Frá höfundi

Pistill frá Jónínu Leósdóttur

Að lifa og skrifa

Mitt fyrsta verk við upphaf hvers vinnudags er að kveikja á kerti. Það breytir engu hvort úti er myrkur eða morgunsól, hvort það er vetur, vor, sumar eða haust. Um leið og kertaloginn lognast út af, venjulega eftir um það bil fimm klukkustundir, kveiki ég síðan á nýju kerti. Og þegar ég er í miklum ham getur teygst svo úr setu minni við tölvuna að úr verði þriggja-kerta-dagar.

Ég þarf að sjálfsögðu ekki á kertinu að halda sem vinnuljósi og ég kveiki ekki á því til að skapa huggulega stemmningu í herberginu. Þótt flöktandi loginn sé fallegur er hann mér fyrst og fremst tákn og áminning.

Þegar ég kveiki ljósið tek ég mér stutta stund til íhugunar og það fyrsta sem ávallt kemur upp í hugann er þakklæti. Því þótt ég hafi vissulega fengið minn skammt af mótlæti hef ég margt að þakka fyrir og mér finnst mikilvægt að líta ekki á allt það jákvæða í lífinu sem sjálfsagða hluti. Ég er þakklát fyrir mína traustu vini og yndislegu fjölskyldu, fyrir teið í krúsinni minni og allt þar á milli.

Kertaljósið í vinnuherberginu er meðal annars tákn um þakklæti fyrir að ég skuli nú geta einbeitt mér alfarið að ritstörfum. Það er sannarlega ekki sjálfgefið. Einstæð móðir, eins og ég var í einn og hálfan áratug, getur ekki leyft sér þann lúxus að fórna fastri vinnu fyrir draum um að gerast rithöfundur. Að minnsta kosti ekki einstæð móðir sem vill sleppa við magasár og andvökunætur út af ógreiddum reikningum. Slík kona verður að láta sér nægja kvöldin, helgarnar, jólafrí, páskafrí og sumarleyfi til að skrifa – en á þeim sundurtætta vinnutíma togar reyndar ýmislegt annað í hana líka. Vinnustundirnar geta verið gegnsýrðar sektarkennd yfir því að vera ekki að sinna börnum og búi, fjölskyldu og vinum, hvíla sig og hlaða batteríin.

En ef þörfin fyrir að skrifa er gríðarleg skrifar konan nú samt. Og það er ekki tilviljun að ég nota orðið þörf en ekki löngun. Ef aðeins væri um löngun að ræða væri auðveldara að ýta þessu til hliðar. Ekki síst fyrir manneskju í skemmtilegri launavinnu, eins og þeirri sem ég var svo heppin að stunda alla tíð. Brennandi þörf bælir þú hins vegar ekki svo auðveldlega niður.

Ég byrjaði að skrifa bækur, leikrit og smásögur þótt ég væri í spennandi starfi sem blaðamaður. Ég þreifst hreinlega ekki án þess að skrifa líka „fyrir sjálfa mig”. Fyrsta bókin mín kom út 1988, þrjár til viðbótar litu dagsins ljós snemma á tíunda áratugnum og eftir það sneri ég mér um hríð að leikritum. Alltaf með annarri vinnu og alltaf með þann draum í maganum að geta einvörðungu sinnt skapandi skrifum.

Draumurinn rættist loks í ársbyrjun 2006 en þá var ég orðin fimmtíu og eins árs gömul.

Á þeim rúmu fimm árum sem nú eru liðin hafa komið út eftir mig fimm bækur og tvö leikrit eftir mig hafa verið flutt í útvarpinu. Þar að auki hefur mér hlotnast Ljóðstafur Jóns úr Vör og Vorvindaviðurkenning IBBY. Ég tel þetta þó ekki upp af tómu monti heldur fremur til að sýna að ég hef reynt að nýta tímann vel.

Kannski hefði ég ekki átt að bíða svona lengi. Kannski hefði ég bara átt að henda mér fram af brúninni, taka lán og sénsa. En það er ekki til neins að eyða tíma og orku í eftirsjá. Þegar ég kveiki á kertinu mínu á morgnana þakka ég fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera rithöfundur í fullu starfi. Mér finnst ég óendanlega heppin. Hvað með það þótt ég hafi þurft að bíða eftir draumastarfinu fram á sextugsaldur? Sumir fá aldrei á lífsleiðinni að starfa við það sem hugur þeirra stendur til. Og sumir ná aldrei sextugsaldri.

Einhverjum finnst þetta eflaust væmið en í hvert sinn sem mér verður litið á vinnukertið mitt hríslast um mig þakklæti fyrir að fá að lifa ... og skrifa.

Jónína Leósdóttir, apríl 2011.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál