Frá höfundi

Pistill frá Kristínu Helgu Gunnarsdóttur


Sögur fljúga manna á milli allan daginn og inn í nóttina. Allir eru alltaf að segja sögur. Maður gæti til dæmis spurt sjálfan sig að kvöldi: Hvað hef ég heyrt margar sögur í dag? Svarið kæmi manni áreiðanlega á óvart. Sögurnar eru í blöðunum, sjónvarpinu og útvarpinu. Þær æða áfram eftir símalínum, þeytast manna á milli í skólum, á vinnustöðum, á róló, í búðinni, á fundum og mannamótum. Það þarf bara tvo til; sögumann og hlustanda. Þetta eru hamingjusögur, sorgarsögur, glæpasögur og skemmtisögur, hetjusögur og ástarsögur.

Þess vegna var alls ekki erfitt að fara úr fréttamennsku, þar sem ég sagði sannar sögur, yfir í heim skáldskaparins þar sem ég réði persónum, söguþræði og sögulokum, gat mótað manneskjur og ráðið örlögum þeirra. Kannski eru bækurnar mínar barnabækur. Ég veit það ekki. Mig langar miklu fremur að þær séu fjölskyldubækur. Bók er bara bók. Ef hún er leiðinleg nennir enginn að lesa hana. Ef hún er áhugaverð á hún erindi til allra.


Það er ósköp notalegt að kúra einn með bókina sína, sökkva sér ofan í aðra veröld og eignast þar bæði vini og óvini, en það eru líka ómetanlegar stundir, sem brúa bil kynslóða, þegar börn og fullorðnir geta átt saman sögustund yfir góðri bók. Þá fer í gang svo dýrmætt félagslegt atferli sem skapar umræður um lífið og tilveruna. Svo bókin megi lifa verður að lesa fyrir börn. Í okkar hraða, tímasnauða og oft á tíðum grimma samfélagi verður lítill tími aflögu til sameiginlegra lestrarstunda. Sjónvarp og tölvur verða rafrænir leikfélagar - daglegum samverustundum fækkar.

Þegar ungir og gamlir hlæja saman yfir sögu, hneykslast og býsnast, jafnvel gráta saman - þegar stóra manneskjan stelst til að lesa einn kafla í viðbót eftir að sú litla er farin inn í draumalandið - það er bók sem brúar kynslóðir og veitir ungum og gömlum sameiginlega ánægjustundir. Slík bók er fjölskyldubók og þannig bækur langar mig að skrifa.

Börn eru miskunnarlaus, kröfuharður, síkvikur en jafnframt einlægur og þyrstur lesendahópur. Fullorðnir láta sig til dæmis hafa það að sitja undir lestri þar til yfir lýkur, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir byrja ekki að iða í sæti, bora í nefið og klípa næsta mann við hliðina ef sagan missir marks eða höfðar ekki til þeirra. Þess vegna finnst mér mikil áskorun fólgin í því að skrifa fyrir börn. Þegar dauðaþögn ríkir, ákefð og einbeitni skín úr andliti lítillar manneskju sem er horfin inn í söguna, búin að hreiðra um sig á síðum bókarinnar og drekkur í sig atburðarásina - þá fer gleðistraumur um höfundinn og takmarkinu er náð. Ef saga nær slíkum tökum á barni hef ég mikla trú á að fullorðin manneskja geti orðið fyrir svipuðum hughrifum og þá er niðurstaðan: Góð fjölskyldubók.


Kristín Helga Gunnarsdóttir, 2001


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál