Frá höfundi

Pistill frá Lindu Vilhjálmsdóttur

Það eina sem ég man eftir að hafa ætlað mér að gera þegar ég yrði stór var að skrifa bækur. Ég ætlaði ekki að verða neitt sérstakt, ég ætlaði bara að skrifa bækur, löngu áður en ég vissi hvað slíkur verkamaður var kallaður. Ég hafði að vísu áhyggjur, ekki í byrjun, en þegar aðeins var farið að líða á skólagöngu mína, þá hafði ég sívaxandi áhyggjur af því að mér tækist ekki þetta ætlunarverk mitt. Ég var ekki alveg nógu góð í stafsetningu, málfræðin vafðist fyrir mér og ég botnaði ekkert í kommusetningu. Á unglingsárunum bættist það við að ég var léleg í vélritun svo að ég sá fram á ótrúlega erfiða daga við hreinritun handrita. Ég hafði sem sagt lengi vel töluverðar áhyggjur af frágangi og verklegum framkvæmdum og það dró úr mér kjark. Söguefnið sjálft olli mér hins vegar engum heilabrotum enda varð mér flest að sögu og hausinn á mér hefur alltaf verið morandi í sönnum, ýktum og skálduðum sögum. Sumt af þessum heilaspuna komst á blað því ég fór að setja saman vísur og litlar sögur í minningarbækur um leið og ég lærði að skrifa og seinna fékk ég saumaklúbbinn minn með mér í blaðaútgáfu svo ég gæti birt afurðir mínar víðar og oftar. Meiri parturinn af sögunum mínum var samt aldrei bókfærður heldur urðu þær uppistaðan í þeirri draumaveröld sem ég bjó mér til og lifði í meiri hluta æskuáranna.
Frá því ég var smákrakki samdi ég mína eigin útgáfu af hverri einustu sögu sem ég heyrði eða las. Ég staðfærði þær og setti sjálfa mig, fjölskyldu mína og vini í hlutverkin og í þeirri veröld lifði ég og hrærðist meðan sagan var ókláruð. Ég var ýmist munaðarlaus blind stúlka sem lapti dauðann úr skel, spæjarastelpa að leita að ólöglegum smyglvarningi útí Gróttu án þess að hafa hugmynd um hvað orðið smygl þýddi, ægifögur og ægidöpur austurlensk prinsessa eða tveggja barna einstæð móðir og sorgmædd ekkja látins Bandaríkjaforseta. Ég las allan skrattann þegar ég var krakki og var eins og grár köttur á flestum bókasöfnum bæjarins og líklega hefði það verið uppbyggilegra ef einhver kunnáttumaður hefði leitt mig gegnum rangala bókmenntanna. En ég sóttist ekki eftir slíkri leiðsögn og hefði sjálfsagt ekki tekið eftir því sem mér var bent á að kynna mér þótt því væri veifað framan í mig. Ég þurfti að uppgötva þetta allt saman sjálf enda hef ég alltaf valið torfærustu leið að öllum mínum takmörkum. Lestrarvenjur mínar urðu þess vegna stundum ansi öfgakenndar eins og á unglingsárunum þegar ég vatt mér á snöggu augabragði úr Alistair McLean, Sven Hazel og Victoríu Holt yfir í T.S. Eliot, Ezra Pound og James Joyce.

Uppúr tvítugu fór ég fyrst að birta ljóðin mín í tímaritum og lesbókum og fékk það góðar viðtökur að ég varð eiginlega skelfingu lostin. Mér fannst ég engan veginn geta staðið undir þeim væntingum sem ég ímyndaði mér að til mín væru gerðar, þótt að í raun og veru væru það einungis mínar eigin kröfur sem ég var að kikna undan. Þá hætti ég að hafa gaman af því að skrifa og þannig var það í mörg ár að skriftirnar voru í huga mér kvöl og pína sem ég vildi helst losna við en tókst aldrei að sleppa algerlega hendinni af. Það leið þess vegna heill áratugur þangað til ég þorði að gera það sem ég vissi samt allan tímann að væri óhjákvæmilegt, að gefa ljóðin mín út á bók. Ég hef líkast til virkað óeðlilega sjálfsörugg á Sigmund Erni þegar hann tók mig í örlítið viðtal fyrir sjónvarpið jólin sem að bókin kom út en þá spurði hann mig meðal annars að því hvers vegna ég væri að yrkja, eða skrifa, eða hvernig hann orðaði það. Ég svaraði nefnilega að bragði, óvenju einlæg, og sagðist gera það af því ég kynni það. Mér þykir sennilegast að honum hafi þótt svarið einum of montlegt og þess vegna hafi hann af hjartagæsku sinni ákveðið að klippa það út. Ég er hins vegar sannfærðari um það núna en nokkru sinni fyrr að ef að ég vanda mig þá er ég færari í því að skrifa en flestu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Og eftir að mér tókst að losa mig við fullkomnunaráráttuna veitir fátt mér meiri ánægju en það að setja saman sögur, leikrit og ljóð, og gjöfulli starfsvettvang er varla hægt að kjósa sér. Auðvitað er skemmtilegast að skrifa þegar allt gengur vel en samt finnst mér það mikilvægast að vera loksins sátt við sjálfa mig og hlutskipti mitt í lífinu.


Skrifað í ágústlok árið 2002
Linda Vilhjálmsdóttir


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:

Umfjöllun um bækurSkipta um leturstærð


Tungumál