Um höfundinn

Inga Ósk Ásgeirsdóttir skrifar um verk Kristínar Helgu

Kristín Helga Gunnarsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir barnabækur sínar en frá árinu 1997 hefur hún gefið út fimm bækur, tvær um stelpuna Binnu, Elsku besta Binna mín og Bíttu á jaxlinn, Binna mín, einnig Móa hrekkjusvín um Móa nágranna Binnu, auk tveggja sem höfða meira til yngri lesenda, Keikó, hvalur í heimsreisu sem er ríkulega myndskreytt og Milljón steinar og Hrollur í dalnum sem fjallar um Heklu 5 ára. Erfitt er þó að tilgreina hvaða aldri bækurnar hæfa, kannski fer það meira eftir áhugasviðum barnanna. Binnu- og Móabækurnar segja frá óvenju fjörugum stelpum og strákum og efni þeirra er raunsæislegt. Keikóbókin er mjög fræðandi og höfðar mjög vel til barna sem áhuga hafa á dýrum. Milljón steinar og hrollur í dalnum vinnur markvisst með þjóðsagnahefðina, skrímsli, álfa, drauga og galdra. Slíkt efni heillar mörg börn en önnur ekki en börn virðast mishrifin af fantasíum. Sjálf var ég mjög hrifin af öllum bókunum og tel athyglisvert hversu mikil gróska hefur átt sér stað í útgáfu barnabóka síðustu ár og hversu margir höfundar eins og Kristín Helga hafa sýnt þessu oft vanmetnu bókmenntategund tilhlýðilega virðingu.

Sagan Keikó, hvalur í heimsreisu byrjar eins og hinar bækurnar á hugleiðingu sem inniheldur boðskap sagnanna í hnotskurn auk þess sem hún minnir fullorðna á að börn sjá hlutina oft í skýrara ljósi og mikilvægt er að glata ekki þessu barnslega innsæi:

Kannski skilja börn þetta ævintýri betur en fullorðnir af því að börn eiga framtíðina. Þau ráða því hvernig framtíðin verður. Þau ráða hvernig þau hugsa um jörðina, náttúruna og dýrin. Þau ráða hvort þau henda gömlum reglum og búa til nýjar um veröldina, hvort þau vilja lifa með náttúrunni í sátt við hana eða berjast á móti henni og finna aldrei samhljóm. (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 3)

Binnubækurnar

Fyrri Binnubókin Elsku besta Binna mín gerist sumarið þegar Binna er níu ára og seinni bókin Bíttu á jaxlinn, Binna mín veturinn eftir og byrjun sumars. Sögurnar gerast að mestu í litlu þorpi nálægt Reykjavík í kringum 1970. Ekki er greint frá nafni þorpsins enda einskorðast heimur sögunnar að mestu við Silfurgötu sem Binna býr við en þar eru 20 krakkar. Við götuna er mói svo stutt er fyrir krakkana að fara út í náttúruna.

Sagan veitir nýja innsýn í heim lyklabarnsins því mamma Binnu vinnur úti ólíkt hinum mömmunum í götunni sem eru heimavinnandi, "svuntumömmunum" eins og Binna kallar þær. Binna er hæstánægð með hlutskipti sitt og nýtur þess að ráða yfir húsinu ásamt Þorbjörgu hundinum sínum. Húsið er ævintýrakastali og Þorbjörg eða Tobba "heimilisdrekinn" sem gætir hans. Binna lendir þó stundum í vandræðum, gerir eitthvað án þess að hugsa, og þá fær mamma hennar samviskubit og talar um að hún verði að hætta að vinna. Það vill Binna alls ekki og reynir að stilla uppátækjunum í hóf. Reyndar sendir mamma hennar hana í sveit í fyrri bókinni til ömmu sinnar og afa í Dölunum og víkka sveitakaflarnir heim bókarinnar og koma í veg fyrir einsleitni.

Binna er aðalpersóna og segir söguna. Hún er alltaf með þremur vinkonum sínum, Villu, Betu og Gunnu. Aðrir krakkar úr götunni koma líka við sögu, svo sem hin ómissandi hrekkjusvín. Pabbi Binnu vinnur sem landmælingamaður og er mikið uppi á fjöllum, mamman vinnur í skipafélagi og síðan á Binna systurina Mímí sem er dæmigerður unglingur. Aðrar persónur eru afi og amma Binnu í sveitinni og eru þau gamaldags sveitafólk og alger andstæða afa og ömmu Binnu í borginni.

Persónur eru fyrir utan Binnu mest týpur og fulltrúar ákveðinna gilda. Binna er mjög sjálfstæð og hugmyndarík eins og söfnunarárátta hennar í vísindaskyni ber vott um. Hugmyndaflugið og uppátækjasemin getur þó valdið vandræðum og þótt mamma Binnu skilji hana ítrekar hún að Binna beri ábyrgð á gjörðum sínum og þurfi að biðjast fyrirgefningar og bæta fyrir mistök sín. Binna lendir í einelti í skólanum sem hún kallar "Binnubann", aðallega vegna þess að hún er í öðruvísi úlpu en hinar stelpurnar. Í því stríði bítur hún á jaxlinn og bölvar í hljóði eins og afi hennar kennir henni og hefur sigur að lokum. Hún kemst að því að það er allt í lagi að vera öðruvísi. Gildi vináttunnar er einnig hampað í sögunum og Binna og vinkonur hennar standa þétt saman og styðja hver aðra í raunum, til dæmis þegar Binna pissar undir er þær gista í tjaldi yfir nótt.. Amma Binnu í sveitinni er ótrúlega kærleiksrík og umburðarlynd og góðsemi hennar hefur mikil áhrif á Binnu. Afinn og amman í sveitinni falla vel að ímyndinni, þau eru laus við stress og í betri tengslum við náttúruna en vinnulúnir foreldrarnir. Að sumu leyti eru þau tákn hverfandi tíma því þau flytja úr sveitinni í blokk í Reykjavík og jörðina kaupir ríkur borgarkarl sem ætlar að rífa bæinn og byggja sumarhús.

Binnusögurnar tvær samanstanda af inngangsköflum og mörgum stuttum köflum sem hver rekur ákveðna sögu. Flestir lýsa uppátækjum og vandræðum Binnu og vinkvenna hennar, til dæmis hundasúruátkeppni sem endar á Slysavarðstofunni, ráni úr garði nágranna og tombólu þar sem Binna gefur dýrgripi foreldra sinna. Inn á milli eru þó alvarlegri kaflar sem lýsa sveitadvöl, því hvernig Binna upplifir helgi jólanna, svo og því þegar hundurinn hennar týnist í fjölskylduferð. Að auki týnist pabbi hennar í óveðri á fjöllum og sjálf gleymist hún bundin við staur eftir að hafa verið í indjánaleik fjarri heimili sínu. Allt fer þó vel og margir kaflarnir enda á því að Binna leggst til svefns, full þakklætis og gleði yfir lífinu.

Persóna Binnu er mjög lífleg og einlæg, hún er úrræðagóð og þegar hún gerir eitthvað af sér er það gert í góðri trú. Samúðin er með henni en þó er undirstrikað að leikir barna geti haft alvarlegar afleiðingar. Sögurnar eru fyndnar án þess að vera yfirdrifnar. Stíllinn er mjög lifandi og samtöl eðlileg. Hver kafli segir ákveðna sögu á hnitmiðaðan hátt, án útúrdúra eða uppbrota. Orðfærið er sérstaklega fjölbreytt og kjarngott og á engan hátt einfaldað eða stílfært. Myndir Margrétar Laxness eru fjörlegar og miðla hlýju líkt og textinn.

Mói hrekkjusvín

Mói nágranni Binnu úr Silfurgötu er níu ára. Hann er hrekkjusvín. Ég velti því fyrir mér hvort hugtakið hrekkjusvín væri enn notað, hvort hrekkjusvínin væru talin ofvirk eða misþroska í dag. Niðurstaðan var sú að börn sem ég þekki tala enn um hrekkjusvín. Sagan er samferða Binnubókunum í tíma, gerist fyrir um það bil 25 árum þegar kúrekar og indjánar voru aðalhugðarefni drengja. Frásagnir af slíkum leikjum vekja að minnsta kosti upp minningar hjá pöbbum sem lesa bækurnar, en hugmyndin um kúrekann Byssu-Jóa, ósýnilegan vin Móa, gerir hugarheiminn mjög áþreifanlegan og sterkan. Fyrir utan Byssu-Jóa, þriggja metra háan kúreka og fylgdarmann Móa er sagt frá Góa, leynivininum sem hann sefur með á nóttinni. Mói er því þrátt fyrir æsileg prakkarastrik lítill í sér. Líkt og Binna framkvæmir hann án þess að hugsa, en ekki af slæmum hug. Hrekkjusvínið er því ekki vandamálatilfelli heldur er litið svo á að vesenið eldist af drengnum.
Frásagnarhátturinn er sá sami og í Binnubókunum og raddir þeirra Binnu og Móa hljóma svipað. Bæði tala í fyrstu persónu og frásagnargleðin er mikil, þegar sagt er frá einu atviki kviknar oft minning um fleiri slík tilvik. Sjónarhorn Móa er fyndið, hann þarf bara að prófa ýmsa hluti. Ævintýri Móa eru þó æsilegri en Binnu, hann flækist inn í þjófnaðar- og lögreglumál, er bjargað úr lífsháska af björgunarsveit og heimsækir sjálfan forsetann. Binna er meira í því að halda tombólu og baka drullukökur og má merkja greinilegan kynjamun. Kannski hentar prakkarastrikaformið strákasögum betur? Allavega er meira fjör í Móabókinni, bæði hvað efni og myndskreytingar varðar. Myndirnar eru eftir Margréti Laxness eins og í Binnubókunum en hér fer hún þá leið að flétta myndirnar meira inn í söguna, inn á milli lesmálsins, og skreyta kaflana þar að auki með táknum og flúri. Myndirnar gegna að mínu mati stærra hlutverki í þessari bók en Binnubókunum og þær eru sterkari og eftirminnilegri.

Keikó, hvalur í heimsreisu

Líkt og mörgum fannst mér nóg um allt umstangið með hvalinn Keikó. Þess vegna óttaðist ég að saga Kristínar Helgu væri ein af þessum einnota bókum sem samdar eru í gróðaskyni. Sem betur fer reyndist svo ekki vera og ég komst að því við lestur sögunnar að í raun vissi ég lítið um þennan fræga hval og hvali almennt.

Bókin er myndabók, myndskreytt af Hallgrími Ingólfssyni og Aðalsteini Svani Sigfússyni. Texti sögunnar er þó talsverður á 34 síðum enda letrið fremur smátt. Sagan er rammasaga og býr sögumaður til ímyndað sögusvið, dýagarðinn í borginni Lúmín í landinu Lúmínala. Í byrjun leiðir hann barn í gegnum garðinn og saman skoða þau ísbjörn, ljón, górillu, mörgæs og hval. Garðurinn er á suðrænum slóðum, hitinn er nær óbærilegur og dýrunum líður illa. Fyrir utan að ímynda sér ferðina í dýragarðinn lætur sögumaðurinn barnið loka augunum í garðinum og ímynda sér dýrin í réttum heimkynnum, frjáls, stolt og hamingjusöm:

Ísbjörninn liggur á maganum á steinsteyptri grænmálaðri klöpp við gruggugan poll. Þykki, hvíti feldurinn hans er skítugur. Hann horfir hjálparvana á okkur og virðist lamaður í hitanum. Við horfum á hann og kannski segir þú:
Aumingja greyið.
Þá segir ég:
Já, vesalingurinn. Það er ólíklegt að honum líði vel hér.
Þú tekur í höndina á mér og saman lokum við augunum. Við ímyndum okkur bláhvítar ísbreiður, kaldan sjó og ísjaka. Stjörnur og norðurljós skreyta himininn. Við sjáum ísbjörninn okkar standa stoltan á ísnum. Hann horfir haminjusamur yfir norðurhafið. Svo opnum við augun og sjáum vin okkar mása í hitanum niðri í steyptri gryfjunni. (Keikó, hvalur í heimsreisu bls. 5)

Myndmál textans höfðar mjög til skynjunar, andstæður eru skýrar, hugsunin um kaldan sjó fær aukið gildi í hitanum. Á hverri opnu þessarar frásagnar eru myndir sem draga andstæðuna enn frekar fram, sýna sama dýrið í dýragarðinum annars vegar og í náttúrulegum heimkynnum sínum hins vegar. Eftir að hafa skoðað hvalinn synda hring eftir hring í lítilli laug og hlustað á tregafullt væl hans sest sögumaður í skugga á bekk með íspinna og segir barninu ævintýrið um íslenska háhyrninginn. Sú frásögn er í þriðju persónu en að henni lokinni er aftur skipt yfir í dýragarðinn og fyrstu persónu frásögn, þar er komið að lokun og eftir umræður á bekknum yfirgefa sögumaður og viðmælandi hans garðinn.
Sagan um ævi Keikós er sett fram sem ævintýri. Ísland er eldfjallaeyja með litlu sætu veiðimannasamfélagi þar sem menn lifa í sátt við náttúruna. Háhyrningurinn er veiddur við Ísland þegar hann er tveggja ára, tekinn frá fjölskyldunni, sendur milli dýragarða um allan heim, fluttur á heilsuhæli eftir að hafa öðlast frægð og frama í kvikmyndum og loks skilað aftur heim eftir 20 ár þar sem hann á að læra að bjarga sér í náttúrunni á ný. Á yfirborði endar ævintýrið vel, Keikó fær frelsi. Sé betur að gáð er frelsið ekki raunverulegt.

Dýragarðsramminn er ákveðin veruleikatenging og sorglegt hlutskipti dýranna í dýragarðinum í Lúmín kallast á við sögu Keikós sem lendir á alls kyns hremmingum í dýragörðum, allt frá einelti af hálfu annarra háhyrninga, til hungurs, veikinda og vinnuþrælkunar sem skemmtikraftur. Keikó er ekki persónugerður í sögunni heldur er aðeins reynt að túlka tilfinningar hans út frá hljóðum, látbragði og útliti. Barnið sem hlustar á söguna sættir sig ekki við dýragarða sem sjálfsögð og eðlileg fyrirbæri og spyr þeirrar spurningar sem gleymist í sjálfumgleðinni yfir frelsun Keikós:

En var þetta ekki ósköp heimskulegt? Segir þú.
Hvernig þá?
Fyrst var hvalur veiddur. Svo var hann fluttur um allar trissur, heimshornanna á milli með skipum, flutningabílum og flugvélum, úr einni sundlaug í aðra. Loks var hann sendur heim til sín í undirdjúpin þar sem hann var veiddur fyrir óralöngu. Mikið getur mannfólkið verið vitlaust. Finnst þér það ekki? spyrð þú. Af hverju fékk hann ekki bara að vera í friði í sjónum með fjölskyldunni sinni? (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 33)

Þrátt fyrir útskýringar um dásamlegt sendiherrahlutverk Keikós og kærkomna hvíld á heimaslóðum, lætur barnið ekki segjast: „Bað hann um að fá að ferðast: spyrð þú hissa.“ (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 33)

Barnið er ekki kveðið í kútinn og rödd þess hljómar áfram að lestri loknum. Sagan veltir upp mörgum siðferðilegum spurningum um sambúð manns og náttúru og kallar hvern og einn til ábyrgðar.

Milljón steinar og Hrollur í dalnum

Milljón steinar og Hrollur í dalnum er sögð af hinni sjö ára Heklu og lýsir ævintýrum hennar í sveitinni hjá afa og ömmu þar sem hún dvelur ásamt Kötlu systur sinni og hundinum Eyjólfi á meðan vinnuþrælarnir og húsbyggjendurnir foreldrar hennar skreppa til Parísar "að lyfta sér upp".

Afi og amma Heklu eru ekki bændur heldur keyptu þau eyðijörð, athvarf frá Reykjavík sem afinn kallar "Rykvík". Á jörðinni Bjargi nýtur hann lífsins og stundar skógrækt. Amman er ekki eins ginkeypt fyrir sveitasælunni og dvelst meira í Reykjavík. Gamla fólkið í þessari sögu er, líkt og í mörgum öðrum, nátengdara náttúrunni en þeir sem yngri eru og gefur börnunum meiri tíma. Afinn spinnur upp sögur um tröll, skrímsli, álfa og drauga tengdar umhverfi býlisins og amman segir Heklu klassísk ævintýri um kónga og drottningar sem hún hefur betrumbætt. Mjallhvít giftist auðvitað ekki prinsinum strax þótt hann kyssi hana og pabbi og stjúpa Hans og Grétu fara í fangelsi og meðferð fyrir að úthýsa börnum sínum.

Sögur afans eru, líkt og þjóðsögur, trúverðugar hvað umhverfi snertir og Hekla trúir þeim þótt afinn ætlist ekki til þess og amman sé stöðugt að skamma hann fyrir bullið. Þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli Heklu renna saman hið náttúrlega og hið yfirnáttúrulega. Hún sér skrímslið í ánni sem afi hennar hafði sagt henni frá til þess að hún væri ekki að þvælast nálægt ánni og þegar á líður söguna er skrímslið stöðugt að skjóta upp kollunum tveimur. Hræðsla Heklu við skrímslið er nær óbærileg en hún biður samt afa sinn að segja sér söguna einu sinni enn, en samkvæmt henni er skrímslið stúlka í álögum. Afinn segir ennfremur hvernig hægt sé að hnekkja álögunum og Hekla fylgir leiðbeiningum, fer í óleyfi út um miðnætti, kastar steini í ána og frelsar stúlkuna:

Allt í einu rufu ógurlegar drunur næturkyrrðina. Hulduklettur skalf og nötraði, og ég var næstum dottin fram af honum og út í ána. Ég greip í Eyjólf og við hjúfruðum okkur upp að Stóra-Steini á klettinum. Grimmilegt öskur bergmálaði í fjallasalnum. Það barst frá fossinum. Vatnaskrímslið teygði sig í öllu sínu veldi upp úr fosshylnum með miklum óhljóðum. Skyndilega hneig ófreskjan niður sem dauð væri og hamurinn flaut líflaus niður ána, framhjá okkur. Um leið sveif silfurlituð þokuslæða upp úr fossinum og hóf sig til himins. Var það sál vesalings stúlkunnar? (Milljón steinar og Hrollur í dalnum, bls. 63)

Hekla sigrast á ótta sínum og beitir til þess meðölum ævintýrisins. Hið góða sigrar hið illa og jafnvægi kemst á milli ímyndunar og veruleika.
Sagan er mjög skemmtilega skrifuð líkt og hinar sögurnar. Kristín Helga vinnur hér á meðvitaðan hátt með þjóðsagnaarfinn enda úr miklu að moða. Hún blandar saman ýmsum tegundum þjóðsagna og hleður söguna minnum. Boðskapur þjóðsagnanna um virðingu fyrir náttúrunni er hér í heiðri hafður svo og uppeldisgildi sagnanna sem margar hverjar hafa þann tilgang að forða börnum frá hættum. Auk þess boðar sagan gildi fjölskyldunnar, Kötlu líður betur í lítilli blokkaríbúð en nýja einbýlishúsinu, áður en foreldrarnir hlaða á sig yfirvinnu. Stundum læðist að manni grunur um að barnabækur séu ekki síður skrifaðar með fullorðna upplesara í huga!

© Inga Ósk Ásgeirsdóttir, 2001


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál