás verður oft flókin og mikið er lagt undir og við sögu koma menn í háum embættum, forsetar og ráðherrar, enda oft örlög sjálfrar heimsbyggðarinnar að veði og koma slíku mektarfólki við. Þetta tekst misvel, og þess jafnvel dæmi að ágætustu höfundum skjótist þótt skýrir séu. Mig rekur minni til þess að hafa lesið ágætis spennutrylli eftir einn þessara höfunda, Christopher Reich, og teygt mig strax eftir þeirri næstu eftir hann en sú reyndist hrútleiðinleg. Bretarnir Colin Forbes og Frederick Forsyth eru ágætir höfundar af þessum toga og marga fleiri mætti telja en þekktastur mun þó vera Robert Ludlum sálugi sem reit m.a. bækurnar um týnda njósnarann Bourne.

Klækir er sem sagt viðamikil saga sem berst víða um lönd og segir frá þremur kynslóðum. Hin eiginlega saga hefst 1964 og lýkur um haustið 2009. Söguþráðurinn er nokkuð flókinn og erfitt að gera grein fyrir honum í stuttu máli. Það má þó segja að tvær fjölskyldur eigi hér hlut að máli, önnur íslensk og hin afgönsk. Sú íslenska fær meira vægi í frásögninni sem eðlilegt er og einn afganinn, Assad Reza. Ung íslensk kona, Hrafna Huld, verður til þess að bjarga bandarískum öldungadeildarþingmanni frá því að verða myrtur af hryðjuverkamönnum í Afganistan. Með því fer röð atvika í gang. Þetta er sem sé meginþráður sögunnar en hún er þó allt að því hálfnuð áður en að þessum atburðum kemur. Það er því augljóst að margt annað hangir á spýtunni og ekki síst saga þessarar íslensku fjölskyldu, foreldra Hröfnu og jafnvel afa og ömmu. Forseti Bandaríkjanna kemur við sögu og einn fyrrverandi forseti lýðveldisins Íslands. Það er ekkert verið að skafa af því þegar kemur að ráðamönnum, alveg í stíl við erlendar spennusagnabókmenntir. Íslenska sérstæðan er þjóðsaga eða munnmælasaga sem er í upphafi bókar og afleiða hennar, alíslensk fylgja Hröfnu.

Höfundur lýsir hver hugmynd hans er að baki margra, að því er virðast, tilviljankenndra funda ýmissa og ólíkra persóna bókarinnar. Hann hefur þar að viðmiði hin svonefndu sex stig aðskilnaðar, að það það þurfi að hámarki að telja sex manneskjur frá þér (maður þekkir mann sem þekkir mann sem þekkir mann sem...) þar til að þú getir tengt þig við nánast hvern sem er, hvar sem er. Gott og blessað, og bara gaman að þeim spekúlasjónum. Í því sambandi má minnast á leikritið Six Degrees of Separation eftir John Guare, einnig Six Degrees: The Science of a Connected Age eftir Duncan Watts og A Mere Six Degrees of Separation: Social Networks, Kevin Bacon, and the Small World Experiment

Það verður að segjast að Sigurjóni tekst bara nokkuð vel upp. Það hlýtur að hafa tekið tímann sinn að rita þessa löngu sögu. Bókin er þrælspennandi og það var tilhlökkunarefni að snúa til hennar að kveldi dags. Manni fannst kannski nóg um alla útúrdúrana, þeir voru kannski ekki allir nauðsynlegir. Það hefði mátt skera eitt og annað niður. En það var samt aldrei leiðinlegt, aðeins of miklar útskýringar stundum eins og höfundur treysti ekki lesendum sínum til að ná boðskapnum fullkomlega.

 Stíll sögunnar er kannski engin snilld en góðir sprettir á köflum og Sigurjóni lætur vel að lýsa umhverfi; til að mynda íslenskri (og afganskri) náttúru. Stundum getur orkað tvímælis að skipt er úr þriðju persónu í fyrstu persónu í einni og sömu málsgrein. Slíkt ásamt ýmsum innsláttarvillum segir manni að yfirlestri hafi verið áfátt og kannski enginn verið. Innsláttar- og inndráttarvillur, og ýmislegt annað smálegt þess háttar sem úði og grúði af náði þó ekki að pirra þann sem þetta ritar svo mikið að hann lokaði bókinni. Sagan sem sögð er hefur vinninginn yfir fagurfræði uppsetningarinnar á textanum.

Ingvi Þór Kormáksson, febrúar 2012


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál