Frá höfundi

Thor Vilhjálmsson

Frá höfundi

Brot úr kaflanum „Maðurinn er aldrei einn“ úr viðtalsbókinni Stríð og söngur:

Þetta hefur verið mikið stríð. Á yngri árum hreifst maður af mörgu en því má ekki gleyma að vissar hugmyndir lágu í tíðinni og ólíkir menn geta framkallað þær samtímis án þess að vita hver af öðrum. Í skáldskapnum hef ég ekki aðeins tínt saman það sem mér hefur áskotnast á vegferðinni heldur reynt að skapa samræmi á milli sundurleitra hugmynda og skynjana. Reynslan sem þú aflar þér umbreytist og verður ný í sjálfum þér. Sumir eiga svo mikla sjálfsafneitun að þeir geta skrifað upp verk annarra manna. Ég er of sjálfhverfur til þess, reyni að skrifa minn eigin skáldskap og svara því sem ég þarf fyrir sjálfan mig og aðra. Ég hef sveiflast á milli bjartsýni og svartsýni, trúar og vonleysis, það er ekkert endanlegt í þeim efnum. Þó verður maður alltaf að vera reiðubúinn að rísa gegn þeim öflum sem ógna lífinu og listinni. Þráast við og reyna af öllum mætti. Ég lít á það sem heilaga skyldu að berjast gegn dauðanum og fyrir lífinu. Þó svo ég viti að eitt sinn skal hver deyja.


Fyrsta bókin mín, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950. Þá var ég í Reykjavík og hélt að slegið yrði upp þjóðhátíð, fólk fengi frí úr vinnu og dansað yrði á götum. En þegar ég gekk niður í bæ sá ég að fólk var alveg eins og það átti að sér. Það var eins og ekkert hefði gerst. Á þessum tíma átti ég mér fáa formælendur. Fólk hélt að ég væri hálftrylltur slæpingi að gera einhverja vitleysu. Fáir kunnu að meta texta mína af því að þeir voru ólíkir því sem menn höfðu vanist. Ég var leiður og hneykslaður á móttökunum, vissi ekki fyrr en löngu seinna að bókin hafði haft áhrif á þá sem mestu skipti, ungu mennina. Ég var einn á báti í þessu stríði. Atómskáldin huguðu að sínu og samfylktu undir einu merki. Ég var einn.


Ég á bágt með að sjá fyrir mér þann unga mann sem ég var. Hann er svo fjarlægur í tímanum. Hét bókin ekki Maðurinn er alltaf einn? Ætli hann sé ekki fremur aldrei einn. Þó að þær stundir komi að hann haldi annað býr alltaf eitthvað af öðrum í honum. En mér líkar nokkuð vel við þennan mann sem var þegar ég skoða bækurnar hans. Samt treysti ég mér ekki til að skýra út skáldskap hans. Það býr í mér einhver mótspyrna þannig að þegar ég reyni hlusta ég samtímis á orðin og gagnrýni þau. Ég get ekki sagt af hverju fugl eða fiskur, af hverju ekki dádýr eða einhyrningur. Ég get ekki talað í sundur þá goðsögn sem ég hef skapað með lífi mínu og reyni að tjá í skáldskap. Ég veit þó að ég hreifst mjög af existensíalismanum eins og hann birtist í fyrri verkum Alberts Camus og lífi listamanna í París. Sérstakar mætur hafði ég á L´Étranger eða Hinum framandi manni. Hins vegar varðaði Sartre mig litlu þótt ég sæi spekingnum bregða fyrir á Montparnasse og St. Germaine des Prés. Mér þótti Sartre ósnortinn og kaldur þótt hann talaði um skelfilegustu hluti, líkastur vélheild. Ég vildi bruna, einlægni og ímyndunarkraft. Verk Williams Faulkners skiptu mig miklu máli, einkum skáldsagan The Sound and the Fury. Í henni skynjaði ég jötun sem slagaði að stórleika upp í Dostóéfskí. Eftir að heim kom kynntist ég skáldsögum Becketts og þótti í þeim mikill fengur. Beckett skrifaði mikið um vonleysi og var sagður sætta sig við það. Lífsviðhorf hans eru skyld vissum þáttum í gnostíkinni sem eiga sér aftur hliðstæðu í nýja Kvintettinum hans Lawrence Durell: að maður verði að sætta sig við að djöfullinn ráði heiminum. Sætta sig við að ekki er hægt að steypa honum en standa samt upp í hárinu á honum. Ætli við komumst öllu lengra.


Úr „Maðurinn er aldrei einn“. Matthías Viðar Sæmundsson: Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið 1985.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál