Umfjöllun um bækur

Hér er hægt að lesa greinar um bækur eftir leika og lærða, gagnrýni bókmenntafræðinga um ný verk og pistla frá lesendum um ýmis konar lesefni.

Ef þú hefur verið að lesa áhugaverða bók sem þú vilt benda öðrum á, sendu okkur þá endilega línu, hvort sem bókin er gömul eða ný, íslensk eða erlend.

Gagnrýni um bækur er raðað eftir útgáfuárum verka hér til vinstri og lesendapistla má nálgast undir liðnum Ég les.


Árleysi alda
Árleysi alda | 12.12.2013
Það eru aldnir bragarhættir sem helst fá rúm í þessari ljóðabók – eða á maður að kalla þetta kvæðabók. Það er eins og orðið kvæði lýsi betur innihaldi en orðið ljóð. Á baksíðu gerir bragfræðingurinn og rímdoktorinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson stuttlega grein fyrir innihaldinu og það gerir skáldið líka hér og hvar og er svo sem ekki miklu við það að bæta. ...
Unglingar eftir Arngunni Árnadóttur
Á síðasta ári hóf útgáfu sína röð stuttra ljóðabóka undir merkjum Meðgönguljóða. Yfirskriftin vísar ekki í barnsburð (endilega) heldur frekar það að bækurnar eru litlar um sig og þær er auðvelt að grípa með sér. Í raun má segja að þessi hugmynd um að ganga með bók á sér birtist einmitt í nokkrum ljóðum þriðju bókarinnar í seríunni, Unglingum eftir Arngunni Árnadóttur. Í „Strætó II“ er sagt frá stúlku í strætó: „Yfirleitt var hún með stílabók í höndunum, ýmist brúna eða ljósbláa, sem hún las í eða skrifaði.“ Í „Strætó III“ gleymir stúlkan bókinni í sætinu og ljóðmælandi les óvart aðeins úr henni. Bókinni er svo skilað í fjórða og síðasta strætóljóðinu: „Ég hafði handleikið bókina mörgum sinnum og fundið að síðurnar voru þéttskrifaðar og eflaust fullar af leyndarmálum.“ Ljóðaröðin felur í sér fallegar myndir af strætóferðum um borgina og gefur til kynna allskonar dularfulla atburði hversdagsleikans. ...
Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó eftir Halldór Armand Ásgeirsson
Eitt skipti í síðasta mánuði fór ég suður fyrir Mjódd inn á Reykjanesbraut og nýtti þá tækifærið til að sjá hvað væri í bíó. Framan á bíóhúsinu í Álfabakka héngu þrjú eða fjögur skilti nógu stór til að sjást úr bílum á ferð, öll nema eitt þeirra sýndu eitthvað annað en leikarann Vince Vaughn, en eitt þeirra sýndi ekkert annað en leikarann Vince Vaughn. Auglýsingin var fyrir kvikmyndina Delivery Man, sem er endurgerð á kanadísku kvikmyndinni Starbuck. ...
Dísu saga eftir Vigdísi Grímsdóttur
Hvernig skrifar maður um trámatíska atburði? Og hver má segja frá þeim? Og hver á að hlusta? Tvískipta konan, Gríms og Dísa, skrifar fyrrverandi elskhuga, sem gengur undir nafninu Kisi, bréf í nýjustu skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur: Dísusaga: Konan með gulu töskuna. Dísu, sem fram af þessu á ferli Gríms hefur ekki fengið að halda á penna, er hleypt fram á ritvöllinn til þess að segja ‚sína‘ sögu, til að segja frá nauðguninni sem varð til þess að 10 ára klofnaði hún í tvennt. ...
Múrinn
Múrinn | 06.12.2013
Aðalpersóna sögunnar er Freyja. Hún er í níunda bekk, foreldralaus og hefur alist upp hjá ömmu sinni. Hún er ólík mörgum öðrum því hún er ævintýragjörn og réttsýn og hugsar meira en henni er hollt. Hún sækir í minjar frá horfinni tíð, gula converse strigaskó og „Sölku Völku eftir einhvern gaur sem heitir Laxness“. ...
Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson
Sæmd | 04.12.2013
Árið er 1882 og ungur nemandi í Lærða skólanum hefur verið sakaður um að stela námsbók samnemanda síns. Hinn nýskipaði rektor skólans, Björn M. Ólsen, telur nemandann sýna með þessari hegðun illt innræti, vill tafarlaust reka hann úr skólanum og sýna þar með ákveðið fordæmi fyrir aðra nemendur skólans. Með þessu telur hann sig stuðla að aga og virðingu gagnvart reglum skólans. Skáldið Gröndal, sem á þessum tíma kennir við skólann, er ekki á sama máli og tekur upp hanskann fyrir nemandann unga. Saman elda þeir Björn og Benedikt grátt silfur og endurspegla andstæða hugmyndafræði sem í sögulegu tilliti er einkennandi fyrir þennan tíma, og lagði grunninn að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga síðar. ...
Randalín og Mundi í leynilundi
Hér er komið sjálfstætt framhald af bókinni Randalín og Mundi eftir Þórdísi Gísladóttur, sem kom út í fyrra. Í þeirri bók fengu lesendur að kynnast tveimur krökkum úr Reykjavík, vinunum Randalín og Munda, og merkilegum atburðum og ævintýrum í hverfinu þeirra. Þá fóru þau til dæmis í strætóferð í miðbænum, versluðu í fornbókabúð, bönkuðu uppá hjá spákonu og skipulögðu hverfishátíð. Í fyrri bókinni var þannig fjallað um lífið í borginni en í Randalín og Mundi í Leynilundi gerast flest ævintýrin hins vegar fjarri borginni í hálfgerðri sveitasælu. ...
1983: skáldsaga eftir Eirík Guðmundsson
1983: skáldsaga | 29.11.2013
Í nýjustu skáldsögu Eiríks Guðmundssonar segir af 12 ára dreng, sem þó gæti allt eins verið 112 ára, sem býr í litlu þorpi milli hárra fjalla og reynir að kortleggja heiminn og lífið: „Ég er 12 ára gamall og lífið er strax orðið mér ofviða.“ Hann er nafnlaus, sögumaðurinn okkar, þótt „það væri einfaldlega þannig að hvorki hér né annars staðar kæmust menn langt án nafns, þeir gætu ekki einu sinni dáið.“ Í upphafsorðum verksins segir sögumaður að hann hafi „snúið aftur til að sækja það sem hann gleymdi fyrir mörgum árum.“ Hann keyrir um á litlum bílaleigubíl, tiltekur nákvæmlega tegund, árgerð og kílómetrafjölda, „þá hef ég fært ykkur inn í veruleikann, síðan mun ég taka hann frá ykkur.“ ...
Blindhríð eftir Sindra Freysson
Blindhríð | 27.11.2013
Veðurfréttamaðurinn Stefán kynnist breskri konu um borð í flugvél á leið til Íslands árið 2002. Þau eyða saman einni nótt á hóteli í Keflavík. Fljótlega fer honum að berast bréf frá konunni frá ýmsum stöðum á landinu og síðan tölvupóstur eftir að hún er komin til síns heima. Hann svarar litlu sem engu en líst illa á blikuna því að skeytin taka sífellt á sig óviðfelldnari svip. Stefáni verður brátt ljóst að þarna er um að ræða rafrænar ofsóknir eltihrellis eða netkvala. ...
Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni
Í Esjunni búa ekki lengur jólasveinar. Og ekki heldur álfar eða tröll. Þangað er fluttur Júlíus Janus, brjálaður vísindamaður sem hefur andstyggð á gleði og elskar leiðindi svo mikið að hann myndi brosa og hlæja að þeim ef það væri honum ekki þvert um geð. Takmark hans er að soga hamingjuna úr öllum svo þeir verði jafn fúlir og hann sjálfur. Svo væri flott ef hann gæti í leiðinni fengið inngöngu í Óþokkaregluna. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál