Um höfundinn

Margrét Tryggvadóttir skrifar um verk Guðrúnar Helgadóttur

Margrét Tryggvadóttir: Guðrún Helgadóttir – Málsvari barna

Hvernig eiga góðar barnabækur að vera? Sitt sýnist hverjum, en það eru þó nokkur atriði sem oftast eru nefnd; Barnabækur "eiga" að vera fyndnar og skemmtilegar, byggja upp siðferðisvitund ungs lesanda og vera á góðu máli. Þær "eiga" að hjálpa ungum lesanda að verða að dyggum þjóðfélagsþegni, en umfram allt "eiga" þær að fjalla um lífið sjálft. Það er ekki svo erfitt að setja saman fyndna sögu og enn auðveldara að predika hvað sé rétt og hvað rangt. Vandað málfar er einnig á flestra færi. Það sem skilur hins vegar á milli meðalgóðra barnabókahöfunda og þeirra bestu er trúverðugleiki sögunnar og sá hæfileiki að segja frá á þann hátt að lesandinn hrífist með og láti sig örlög persónanna varða. Allra bestu barnabækurnar birta okkur ævintýri hversdagsins á glænýjan hátt og fá okkur til að hugsa upp á nýtt.

Guðrún Helgadóttir er fædd þann 7. september 1935 í Hafnarfirði. Auk ritstarfa hefur hún mikið starfað að stjórnmálum og sat á alþingi frá 1979 fram á miðjan tíunda áratuginn. Fyrsta bók Guðrúnar kom út fyrir 25 árum. Það var sagan um tvíburabræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Þeir búa í blokk með pabba sínum og mömmu, Möggu litlu systur sinni og Önnu Jónu, en hún er hálfsystir þeirra og er með ógurlega veiki sem heitir unglingaveiki og ungir lesendur botnuðu jafn lítið í og þeir bræður. Heimilishjálpin Soffía passar krakkana á daginn, á meðan foreldrar þeirra eru í vinnunni og amma dreki, sem er erindreki hjá útvarpinu og hefur skoðanir á öllum hlutum, kemur einnig við sögu. Tvær bækur um þá bræður fylgdu í kjölfarið og árið 1981 gerði Þráinn Bertelsson vinsæla kvikmynd um Jón Odd og Jón Bjarna og fjölskyldu þeirra.
Á árunum 1974 til 1980 þegar bækurnar um þá bræður komu út var krafan um pólitískar og jafnvel byltingarsinnaðar barnabækur hávær. Bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna falla að mörgu leyti vel að hugmyndum þess tíma. Foreldrar bræðranna vinna bæði utan heimilisins og taka þátt í pólitísku starfi. Í bakgrunni verksins glittir jafnvel í pólitísk átök, enda eru allar fullorðnar persónur verksins hver í sínum stjórnmálaflokki og ekki alltaf sammála. Bækur Guðrúnar hvetja lesendur sína, börn jafnt sem fullorðna, til umhugsunar um þjóðfélagið og þau lögmál sem þar ríkja, en höfundur fellur aldrei í þá gryfju að koma sínum eigin stjórnmálaskoðunum að.
Margar barnabækur sem skrifaðar voru á þessum tíma hafa elst illa. Þær eru þyngri og alvarlegri en flestar barnabækur í dag og fjalla meira um vandamál en góðu hófu gengdi. Það merkilega við bækur Guðrúnar Helgadóttur er að þær eru, ólíkt flestum bókum þessa tíma, jafn skemmtilegar í dag og þegar þær komu fyrst út. Galdurinn felst meðal annars í sjónarhorninu.

Eitt af höfundareinkennum Guðrúnar Helgadóttur er bernskt sjónarhornið. Hún hefur þá náðargáfu að geta sett sig í spor barns og sagt frá heiminum eins og það sér hann. Sýn barnsins er alltaf fersk og því eldast verk hennar svo vel. Oft er skemmtilegt misræmi milli þess sem börnunum í sögunum finnst og raunveruleikans. Kærastinn hennar Önnu Jónu, hálfsystur tvíburabræðranna, hann Simbi, er til dæmis alltaf með eina bólu í andlitinu. Bræðurnir halda að þetta sé alltaf sama bólan og fylgjast grannt með ferðum hennar um smettið á Simba. Þeir sem eldri eru skilja hins vegar sannleik málsins. Hvort sem lesandinn skilur hvernig í pottinn er búið eður ei, þá er bólan hans Simba áhugaverð og fyndin og eitt þeirra óteljandi atriða í bókum Guðrúnar sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af, þó á ólíkan máta sé. Auga barnsins getur nálgast viðfangsefni sín á annan hátt en fullorðnir gera. Því er það oft að sögupersónur Guðrúnar benda á ýmsa meinsemd samfélagsins, sem hinir fullorðnu taka sem sjálfgefinn hlut.

Margir fullorðnir barnabókaunnendur krefjast þess að bækur fyrir börn beri með sér góðan boðskap. Það gera bækur Guðrúnar Helgadóttur svo sannarlega. Réttur og staða þeirra sem minna mega sín eru henni alltaf hjartfólgin. Á alþingi íslendinga hefur þingmaðurinn Guðrún Helgadóttir barist fyrir bættum kjörum fólks. Í bókum hennar stendur baráttan sjaldnast um peninga eða fisk, heldur viðurkenningu á stöðu barna og annarra sem minna mega sín og eiga sér enga rödd í þjóðfélaginu. Í verkum sínum bendir hún á réttleysi barna og hversu háð þau eru vilja og skoðunum fullorðna fólksins. Þeir Jón Oddur og Jón Bjarni eru svo heppnir að eiga góða foreldra, en það er alveg ljóst að það eru ekki allir svo heppnir. Jói á hæðinni fyrir neðan, er hræðilegt hrekkjusvín, en jafnvel yngstu lesendur bókanna hafa samúð með honum, þegar mamma hans er að skamma hann og rífast. Fæstir eiga heldur erfitt með að sjá hvað er orsök og hvað afleiðing á heimili þeirra. Vinur tvíburanna er Lárus. Sú mynd sem er dregin upp af heimili hans og fjölskyldu er mjög ólík fjölskyldu bræðranna. Pabbi hans er sjómaður og því er móðir Lárusar mikið ein með með hann og hana Selmu systur hans. Selma er ein af þeim persónum Guðrúnar sem hefur ekki heppnina með sér. Hún er með Downs heilkenni, en strákarnir taka hana upp á sína arma og eru duglegir að passa hana. Þeir verða svo fyrir aðkasti annarra barna sem skilja ekki eðli málsins. Þar slær Guðrún tvær flugur í einu höggi. Hún er bæði búin að koma því á framfæri við unga lesendur að svona lagað geri maður ekki og senda hinum fullorðnu tóninn; Það er þeirra að ala upp börnin svo þau verði víðsýnar og umburðalyndar manneskjur.

Stundum er eins og boðskapur bóka Guðrúnar sé jafnvel enn frekar ætlaður fullorðnum. Brúðustrákurinn Páll Vilhjálmsson kom fram í barnatíma ríkissjónvarpsins tvo vetur og Guðrún Helgadóttir samdi textann hans. Síðar kom út bók þar sem Páll eða Palli eins og öll þjóðin kallaði hann, var í aðalhlutverki. Þar sem Palli var brúða en ekki raunverulegur strákur gat Guðrún látið hann gera og segja ýmislegt sem hún hefði aldrei komist upp með að láta barn leika eftir. Páll Vilhjálmsson er málsvari allra barna á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hann er gagnrýninn á veröld og venjur hinna fullorðnu og segir skoðanir sínar óhikað. Hann stofnar meira að segja samtök krakka, sem berjast fyrir réttindum barna, sem eru að hans mati fótum troðin af fullorðnu fólki. En Palli er líka skemmtilegur og fyndinn. Eins og aðrar bækur Guðrúnar er bókin um Palla jafnt fyrir börn og fullorðna og því vinsæl til upplestrar. Á þann hátt ná skilaboðin jafnt til hinna fullorðnu sem verða kannski aðeins kurteisari við krakka fyrir vikið.

Ári áður en Páll Vilhjálmsson kom út sendi Guðrún frá sér bókina Í afahúsi. Þar segir frá Tótu sem er átta ára og óvenju bráðþroska og skýr stelpa, enda veitir ekki af, því lífið er ekki alltaf dans á rósum. Tóta býr ásamt foreldrum sínum og systkinum í húsi afa og ömmu eftir að foreldrar hennar kúpla sig út úr lífsgæðakapphlaupinu og selja hús sem þau voru að byggja. Heimilisfaðirinn hættir á sjónum og gerist ljóðskáld og fjölskyldan flytur í kjallarann hjá afa og ömmu. Það þarf að hafa bein í nefinu til að synda á móti straumnum og það hefur Tóta svo sannarlega. Og enn beinir Guðrún sjónum lesenda að hinu óvenjulega og sérstaka. Tóta eignast nýja vinkonu, sem heitir Ásdís og er tökubarn frá Kóreu. Hún verður fyrir aðkasti í skólanum vegna þess að hún lítur öðruvísi út en hin börnin, en stelpurnar snúa bökum saman og vinna sigur á hrekkjusvínunum.

Mest áberandi er ádeila hins bernska á heim hinna fullorðnu þó í leikritinu Óvitar sem Guðrún samdi fyrir Þjóðleikhúsið á barnaári Sameinuðu þjóðanna 1979. Þar framandgerir hún leikheiminn með því að snúa allri hlutverkaskipan við. Börnin í verkinu eru öll leikin af fullorðnu fólki, en hinir fullorðnu leiknir af börnum. Í þessum sérstæða heimi fæðast börnin stór, en minnka þegar fram líða stundir. Gamla fólkið er auðvitað minnst. Í Óvitum segir frá tveimur stórum en ungum drengjum, þeim Guðmundi og Finni. Heimilislífið hjá Finni er ekki sem best og hann ákveður að strjúka og felur sig hjá Guðmundi. Foreldrar Guðmundar vinna svo mikið að þau verða ekkert vör við laumugestinn. Leikritið er ákaflega skemmtilegt og sniðugt og með því að snúa hlutverkunum við fær höfundurinn okkur til að leiða hugann að ýmsu sem ekki er sjálfgefið. Leikmyndin við sýninguna í Þjóðleikhúsinu var t.d. öll í barnastærð og því sniðin að fullorðna fólkinu í verkinu.

Næstu skáldsögur Guðrúnar eru þríleikurinn Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni. Þar kveður við nýjan tón. Bækurnar segja frá barnmargri fjölskyldu í Hafnarfirði í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og á eftirstríðsárunum. Stórfjölskyldan býr saman í hrörlegu húsi og lífskjörin ráðast af því hvernig fiskast hverju sinni. Fjölskyldufaðirinn er drykkfelldur sjómaður, mamman duglaus, amman guðhrædd og afinn á heimilinu gamall, blindur og bitur. Í fyrstu bókinni stendur sögumaðurinn þétt upp við elstu systurina, Heiðu. Hún er alvarleg og metnaðarfull og ber að mörgu leiti ábyrgð sem hinir fullorðnu í fjölskyldunni ættu frekar að bera. Hana dreymir um að vera eins og hinir og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að koma fjölskyldunni á réttan kjöl. Í næstu bók sjáum við lífið með augum Lóu Lóu systur hennar. Hún hugsar mikið, að eigin sögn og tekur lífið ekki eins alvarlega og Heiða. Þriðja bókin er sögð frá sjónarhóli Öbbu hinnar, yngstu systurinnar. Hún er fjörkálfurinn í hópnum og því er léttara yfir síðustu bókinni. Að öðrum verkum Guðrúnar Helgadóttur ólöstuðum, eru þessar bækur hápunktur ferils hennar. Þær hafa allt til að bera sem gerir bækur sígildar. Örlagasaga fjölskyldunnar og annarra bæjarbúa kemur öllum við og eru jafnmiklar bókmenntir fyrir börn og fullorðna. Þá veita þær innsýn inn í séríslenskan heim á umbrotatímum og beina sjónum manna að þeim fjölmörgu sjómannsfjölskyldum sem byggja þetta land, en lítið hefur verið fjallað um í barnabókum. Illugi Jökulsson hefur gert prýðilega leikgerð eftir sögunum sem flutt var í ríkisútvarpinu sumarið 1999.

Undan illgresinu kom út árið 1990. Þar segir frá Mörtu Maríu sem er að flytja ásamt mömmu sinni og tveimur bræðrum, úr glænýju einbýlishúsi í íbúð í gömlu og dulúðugu húsi. Pabbi hennar framdi sjálfsmorð tveimur árum áður og síðan þá hefur lífið ekki verið neinn dans á rósum. Í gamla húsinu búa ýmsar athyglisverðar persónur, en það hvílir yfir þeim skuggi. Marta María fer að hreinsa illgresið í garði hússins og brátt fara íbúarnir einnig að taka til í lífi sínu. Loks fer að birta til þegar sannleikurinn hefur verið sagður. Bókin fékk Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992.

Næst sendi Guðrún frá sér bókina Litlu greyin. Þar segir frá drengnum Trausta og systrum hans, þeim Tobbu og Tinnu. Saman fara þau með mömmu sinni í sumarbústað upp í sveit. Litla fjölskyldan er ósköp döpur, enda er pabbi að flytja frá þeim. Amma barnana kemur í heimsókn og ætlar að reyna að hressa þau við, en þess í stað týnist hún. Þessir óvæntu erfiðleikar verða til þess að þjappa fjölskyldunni saman á ný og pabbinn steinhættir við að flytja burt. Ungur strokufangi kemur einnig við sögu og reyndar er það hann sem finnur ömmuna. Eitt af höfundareinkennum Guðrúnar, er einmitt að ekkert er eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn og ólánsami strokufanginn reynist gæðablóð þegar til kemur.

Í næstu þremur bókum er Guðrún enn með hugann við glæpamenn. Bækurnar Ekkert að þakka!, Ekkert að marka! og Aldrei að vita! mynda saman þríleik um þrjá krakka sem lenda í óvæntum ævintýrum og leysa glæpamál. Í fyrstu bókinni, Ekkert að þakka! frá árinu 1995, segir Eva frá því þegar hún og vinur hennar Ari Sveinn finna tösku fulla af peningum sem glæpamenn reyndu að koma undan. Peningana nota þau til að gleðja þá sem eru blankir og minna mega sín. Skjólstæðingar krakkanna eru sundurlaus hópur og þar skapast tækifæri til þess að skyggnast inn í heim ólíkra einstaklinga. Í bókinni er einnig sagt frá samkynhneigð á hlutlausan og ofureðlilegan hátt. Önnur bókin Ekkert að marka! er sögð frá sjónarhóli Ara Sveins og í henni upplýsir hann og Áki dularfullt bruggmál. Í þriðju bókinni, Aldrei að vita!, fáum við að skyggnast inn í hugarheim Áka. Strákarnir fara með fjölskyldu Ara Sveins upp í sveit. Þar reynir á strákana, því þeir verða vitni að æðadúnshnupli. Í síðustu tveimur bókunum leggur Guðrún meiri áherslu á að sögurnar séu spennandi og því eru þær æsilegri en fyrri verk hennar. Í viðtali hefur hún sagt að það geri hún vegna aukins framboðs af ýmiskonar spennandi afþreyingu fyrir börn. Hún vilji skrifa bækur sem geti keppt við allt sem í boði sé. Þessar bækur flokkast þó seint með hefðbundnum afþreyingarbókum, til þess eru þær of margslungnar. Hér sjáum við fleiri hliðar málsins en vant er í slíkum bókum. Sem dæmi má nefna að í Ekkert að marka! hlýtur afbrotamaðurinn, gömul kona sem drýgir tekjurnar með bruggstarfssemi, ekki hefðbundna refsingu.

Guðrún hefur einnig sent frá sér nokkrar myndabækur. Sú fyrsta er Ástarsaga úr fjöllunum frá 1981og er unnin með Brian Pilkington. Sú bók er löngu orðin klassísk, enda fara þar saman frábær saga og skemmtilegar myndir. Sagan styðst við íslenska þjóðtrú og segir frá tröllskessunni Flumbru sem heldur til fundar við ástmann sinn en verður að steini þegar fyrstu geislar morgunsólarinnar ná að skína á hana. Í sögunni er ýmis náttúrufyrirbrigði eins og jarðskjálftar og eldgos útskýrð með látunum úr tröllunum. Ástarsaga úr fjöllunum er fyrir löngu orðin sígild og hefur komið út á fjölmörgum tungumálum.
Næst kom Gunnhildur og Glói frá 1985, en myndir við hana gerðu Terry Burton og Úlfar Örn Valdimarsson. Þar segir frá Gunnhildi sem á erfiðan dag á leikskólanum, en þegar tilveran sýnist sem svörtust kynnist hún álfadrengnum Glóa sem veitir henni nýja og bjartari sýn á lífið. Svo var það Núna heitir hann bara Pétur frá 1990 sem er einföld saga prýdd myndum Harðar Haukssonar. Þar segir frá Pétri, fjögurra ára, sem pissar enn í buxurnar, en snarhættir því þegar endurnar á tjörninni vilja ekki pissublautt brauð. Velkominn heim Hannibal Hansson kom út tveimur árum síðar. Það er falleg saga um strákhnokka sem er að flytja heim til Íslands. Hann langar ekki vitund til þess en á leiðinni heim kynnist hann skýjakrökkum og eftir það lítur hann öðruvísi á málið. Nýjasta myndabók Guðrúnar heitir Englajól. Vigdís Finnbogadóttir las söguna á jóladag í Sjónvarpinu árið 1995 en sagan kom ekki út á bók fyrr en 1997, en það var Brian Pilkington sem gerði einstaklega fallegar myndir við söguna.

Börn eru einstaklingar í mótun og það er öllu samfélaginu lífsnauðsynlegt að barnabækur séu skrifaðar með ást og virðingu fyrir börnum að leiðarljósi. Það hefur Guðrún Helgadóttir alltaf gert og betur en flestir aðrir. Ég sjálf og flestir af minni kynslóð eru þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp með verkum hennar. Við erum betri manneskjur fyrir vikið. Sem betur fer er Guðrún enn að skrifa fyrir börn á öllum aldri og því er fjársjóðurinn okkar alltaf að stækka. Það ber að þakka.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál