Frá höfundi

Pistill frá Steinunni Sigurðardóttur

Þrjár smásögur um skáldskap

Stundum er höfundur spurður: Hvert er meginþemað í verkum þínum? Hjá mér verður fátt um svör því heimarnir sem ég hrærist í eru fleiri en tveir og ekki líkir, heimur tiltölulega hlutlausrar frásagnar og alveg huglægur heimur til dæmis, heimur prósa og heimur ljóðs. Einhverjir rauðir þræðir hljóta þó að ganga í gegnum bækur sama höfundar. Ég á sjálf erfitt með að rekja þá, en stikkorð gæti ég komið með. TÍMINN væri eitt af þeim. TÍMINN í verkum mínum er að nokkru leyti tengdur íslenskri náttúru og árstíðum hennar. Íslenskur tími er að eilífu tregablandinn, það er enn síður hægt að ná í skottið á honum en á öðrum tíma, hann er eftirsjá eftir sumrinu sem leið án þess hægt væri að festa hönd á því, tilhlökkun til vorsins sem aldrei ætlar að koma, kvíði fyrir vetrinum sem teygir sig yfir mestallt árið.

Danska skáldið Henrik Nordbrandt lætur heita í einu ljóða sinna að það séu 15 mánuðir í árinu. Hann telur mánuðina upp og endar á: nóvember, nóvember, nóvember.
Tíminn á Íslandi hagar sér öðru vísi. Gamall bóndi í minni sveit segir að það vanti einn mánuð í árið, milli maí og júní. Mánuðurinn sem vantar gæti verið táknrænn fyrir þá iðju að skrifa bækur - kannski finnst þeim sem skrifar að eitthvað vanti. Hver veit nema það að skrifa sé tilraun til þes að fylla upp í rýmin endalausu - að gera hið ósýnilega sýnilegt - að bæta mánuði í árið, ef hann skyldi vanta.
Tragedían í lífi höfundar er sem sagt ekki misheppnuðu verkin (og það eru þau sjálfsagt öll, á einhvern hátt) heldur þau sem aldrei verða samin, og eru hvergi til nema í kollinum á honum, sem hugmynd, ein setning, örsaga, eða einber titill. Allir þeir draumatitlar sem ég fæ aldrei að nota á öll þau verk sem aldrei verða skrifuð. Yfir þeim gæti ég grátið.
Ef ég mætti fæðast aftur vildi ég verða rithöfundur, gjarnan kvenrithöfundur, en helst kynlaus eða fjölkynja, og mega skrifa brot af þeim verkum sem ég átti óskrifuð í þessu lífi.
Og þannig áfram - koll af kolli.

----- ooo -----

Það að yrkja ljóð og að skrifa skáldsögur á fátt sameiginlegt, annað en kannski það að vera uppreisn, innhverf og úthverf. Það er ögrun við sjálfan sig, við samfélagið; hjá skáldsagnahöfundi er það oft grín, gert að sjálfum sér ekki síður en öðrum, útúrsnúningur úr sjálfum sér. Þegar Flaubert segist vera Madame Bovary, þá tek ég hann bókstaflega.
Skáldsagnahöfundur nýtir sjálfan sig nefnilega út í æsar og gramsar í sér eftir þeim þáttum sem hann þarf á að halda hverju sinni. Oft sér lesandinn sjálfan sig í þáttunum sem eru sóttir í höfundinn en ekki í fyrirmyndir úti í bæ, og heldur ekki í lesandann sem heldur að hann geti verið fyrirmynd, jafnvel í bókstaflegri merkingu.
Eitt af því sem skáldsagnahöfundur kemst varla hjá að spauga með er hans eigin þjóð. Hans gagnrýna auga hlýtur að sjá eitt og annað athugavert sem nýtur sín best í gríni. Það er hér sem höfundar smáþjóða lenda á hálum ís.
Frakki eða Þjóðverji getur gert gys að sinni þjóð. Stórþjóð finnst það fyndið og mátulegt á sig. En ef Íslendingur eða Íri leikur sama leik er þjóðinni ekki skemmt. Smáþjóð þolir ekki að sjá sjálfa sig í spéspegli, því hún er haldin samblandi af bullandi minnimáttarkennd og blundandi stórmennskuæði. Hún þolir ekki að sjá mítólógískum hugmyndum um sjálfa sig kollvarpað.
Ljóðin eru annar handleggur. Ég hef reyndar ekki mikið um þau að segja, frekar en um handlegginn á mér, því þau eru mér svo samgróin. En ég er fegin að hafa byrjað í ljóðum, að eiga þar stað, fegin að hafa alltaf haldið mig við þau öðrum þræði. Ég þarf að minnsta kosti ekki að búa við það að vera frústrerað ljóðskáld, eins og sumir skáldsagnahöfundar telja sig, þar á meðal Faulkner.
Í ljóðinu er ég á mínum gamla heimavelli og fæ að sýsla með mitt sæla form - spara orð og annað, skera niður, finna nýtt orð og betra, alltaf nýtt, þar til það kemur loksins niðurstaða. Þá er gaman. En ég yrki ekki nema ég sé í skapi til þess. Prósa má skrifa hvernig sem viðrar í sálinni, það er starf sem hægt er að ganga til eins og hverrar annarrar skrifstofuvinnu.

------ ooo -----


Orð hafa verið leikföngin mín frá því ég man eftir. Ég var innan við tveggja ára þegar kveðskapurinn byrjaði að dynja á mér. Gestir og gangandi létu ekki sitt eftir liggja, það var líka sungið, og sportið var að læra þetta sem allra fyrst, ferskeytlur, heilræðavísur, sálma, ættjarðarljóð, og kenna helst öðrum hið snarasta, ef ég náði í fórnarlamb. Hins vegar var ekki vitað hvar svona ungt barn lærði samsetningar af ljótum orðum sem það lét út úr sér til þess að gá hvernig fullorðna fólkinu yrði við.
Orðin voru ekki aðeins leikföng heldur einnig leikfélagar. Ég átti leikfélaga sem bjó í brakandi miðstöðvarofni, ég sat á gólfinu og spjallaði við hann langtímum saman; hann var ósýnilegur félagi gerður úr mínum eigin orðum og dagdraumum. Borges segir að rithöfundurinn sé dagdreymandi. Mér finnst það fallegt, og kannski er það jafnvel satt.
Ég lærði óvart að lesa fjögra ára, með því að elta bróður minn í lestrartíma. Ég varð alæta á bækur og það var ekkert einsdæmi í bænum. Í Reykjavík þess tíma var enga aðra afþreyingu að hafa en að lesa bækur og fara í sund. Ég er því að mestu alin upp á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti og í gömlu sundlaugunum í Laugardal og í strætisvögnum sem fóru á milli þessara staða og heimilisins. Æskuna út var toppurinn gegnsósa af furðulegum hrærigraut, Basil fursta, Morgunblaðinu, Halldóri Laxness og Tom Swift, og tærnar vatnsósa.
Þegar ég var sex ára heyrði ég flutt eintal í útvarpi. Ég varð heilluð af þessu formi og hvíslandi rödd leikkonunnar. Þá fór ég af stað og notaði eintal sem skemmtiatriði í afmæli. Þetta varð vinsælt og fastur liður nokkur afmæli í röð. Eftir á að hyggja, rökrétt framhald af eintalinu við miðstöðvarofninn.
Ekki löngu seinna skrifaði ég leikrit sem krakkarnir í hverfinu ætluðu að leika í bílskúrnum heima. Það varð aldrei af frumsýningunni. Mamma einnar stelpunnar komst í handritið. Henni fannst of mikið bölvað í því, svo hún bannaði dóttur sinni að taka þátt í uppfærslunni. Þar með datt þetta verkefni endanlega upp fyrir. Fyrsta hugverkið eftir mig sem átti að koma fyrir almenningssjónir varð sem sagt ritskoðun að bráð.
Þegar ég var þrettán fjórtán ára fór ég að yrkja ljóð, myrk og rómantísk. Að minnsta kosti minnir mig að þau hafi verið það. Þau eru öll týnd, nema ég hafi verið svo forsjál að henda þeim. Á dögum fyrstu ljóðanna geisuðu stormar í sálinni. Þess á milli lagðist drungi yfir. Þá var setið heilu dagana inni í sínu herbergi með lappir á skrifborði. Sama skrifborði og ljóðin voru ort á þegar hægt var að virkja drungann. Sama skrifborði og ljóðin voru falin í, lokuð og læst, allar götur þangað til ég safnaði þeim í handrit og þau voru gefin út á bók. Þess vegna var ljóðagerðin hjá mér árum saman eins konar launhelgar, læst með lykli í skúffum, undir blaðabúnkum. Lykillinn svo falinn kirfilega. Ég átti engan trúnaðarmann sem ég sýndi ljóðin; ég hefði dauðskammast mín fyrir þau gagnvart öðrum.
Það er viðeigandi að ritferill hefjist með leynd. Það að skrifa snýst að einhverju leyti um að fela, um samspilið milli þess að fela og að láta uppi. Það er svo mikilvægt að sýna ekki allt, alls ekki allt. Feluleikurinn er eitt af því sem gerir það spennandi að skrifa, og að lesa, vonandi. En hann er líka hættulegur fyrir höfundinn, því það er auðvelt að eyðileggja bók með of svæsnum undanbrögðum í feluleiknum.
Starfsheitið rithöfundur flökraði ekki að mér um sjálfa mig þegar ég var yngri, og ég var andvíg þeim stimpli jafnvel löngu eftir að ég var komin á skrið út á opinberan ritvöll. Sá vottur af uppreisn gegn því að vera það sem ég var alltaf er sérstaklega fyndinn í ljósi þess að um leið raðaði ég lífinu mjög nákvæmlega í kringum það að skrifa. Eftir á að hyggja er ég ekki óánægð með þessa uppreisn. Það er að vísu sjálfsagður hlutur að skrifa ef mann langar til, en afstaða þess sem skrifar breytist eftir að teningunum er kastað og hann er útgefinn höfundur. Kannski þessi vottur af uppreisn hafi hjálpað mér til þess að vera tiltölulega hreyfanlegur höfundur tiltölulega lengi. Ja hver vill festast í myndastyttustellingu af rithöfundi við skrifborðið.

Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál