Frá höfundi

Pistill frá Vigdísi Grímsdóttur

Ég held að ég vilji ekki vita hvers vegna ég skrifa.

Ég veit það samt.


En ég er feimin við að segja frá því.

Samt læt ég mig hafa það af því að innst inni er ég auðvitað töffari einsog allt vinnandi fólk.

Sumt gerir maður bara, býr um rúm, þvær upp, tekur úr vél, les fyrir krakka, snýtir gamalli ömmu sinni, gefur vitlaust til baka í búð, verður óglatt þegar maður setur hreinan góm upp í frænku sína, setur gamlan og útþvældan miða í samloku elskhuga síns, svindlar sér inn í bíó í hléi, grætur í jarðarför manns sem maður þekkir ekki neitt af því að músíkin er svo falleg, lemur í fingurinn á sér þegar maður rekur nagla í vegg, bölvar smáskrítlegu fólki sem svindlar á manni, hatar þá sem bíta mann, fær sér vinnu á nóttinni til að geta farið til útlanda og séð píramída, elskar þá sem gefa manni blóm ... og skrifar bækur.

Já, sumt gerir maður bara og þarf sem betur fer sjaldnast að skilgreina hvers vegna. Maður gerir það ósjálfrátt en samt af fullu viti og af tilfinningu.

Og ekki eftir nótum. Svoleiðis vinnur sæmilegur maður vinnuna sína.

Ég held að ég sé sæmilegur maður.

Ég gæti auðvitað leikið sjálfa mig svo grátt að skoða gáfulegar og heimspekilegar kenningar um bókmenntir, mátað mig við hverja og eina, fundið sitt lítið af hverju passa, vitandi þó allan tímann að ég er að falsa, út af því að ég er viss um að leyndarmálið mitt er heimskulegt, óvinsælt og banalt; ég skrifa nefnilega bækur vegna þess að ég kann ekkert betur, ég get ekkert betur, hef enga sterkari löngun, næ ekki samhljómi við sjálfa mig í neinu öðru og aldrei betri tengslum við annað fólk.

Ég veit líka að ég get aldrei breytt heiminum vegna þess að ég er svo óstjórnlega laus við að hafa ódauðleikagenið.

Mig langar heldur ekki til að breyta heiminum vegna þess að ég ætlast til að heimurinn slípi mig, fægi, pússi, berji, lemji, elski, hnoði, hamist á mér og breyti mér.

Kannski helst þetta í hendur. Það kynni þó ekki að vera.

Leyndarmál mitt í tíma og rúmi, samtíð, nútíð og fortíð er að ég er umfram flest kelin og óstýrilát manneskja með allt of mikla snertiþörf og ég veit ekkert betra en orðið, setningarnar, málsgreinarnar, merkinguna, jólakúlurnar og bókstafina til að nálgast þann alheim og þá alheimsvitund sem ég er að meira eða minna leyti hluti af.

Og ég er svo heppin að hafa fundið leið í kaosinu.

Ég er líka heppin að sjá kaosið.

Vegna þess að ég er kaos.

Amma mín sagði við mig þegar ég var fimmtán ára að ég skyldi ekki byrja að sofa hjá því þá gæti ég ekki hætt. Sama hvernig ég reyndi. Ég sagði við hana að ég gæti ekki lofað því vegna þess að vísast mundi ég svíkja hana.

Þá talaði hún um áráttu, það var í fyrsta skipti sem ég heyrði orðið.

Svo talaði hún um svínarí.

Og ég gat ekki annað en tengt þetta saman í huganum.

En svo svaf ég hjá og gat ég ekki hætt.

Þú ert bara búin að venja þig á þetta, sagði hún.

Stuttu seinna sá ég að það var eins með sögurnar, ljóðin og allt þetta sem ég var alltaf að skrifa.

Ég byrjaði og gat ekki hætt.

Og það gilti einu hvaða stellingu ég notaði, hvort hún var inn í dag en át á morgun, ég skrifaði af áráttu og gat ekki hætt. Einfaldlega vegna þess að það er svo gott að skrifa og svo gaman og líka vegna þess að án þess væri líf mitt lítils virði.

Kannski er það svínarí.

Ég hvet alla til að finna sitt svínarí og halda sig við það.

Vigdís Grímsdóttir, 2000.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál