Frá höfundi

Pistill frá Guðrúnu Helgadóttur

Af hverju skrifa ég? Mætti ekki alveg eins spyrja: hver er ég eiginlega? Það er skrambi flókið, held ég. Og þó, kannski ekki. Einhverntíma var ég pínulítil stelpa í sjávarplássi, sem mér þótti ljótt. Þar óx ekkert fegurra en njóli. Og grindverkin voru að falli komin. Húsin ómáluð. Elst af tíu systkinum í allt of litlu húsi. En utan við byggðina var holtið og tún með sóleyjum og bláklukkum. Og himinninn yfir. Þar var fallegt. Og þannig átti lífið að vera, fannst mér. Sumt fólk gat haft fallegt hjá sér, sumir ekki. Það fannst mér óréttlátt. Fullorðna fólkið sagði að það væri ríka fólkið sem ræktaði blóm og tré og hefði steinveggi og járnhlið í kringum húsin sín. Mér fannst það engin skýring. Af hverju gerði fátæka fólkið ekki eitthvað til að hafa fínt hjá sér? Það sat bara og drakk kaffi. Ég þoldi það ekki og var þrasgjörn.

"Ég vissi alltaf að Rúna systir ætti eftir að skrifa þríbók um bilað grindverk," sagði einn bræðra minna einu sinni. Það var rétt. Það var ljóst frá byrjun. Ég vissi það bara ekki þá. Ég vissi hins vegar að ég var ein inni í mér. Hræðilega ein. Það vissi enginn um mig í þessum stóra heimi. En það skyldu svei mér allir fá að vita af mér. Einsemdin var óbærileg. Besta vinkonan bjargaði ekki öllu þar um, því að það var ekki hægt að tala um svona lagað. Og ég tók mér ýmislegt fyrir hendur til að vekja athygli heimsins á þessari dapurlegu tilveru. Enginn annar myndi hvort sem er gera það. Það var nærtækt að vera dugleg í skólanum, dugleg að sauma út, hekla og prjóna, leika í leikritum. Fólk tæki eftir því. Það var líka hægt að rækta blóm í lóðinni. Þau uxu ágætlega hvað sem fullorðna fólkið sagði. Mér fannst það stundum vitlaust. Og svo var hægt að lifa í eigin heimi, þar sem allt var betra. Miklu betra. Heimi þar sem enginn sagði þetta asnalega orð kotroskin, ef maður sagði eitthvað við þessa bjána. Hluti af þessum undursamlega heimi voru bækur. Íslenskar bækur og útlendar bækur. Bækur um allt milli himins og jarðar. Bækur um sorg og gleði, niðurlægingu og reisn. Bækur um allar tilfinningarnar sem enginn gat talað um. Og einsemdin vék eins og ský fyrir sólu á meðan.


Grindverkin í bænum löguðust smám saman og húsin voru máluð. Núna finnst mér fallegi fæðingarbærinn minn næstum hæðast að mér þegar ég kem í heimsókn. En þá hugsa ég kotroskin: "Hvað sagði ég ekki?" Ég hélt áfram að vera þrasgjörn. Um árabil var það atvinna mín að þrasa. Stundum gerði þrasið gagn, stundum ekki. Samt var það nauðsynlegt. Það þýðir ekki að drekka bara kaffi. Einhver verður að taka til hendinni. Hitt vefst meira fyrir mér - þetta með einsemdina. Ég er ekki lengur hrædd um að enginn viti af mér! Það er stundum ágætt, stundum ekki eins gott. Það fer eftir því hversu góður ferðafélagi ég er hverju sinni, hversu aflögufær ég er. Og það er einmitt þá sem ég skrifa. Þegar ég er óvenjulega aflögufær.

Guðrún Helgadóttir, 2000


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál