Umfjöllun um bækur

Hér er hægt að lesa greinar um bækur eftir leika og lærða, gagnrýni bókmenntafræðinga um ný verk og pistla frá lesendum um ýmis konar lesefni.

Ef þú hefur verið að lesa áhugaverða bók sem þú vilt benda öðrum á, sendu okkur þá endilega línu, hvort sem bókin er gömul eða ný, íslensk eða erlend.

Gagnrýni um bækur er raðað eftir útgáfuárum verka hér til vinstri og lesendapistla má nálgast undir liðnum Ég les.


Eitt andartak
Eitt andartak í einu er fyrsta skáldsaga Hörpu Jónsdóttur fyrir fullorðna. Áður hefur hún sent frá sér ljóðabókina Húsið og hina sallafínu barnabók Ferðin til Samiraka sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin. Bækurnar þrjár eiga það sameiginlegt að gerast úti á landi, sögusvið fyrri bókanna er Ísafjörður en ónefnt sjávarpláss úti á landi er sögusvið nýju skáldsögunnar og það minnir einna helst á Flateyri. ...
Carpe diem
Carpe diem | 22.12.2011
Í unglingaskáldsögu þeirra Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur og Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur, Carpe diem, segir frá Birnu sem er nýflutt inn til móðurömmu sinnar ásamt móður sinni og litla bróður eftir að fjölskyldan missti leiguíbúð sína í Breiðholtinu vegna vanskila. Mamman drekkur mikið og hugsar lítið um heimilið og börn sín, enda kemur fram að hún hugi aldrei að kvöldmatnum fyrr en klukkan sé að verða hálf sjö. Föður sinn hefur Birna ekki séð árum saman. Hallgrímur, hin aðalsöguhetja Carpe diem, er öllu lukkulegri. Hann á prýðisgóða foreldra og móður sem er frábær kokkur. Birna og Hallgrímur taka fyrst hvort eftir öðru á grímuballi í skólanum, Birna í rifnum svörtum ruslapoka en Hallgrímur í rándýrum sjóræningjabúningi. Þau falla hvort fyrir öðru en ýmislegt kemur í veg fyrir að þau geti lifað hamingjusöm til æviloka. ...
Þankaganga 2
Þankaganga 2 | 21.12.2011
Þankaganga 2 er önnur bók þeirra Völu Þórsdóttur og Agnieszku Nowak um hina pólsk-íslensku Súsönnu. Í fyrri bókinni glímir Súsanna við það vandamál að geta ekki sagt „s“. Þar snúast vandræði hennar síst um það að hún er nýbúi eða útlendingur, hvorki „alvöru“ Íslendingur né Pólverji. Þvert á móti er lögð áhersla á að allir geti fundið sig í vandamálum Súsönnu – enda erum við, þegar allt kemur til alls, meira og minna eins. ...
Gegnum glervegginn
Gegnum glervegginn | 19.12.2011
Ein athyglisverðasta barnabókin í ár er Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Bókin segir frá hinni ungu prinsessu Áróru sem er þrettán ára og hefur eins lengi og hún man eftir sér verið lokuð inni í hvítu glerhvolfi. Þar inni eru aðstæður eins og best verður á kosið fyrir unga prinsessu og hún hefur allt sem hún þarf til að líða vel. Einu tengsl hennar við heiminn fyrir utan hvolfið eru skjáir sem síga niður af og til með ópersónulegum skilaboðum frá foreldrum hennar og kennurum. Það eina sem hana skortir í hvolfinu er félagskapur annars fólks en hún hefur ekki hitt aðra manneskju svo árum skiptir. Áróra veit ekkert um það sem gerist utan glerveggsins, þekkir bara þá mynd sem henni er sýnd á skjáunum af góðu fólki og fallegu umhverfi. Þetta breytist allt á svipstundu þegar hún finnur einn morguninn dreng í hvolfinu sem er á svipuðum aldri og hún sjálf, drengurinn er illa slasaður og Áróra ákveður að hjálpa honum. Hann reynist heita Rökkvi og er sonur konunnar sem þrífur og fyllir æa matinní hvolfinu á meðan Áróra sefur. ...
Ríólítreglan
Ríólítreglan | 19.12.2011
Ríólítreglan er nýjasta bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur en hún hefur áður sent frá sér fjölda barnabóka og er meðal annars þekkt fyrir hinar bráðskemmtilegu bækur um Fíusól. Hér er sagt frá vinunum Nóa, Steini, Mónu, Gloríu og Digga en þau koma frá ansi ólíkum heimilum og aðstæður þeirra eru mismunandi eftir því. Heima hjá Nóa snýst allt um að sjá til þess að álfarnir sem halda til í húsi fjölskyldunnar séu sáttir og mamma Nóa er með þá á heilanum. Líf fjölskyldunnar er af þessum sökum oft nokkuð flókið og þau þurfa að standa í alls konar athöfnum og reglum sem álfarnir leggja til. Steinn er hins vegar alinn upp hjá afa sínum sem nú er orðinn aldraður og nýfluttur á hjúkrunarheimili. Frændi Steins átti að sjá um hann en hann er farinn til Kaupmannahafnar og hefur sjaldan samband. Steinn sér eiginlega um sig sjálfur þrátt fyrir að vera bara fjórtán ára og er orðinn ansi góður passa að ekki komist upp um hann. Móna býr með foreldrum sínum en pabbi hennar ferðast mikið. Þar sem mamma Mónu á við pillufíkn að stríða lendir heimilishaldið að miklu leyti á Mónu sem þarf líka að sjá um mömmu sína, á meðan pabbinn virðist lítið skipta sér af. Gloría og Diggi koma svo úr allt öðrum veruleika. Þegar Gloría var sex ára og Diggi þriggja flúðu þau ásamt móður sinni frá Kólumbíu. Vopnaðir menn höfðu ráðist inn á heimili þeirra og myrt pabba barnanna en þau og móðir þeirra komust undan við illan leik. Mamma þeirra vinnur myrkanna á milli og rúmlega það til að sjá fyrir þeim og þau systkinin þurfa að vera mikið ein og bjarga sér sjálf. ...
Brakið
Brakið | 16.12.2011
Eftir vinsældir síðustu bókar Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, hugsaði maður með sér að erfitt yrði fyrir höfundinn að skrifa bók sem jafnaðist á við hana eða tæki henni jafnvel fram. Samt voru deildar meiningar um ágæti hennar. Sumum fannst illa farið með góðan efnivið og höfundur segist í viðtölum hafa verið mjög tvístígandi og óviss um að hún væri að gera rétt. Flestir tóku þó fagnandi þessum gæsahúðarvaka og vissulega var ekki hægt annað en dást að því hve vel Yrsu tókst að skapa bæði spennu og hrylling. Bókin hlaut Blóðdropann fyrir bestu glæpasöguna þótt hún væri á mörkum tveggja heima, glæpa og hryllings. Það fór heldur minna fyrir glæpasöguplottinu, en það var þarna í bakgrunni og býsna gott sem slíkt. Yrsa er ansi góð að plotta eins og vel kemur fram í nýjustu bók hennar sem nefnist Brakið. ...
það sem ég hefði átt að segja næst - þráhyggjusögur
Hún lætur ekki mikið yfir sér, ljóðabók Ingunnar Snædal, þó hún beri þennan ógnarlagna titil: það sem ég hefði átt að segja næst – þráhyggjusögur. Við fyrsta lestur fannst mér bókin helst til daufleg og ekki eins brakandi fersk og ég hef átt að venjast frá þessari skáldkonu. En svona er ljóðið, lúmskt og útundir sig, við annan lestur greip bókin mig föstum tökum og ég dróst inn í þennan heim þráhyggju og landsbyggðalífs. ...
Tannbursti skíðafélagsins
„Ég get ekkert sagt“ voru einskonar einkunnarorð ljóðabókar Antons Helga Jónssonar, Ljóð af ættarmóti sem kom út á síðasta ári. Orðin eru athyglisverð í ljósi þess að ljóðskáldið hafði lengi vel ekki látið mikið á sér kræla, en reyndist svo, þegar til kom, hafa mikið að segja. Ekki sér fyrir endann á því, nú hefur Anton Helgi Jónsson sent frá sér aðra bók, Tannbursta skíðafélagsins. ...
Frönsk svíta
Frönsk svíta | 13.12.2011
Samtímis innrás Þýskalands í Frakkland í seinni heimsstyrjöldinni vann Irène Némirovsky, franskur rithöfundur af úkraínsku bergi brotinn, að því að sníða skáldskap úr atburðinum – Franska svítu. Némirovsky var mikilsmetinn og vinsæll rithöfundur fyrir stríðið, en var af gyðingum komin og féll því í ónáð eftir því sem leið á átökin. Árið 1942 var hún tekin höndum og færð til Auschwitz, þar sem hún lét lífið. Henni auðnaðist ekki að ljúka við stórvirkið sem Frönsk svíta átti að verða, en hér eru fyrstu tveir hlutarnir, af þeim fimm sem hún hafði ætlað sér að mynduðu heildarverkið. ...
Radley fjölskyldan
Radley fjölskyldan | 13.12.2011
Radley fjölskyldan eftir Matt Haig kom út í tæka tíð fyrir Bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum vikum síðan. Það hefur verið um það leyti sem hinir allra forsjálustu fóru að huga að jólunum, nú ætla þau að ganga í garð þarnæstu helgi. Mér dettur þannig í hug að bókin sé eins og jólaseríuflækja sem ég fékk í fangið í september og ætla loks að ná að greiða úr korteri fyrir jól. Þessi myndlíking þarf ekki að vera neikvæð í sjálfu sér; það er gott að hafa eitthvað til að dunda við á haustin. Á hinn bóginn felur hún vissulega í sér upplifun mína á bókinni, lestrinum sjálfum. Í fyrsta lagi að Radley fjölskyldan hafi ekki verið það spennandi lesning að ég hafi rennt í gegnum hana á þremur, fjórum kvöldum – sem væri annars ekki fráleitt, hún telur tæpar 400 blaðsíður í stuttum köflum. Ég fann mér iðulega eitthvað annað að gera en að setjast niður við hnykilinn og halda áfram að rekja upp. Í öðru lagi, burtséð frá því hversu spennandi eða óspennandi verkefnið var, þá fannst mér aldrei liggja mikið á því: Það er alltaf nægur tími til jóla. Og ef það skyldi nú henda að flækjan gleymdist fram á Þorláksmessu þá væri alltaf hægt að skjótast út í búð og kaupa nýja. Henda flækjunni aftur inn í geymslu þangað til á næstu bókmenntahátíð. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál