Frá höfundi

Pistill frá Oddi Björnssyni

Hversvegn skrifa ég leikrit?

- Gerast menn ekki rithöfundar af því að þeir eru það eða með öðrum orðum:

þetta er í genunum? Sumum er þetta alveg ljóst frá unga aldri, endaþótt þeir viti ekkert í genafræði og aldrei heyrt Mendel nefndan: vita að þeir eru rithöfundar og ekkert annað (sbr. HKL). Hitt er þó algengara að þeir komast að þessu eftir ýmsum leiðum (jafnvel "útilokunaraðferðinni") og stundum á löngum tíma, jafnvel eftir að hafa eytt hálfri ævinni við gerólík störf, svosem verkamannavinnu til sjós og lands, kontórista- eða jafnvel júristastörf, stundað kennslu og ýmiskonar fræðistörf, lækningar og prestsskap. Sumir voru bændur eða jafnvel prófessional fyllibyttur. Stundum störfuðu menn við allt þetta í senn meðan starfsorkan dugði þeim, en samt var rithöfundurinn í genunum og ekki hjá því komist að sinna þeirri staðreynd – fyrr eða síðar. Og ekki aftur snúið! Auðvitað gildir þetta um aðrar listir, en í gamla daga var auðveldara að verða sér úti um blýant og fjöður en olíuliti og pensla, svo ekki sé talað um hljóðfæri.

Og svo er þetta með rithöfunda, hæfileikinn nýtist oftast best á sérsviði: flestir eru í prósanum, aðrir í lyrikinni – og sumir í leikritun. Sumir ná tökum (misjöfnum) á þessu öllu (Strindberg var einnig frábær í "prósa"). – Hvað sjálfan mig varðar hefði ég kannski orðið sellisti eða jafnvel "dirigent" – a la Toscanini, hefði ég haft efni á að kaupa selló. Hitt er annað mál að tónlistin á ást mína. Til að koma manni í gang við skriftir, efla jafnvægi hugans og heilsunnar jafnframt, er ekkert betra en Bach að morgni dags, ég tala nú ekki um sellósvíturnar! – En nú verð ég að bakka og reyna að útskýra hversvegna í ósköpunum ég gerðist leikritahöfundur en ekki eitthvað allt annað, td. málari eða tónlistarmaður (sem var reyndar útilokað af fleiri ástæðum en blankheitum, því að þó að ég kunni að hlusta á músik vantaði herslumuninn á afgerandi hæfileika, sem verða að vera ótvíræðir – einnig í málverkinu; á þessum vígstöðvum var ég dæmdur til að vera þyggjandi).

Sem drengur og unglingur þótti ég drátthagur og sendur í Handíðaskólann, þar sem sjálfur Kurt Zier keypti af mér vatnslitamynd. Endaþótt allir væru sammála um að þarna væri hinn rétti vettvangur minna hæfileika var einn sem ekki var sammála: ég sjálfur. Og sellóið átti ekkert erindi í hendurnar á mér vegna þess að ég var í menntaskóla en ekki tónlistarskóla, og átti kannski ekkert erindi í tónlistarskóla þegar öllu var á botninn hvolft. Á menntaskólaárunum var ég að föndra við olíuliti, krítarmyndir og kol. En einnig var ég farinn að gera einhverjar skáldlegar stílæfingar, svona í lýrískum prósa. Fornar ástir komu mér af stað. Þarna held ég að sáð hafi verið fræjum grillunnar að gerast rithöfundur. Halldór og Þórbergur gerðu hvorttveggja í senn að ýta undir þessar grillur og dæma þær vonlausar. Að loknu stúdentsprófi fer ég til Vínarborgar, ákveðinn að innritast í sálarfræði við háskólann þar. Sem ég er staddur í þeirri virðulegu stofnun til innritunar rek ég augun í eitthvað sem heitir Theater Wissenschaft, og þarna voru örlögin ráðin. Ég hafði reyndar verið ástfanginn af leikhúsinu frá barnsaldri, enda faðir minn duglegur að drífa fjölskylduna í leikhús.
Í Vínarborg voru sjálf leikhúsin minn háskóli í "teater". Og þar áttaði ég mig á því að minn rithöfundaferill yrði helgaður leikritun, enda hvorki Halldór né Þórbergur að þvælast fyrir mér á þeim vettvangi. Það var raunar "absurd-leikhúsið" sem losaði um allar hömlur með sínum heillandi fáránleika, ótrúlega fyndið og ótrúlega djúpt þegar best lét, fullt af músik og undarlegri myndlist og enn undarlegri framsetningu á mannlegri hegðun. Að öðru leyti höfðaði "plastík" hins agaða leiks (reyndar ekki síður í sígildum verkum, jafnvel hefðbundnum) til myndlistarmannsins og rytmi orðræðunnar til tónlistarmannsins (og jafnvel "ljóðskáldsins" sem blundaði einhversstaðar í manni), ég tala nú ekki um ef textinn var eftir Shakespeare.

Ég tel ég mig semsé vera á heimavígstöðvum í leikritun. Í ljóðum og prósa líður mér meira einsog "útlendingi", endaþótt ég hafi gert mig sekan um að dufla við hvorttvegga. Leikritun fullnægir rannsóknareðli mínu, bæði hvað varðar persónur og "mannlega hegðun" og framsetningu hugmyndanna, og listrænum þörfum yfirleitt, sem snúast um að skapa, fyrst og síðast. Frjóustu stundir mínar í leikhúsi eru að sitja einn í salnum með autt sviðið fyrir framan mig. Þá kvikna hugmyndir og undarlegt líf, og maður fer að "kompónera" í tómarúminu, "virkja" rýmið með meðölum sem aðeins eiga heima í leikhúsi og snúast um sköpun og "framsetningu hugmynda", sem áður er vikið að. Tónlistar og myndlistar nýt ég sem þyggjandi, tel reyndar líka að hvorttveggja nýtist í leikritun – sjálfri aðferðinni, þó ekki væri nema til að ljá henni þann þokka sem hún getur ekki verið án, hvernig sem dæminu er snúið á haus. Textinn ekki undanskilinn.

Með öðrum orðum: Ég skrifa leikrit af því ég get ekki annað. (Því eitthvað verður maður að gera! Ekki satt?)


Oddur Björnsson, 2003


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál