Frá höfundi

Pistill frá Svövu Jakobsdóttur

Skáldskapur sem líf og leit


orð mér af orði

orðs leitaði,

stendur í 141. erindi Hávamála. Þessar hendingar þykja mér lýsa vel eiginleikum orðsins og reynslu minni af þeim. Upphafsorðið kærir sig ekki um að vera stakt og einrátt heldur hefur umsvifalaust leit að öðru orði um leið og það verður til og er þó sjálft orðið til af orði án þess að við séum nokkru nær um upprunalega orðið....Hver á að gefa þessum orðum sem kvikna hvert af öðru merkingu eða hafa þau ekki merkingu? Stundum höfum við að orðtaki að eitthvað sé orðin tóm. Orðið tóm er þá orðið tómið þar sem orðin ryðja sér til rúms. Þá mætir Saga til leiks. Hún er sífellt að burðast við að fylla tómið og breyta rýminu í tíma. Upprunalega orðið hlýtur þá að vera líf!
Ætti ég að lýsa viðhorfi mínu til skáldskaparins gætu líf og leit verið lykilorð. Sú sem leitar er haldin forvitni...síspyrjandi hvert orð, hvert atvik: hvaðan ertu, hvert er förinni heitið og hvers leitarðu?
Ég hef tilhneigingu til að vinna mig upp frá rótum. Gunnlaðar saga sem gerist bæði í nútíma og á eiröld er formlega óskrifuð. Hún er þögul upprifjun endurminninga sem sumar hverjar eru munnleg frásögn annarra. Sagan endar á því að aðalpersónan í bókinni, móðirin, er sett í fangelsi og þar ætlar hún að skrifa bókina. Ein síðasta yrðingin í munni hennar er: "Í eldi úr brjósti fangans rís land."
Ég hef grun um að þetta land megi finna í "raunsæju" samhengi í samnefndri smásögu í bók minni Undir eldfjalli.


Svava Jakobsdóttir, 2001


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál