Umfjöllun um bækur

Hér er hægt að lesa greinar um bækur eftir leika og lærða, gagnrýni bókmenntafræðinga um ný verk og pistla frá lesendum um ýmis konar lesefni.

Ef þú hefur verið að lesa áhugaverða bók sem þú vilt benda öðrum á, sendu okkur þá endilega línu, hvort sem bókin er gömul eða ný, íslensk eða erlend.

Gagnrýni um bækur er raðað eftir útgáfuárum verka hér til vinstri og lesendapistla má nálgast undir liðnum Ég les.


Sofðu ást mín eftir Andra Snæ Magnason
Sofðu ást mín | 20.12.2016
Höfundaverk Andra Snæs er kannski ekki stórt, enn sem komið er, en það er fjölbreytt og einstaklega frjótt. Hann hefur látið frá sér skáldsögur, ljóð, skapandi greinaskrif, barnabókmenntir og smásögur og hvert verk er eiginlega öðru sterkara. Sofðu ást mín er annað smásagnasafn Andra, en það fyrra, Engar smá sögur, kom út árið 1996 og er eitt eftirminnilegasta safn smásagna í seinni tíð. Það má segja að höfundurinn hafi svolítið enduruppgötvað sig í hverju nýju verki. Þannig kveður líka nýjan tón í þessari nýjustu bók Andra og er raunar fátt skylt með henni og fyrri verkum höfundar. ...
Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur
Líkhamur | 16.12.2016
Líkaminn í öllum sínum myndum er viðfangsefni ljóða Vilborgar Bjarkadóttur í ljóðabókinni Líkhamur – en jafnframt fjalla ljóðin um margt annað. Titillinn spilar skemmtilega á þá margvíslegu hami sem líkaminn tekur á sig, hlutverk hans í tilverunni, fyrir einstakling og samfélag, ímyndir og hugmyndir. Þetta er undirstrikað með teikningum sem fylgja ljóðunum og skreyta kápu, en Vilborg er menntuð myndlistakona. ...
Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason
Pabbi prófessor | 16.12.2016
Pabbi prófessor er sjálfstætt framhald á Mamma klikk! og nú er mamman í algeru aukahlutverki. Mamma Stellu fær nefnilega óvænt boð um vinnu erlendis í desember og fram á næsta ár og ákveður að setja sjálfa sig í forgang eftir að hafa látið fjölskylduna ganga fyrir í mörg, mörg ár. Í fjarveru hennar ætlar pabbi Stellu, sem er kennari við Háskólann, að taka að sér allan jólaundirbúning samhliða því að kenna, fara yfir próf og sjá um fjölskylduna. Stellu grunar að þrátt fyrir fögur fyrirheit muni pabbi hennar samt algerlega klikka á jólunum enda hefur hann fram að þessu ekki verið þekktur fyrir að hafa mikinn tíma í desember né sérstaka hæfileika við jólabakstur og þess háttar. En pabbi Stellu er bjartsýnn. Hann ætlar að taka þetta allt saman með trompi og ákveður, Stellu til hryllingar, að breyta öllum jólahefðum fjölskyldunnar og hafa „pabbajól“ með alls konar nýjungum. ...
Blómið – saga um glæp eftir Sölva Björn Sigurðsson
Nýjasta skáldsaga Sölva Björns Sigurðssonar fjallar um íslensku Valkoff-fjölskylduna sem er í sárum eftir að Magga Valkoff hvarf sporlaust þrjátíu og þremur árum áður, aðeins sex ára gömul. Eftir dularfullan formála um manneskju með ljósblett og sjálflýsandi kakkalakka hefst sagan á að Benedikt, eldri bróðir Möggu sem var með henni daginn sem hún hvarf, vaknar skyndilega um miðja nótt heima hjá sér á Sjafnargötu 7. Benedikt, eða Bensi eins og fjölskylda hans kallar hann, á afmæli en dagurinn hefur alltaf fallið í skugga atviksins þar sem Magga hvarf á tólf ára afmælisdegi hans. ...
Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur
Hér er fjallað um nýjar bækur í ritröð Meðgönguljóða: Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur, Vertu heima á þriðjudag eftir Berg Ebba, og Hamingjan leit við og beit mig eftir Elínu Eddu. ...
Doddi: bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur
Það vantar skemmtilegar bækur fyrir unglinga, bækur sem eru til dæmis ekki of þykkar. Þetta segir Doddi, sem er 14 ára og aðalpersónan í Doddi: Bók sannleikans! í innganginum að sögunni. Honum finnst framboðið á bókum afskaplega óspennandi og ákveður að bæta bara sjálfur úr því með því að skrifa bók sem hann langar til að lesa. ...
Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur
Aflausn | 06.12.2016
Stúlka verður fyrir árás á salerni í kvikmyndahúsi og stuttu síðar taka vinir hennar og vandamenn að fá óhugnanleg myndskeið af henni send í gegnum samfélagsmiðilinn snapchat. Í kjölfarið verður annað fórnarlamb, að þessu sinni ungur strákur, fyrir barðinu á sama geranda, og svo virðist sem lögreglan eigi í höggi við aðila sem vilji hefna fyrir einelti. Sá hefur gefist upp á kerfinu og ákveðið fullnægja réttlætinu sjálfur. ...
Skuggasaga: Undirheimar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur
Saga og Örvar eru saman á flótta á leið norður til Hamravígis, þar sem þau hafa heyrt að Signý haldi sig. Þrátt fyrir ákvörðun um að flýja saman eru Saga og Örvar engir vinir, þau eru sitt af hvorri álfaættinni en ættir þeirra eiga sér erfiða sögu svika sem lita örlög allra afkomenda þeirra og fylla þau vantrausti hvort í garð annars. Dýrin sem þau tengjast fylgjuböndum eru auk þess svarnir óvinir og það hefur áhrif á líðan þeirra nálægt hvert öðru: fylgja Sögu er skuggabaldur, sem er afkvæmi kattar og refs, og fylgja Örvars er hrafn. Þau eru hins vegar bæði hundelt og í lífsháska og sjá að þrátt fyrir allt sé best fyrir þau að vinna saman ætli þau að komast lífs af. ...
Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur
Ör | 01.12.2016
Fimmta skáldsaga Auðar Övu fjallar um Jónas Ebeneser Snæland, fjörtíuogníu ára fráskilinn karlmann sem hefur ákveðið að binda enda á líf sitt. Við lesturinn blasa við spurningar og vangaveltur um stöðu karlmanna og hvaða áhrif hugmyndir okkar um karlmennsku hafa. Bókin segir frá því hvernig Jónas getur ekki fótað sig í lífinu eftir að missa helstu hlutverkin sem skilgreina hann sem manneskju: að vera eiginmaður og fjölskyldufaðir. Sjálfsmynd Jónasar er byggð á hvernig hann getur gagnast öðrum, hvernig hann getur létt konum lífið með hinum ýmsu verkum: rífa upp gólf, parketleggja, veggfóðra, flísaleggja, eiga við pípulagnir, saga greinar og allt annað sem hægt er að nefna. ...
Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur
Óvissustig | 30.11.2016
Titillinn á nýjustu ljóðabók Þórdísar, Óvissustig, felur beinlínis í sér tilvísun í tilvistarlega angist, eða það sem gæti verið tilvistarleg kreppa, en reynist meira í ætt við ruglingslegt og afslappað hversdagslíf múmínálfanna en draugagang Sartres, þó vissulega sé hann ekki alls fjarri. Tilvistarstefnan er færð í heimilislegt form bilaðra rafmagnstækja, umhverfisvænna túrtappa og kaffipoka með lopapeysumynstri. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál