Um höfundinn

Kristín Viðarsdóttir skrifar um verk Vigdísar Grímsdóttur
Kristín Viðarsdóttir: Skáldvera. Um verk Vigdísar Grímsdóttur


Vigdís skrifar fyrir fullorðna í börnum og börn í fullorðnum og víst er að velflestar bækur hennar fjalla að meira eða minna leyti um börn þótt eingöngu ein þeirra hafi verið kölluð barnabók


Með þessum orðum lýsir Vigdís Grímsdóttir skáldskap sínum í kynningarbæklingi sem fylgir norskri sýningu á íslenskum barnabókum síðustu 10 ára (1). Þarna beinir hún athyglinni að tengslum bernsku og fullorðinsára eða óljósum mörkum og samslætti þessara skeiða í lífi einstaklingsins, þar sem börn búa í fullorðnum og fullorðnir í börnum, en slík riðlun er einnig mjög áberandi í verkum hennar. Persónur eru þar margar hverjar bernskar þótt þær eigi að teljast fullorðnar og að sama skapi lenda börn oft í hlutverkum sem á engan hátt tilheyra aldri þeirra og verður sjónarhornið því oft í senn bernskt og fullorðinslegt óháð því á hvaða aldri sögumaður eða vitundarmiðja textans er.
Strax í fyrstu bók Vigdísar, Tíu myndum úr lífi þínu (1983) sem er safn stuttra sagna og ljóða, er bernskan áberandi þráður en hún verður síðan ráðandi stef í skáldsögunum Kaldaljósi (1987), Ég heiti Ísbjörg ég er ljón (1990) og Grandavegi 7 (1994) auk barnabókarinnar Gauti vinur minn (1996). Loks má nefna ljóðabókina Minningabók (1990) sem Vigdís skrifar í minningu föður síns og tileinkar móður sinni en þar eru bernskuminningar ljóðmælanda í forgrunni. Í öðrum verkum Vigdísar eru börn ekki í aðalhlutverki eða koma jafnvel hvergi við sögu, en samt má í sumum þeirra finna sjónarhorn sem kenna má við bernsku. Þetta á sérstaklega við þann myndríka heim sem aðalpersóna skáldsögunnar Stúlkan í skóginum smíðar sér og dvelur í, skóglendi hugans, sem á raunar miklu meira skylt við það áhyggjuleysi, ævintýri og fegurð sem mönnum er tamt að tengja við heim barnsins en sá harði heimur sem börnin í flestum fyrrgreindum sögum búa við.

Í verkum Vigdísar er heimur barnsins nefnilega alls ekki heimur sakleysis og ævintýra heldur miklu frekar ógnar og jafnvel hryllings og sögur hennar fjalla gjarnan um örvæntingarfullar tilraunir barna til að halda heimi sínum og fjölskyldu sinnar saman, eða þá að persónurnar geta ekki skilið sig frá bernsku sinni þótt þær séu komnar á fullorðinsaldur. Sögurnar eru því fæstar þroskasögur í hefðbundnum skilningi, í mörgum tilfellum eiga persónur afar erfitt með að takast á við þann veruleika sem blasir við þeim en leita þess í stað inn á við og loka sig af í skálduðum heimi sem þær telja sig hafa á valdi sínu. Það má þó sjá vissa þróun í verkum Vigdísar hvað þetta varðar því í seinni sögum hennar reyna persónur að nýta sér innri reynslu sína til að tengjast heiminum fyrir utan þótt sá samruni eða samband við aðra sem þær þrá að öðlast verði ekki alltaf að veruleika. En hvort sem persónurnar stefna alfarið burt frá veruleikanum (og farist þannig í leitinni að sjálfum sér og merkingunni), eða nýti sér innri reynslu sína til að taka stefnuna út á við, er slík "yfirtaka" innra lífs manneskjunnar, hugsana hennar og drauma, eitt af sterkustu einkennunum á skáldskap Vigdísar. Mörk veruleika og fantasíu eru oft afar óljós og í samræmi við það eru textarnir ljóðrænir, hvort sem um er að ræða ljóð eða prósa, og má raunar segja að Vigdís sameini þessi form í öllum verkum sínum á einhvern hátt.

Í fyrstu tveimur bókum hennar skiptast á stuttar sögur og ljóð. Vigdís hefur síðan að mestu fengist við skáldsagnaskrif, ef undan eru taldar ljóðabækurnar Minningabók og Lendar elskhugans, sem er samfelldur ljóðabálkur, en báðar þessar bækur segja sögu eða varpa upp myndum og myndbrotum sem vart verða lesin nema sem ein heild. Að sama skapi bera skáldsögur hennar ljóðræna eiginleika þar sem hljómfalli, endurtekningum og ýmist hröðum og knöppum eða flæðandi stíl er beitt á mjög meðvitaðan hátt. Stíllinn er myndrænn og tengist það oftar en ekki því bernska sjónarhorni sem minnst var á hér að framan, orð umbreytast í myndir og persónur umbreyta hlutum í skynjun sinni eins og þegar flöktandi logar minna Guðrúnu í Stúlkunni í skóginum á "leggjalanga stráka í fjöru með tærnar í löðri" (16).
Grímur í Kaldaljósi, fyrstu skáldsögu Vigdísar, sem er barn í fyrri hluta bókarinnar en fullorðinn í þeim síðari, skynjar heiminn á þennan myndræna hátt og það gerir Ísbjörg, titilpersóna Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, einnig. Hún lifir þó og hrærist enn frekar í sögum sem faðir hennar segir henni þegar hún er barn og það svo mjög að hún losnar aldrei undan því ægivaldi sem hann hefur yfir henni. Jafnvel ekki þótt hann fyrirfari sér þegar hún er átta ára gömul eftir að hafa stjórnað lífi hennar og móður hennar og misþyrmt þeim andlega og líkamlega árum saman. Ísbjörg segir sögu sína í fangaklefa á meðan hún bíður réttarhalda vegna morðs á viðskiptavini sínum (sem vændiskona) og í frásögn hennar kemur smám saman í ljós hvernig hún "skáldar" sjálfa sig inn í texta sem faðir hennar hefur skrifað fyrir hana. Hún segist sjálf hafa hætt að eldast átta ára gömul og er þannig barn í fullorðnum líkama án þess að hafa fengið að vera barn í friði. Þessi mótsögn birtist svo ef til vill í fantasíu hennar um stúlkuna á ströndinni, Ísbjörg klýfur sjálfa sig bókstaflega í tvennt og skapar sér annað sjálf sem hún sameinast í lok sögunnar. Ísbjörgu tekst ekki fremur en Grími í Kaldaljósi að vinna úr bernsku sinni, bæði flýja þau að lokum inn í skáldaða en örugga tilveru (einhvers konar dauða) þar sem þau standa í bókarlok og veifa til lesandans.

Brúðugerðarkonan Hildur í næstu skáldsögu Vigdísar, Stúlkan í skóginum, er andlega skyld föður Ísbjargar. Lýsingin á henni í upphafi textans minnir raunar á sambland af slöngu og blóðsugu sem er tekin að þyrsta í nýtt og endurlífgandi blóð. Eyru hennar minna fórnarlamb hennar og sögumann bókarinnar, Guðrúnu, einnig á sögu af álfkonu og þannig renna saman Biblíumyndir, vísanir í þjóðsögur og loks hrollvekjur í bókmenntum og kvikmyndum. Enda sýgur hún lífið úr Guðrúnu, leggst yfir hana og allt að því étur hana í bókstaflegum skilningi þegar hún hefur hamskipti við hana og leggur þannig undir sig líkama hennar í lok sögunnar.

Í verkum Vigdísar er slíkt sugu- eða átmyndmál afar algengt. Fólk er étið, gleypt, andað er á það, lagst yfir það, aðrir sjúga það eða galdra það til sín, stinga það með augunum eða smjúga inn um augu þess svo eitthvað sé nefnt. Þessu myndmáli tengjast jafnan spurningar um vald og valdleysi þar sem fólk reynir annað hvort að stjórna öðrum eða slá eign sinni á þá leynt og ljóst eða þá að það verður öðrum að bráð. Þetta á við um samband Ísbjargar við föður sinn í hennar sögu, um Hildi og Guðrúnu í Stúlkunni í skóginum, um föður Fríðu og fjölskyldu hans í Grandavegi 7 og einnig að nokkru leyti um samband elskendanna Önnu og Z í Z: ástarsögu. Þessu tengist svo hræðsla persónanna við að hleypa öðrum inn á sig, að leyfa einhverjum að ganga inn í það "hús" sem systirin í Minningabók segir hverja manneskju vera:


Og einn liðlangan dag kemur hún til mín, systirin
og segir að ekki aðeins séu sumir dagar hús,
fólk sé líka hús, og það ráði hverjum það hleypi
inn, hverjum það bjóði til sængur, hverjum það
leyfi að vera. Og hún er hugsi þegar hún segir
að þess vegna verði fólk líka að gæta sín.
(Minningabók, s. 34)


Þessu gætir Guðrún í Stúlkunni í skóginum sín ekki á og segja má að ótti manneskjunnar við það að einhver ráðist inn í heim hennar og breyti gangi himintungla þar, eins og Ísbjörg lýsir fyrir verjanda sínum í sinni sögu, verði að veruleika í sögu Guðrúnar þegar Hildur gengur inn í "skóg" hennar og sundrar smám saman einingu hans. Hildur hyggst nota Guðrúnu sem efnivið í listaverk í bókstaflegum skilningi og er sagan, sem að mínu mati er eitt það besta sem Vigdís hefur skrifað, hrollvekjandi krufning á því hve langt er hægt að ganga í nafni listarinnar (sem síðan má yfirfæra á hvaða "æðri tilgang" sem vera skal) séu siðferðilegar spurningar látnar lönd og leið. Svörin eru þó ekki einhlít því þótt Guðrún sé öðrum þræði saklaust fórnarlamb, lítil fullorðin stúlka sem gengur grunlaus í gin óvættarins, neitar hún að takast á við nokkuð það í lífi sínu sem getur valdið henni sársauka og virðist þannig til dæmis staðna í þroska um það leyti sem hún er að komast á kynþroskaaldur.

Unglingsstúlkan Fríða, aðalpersóna og sögumaður Grandavegs 7, reynir hins vegar að laga sig að heimi fullorðinna án þess að hafa að fullu sagt skilið við heim bernskunnar. Hún stendur raunar á mörkum tveggja heima í öðrum skilningi því hún er skyggn og þarf stöðugt að hlusta á sögur framliðinna íbúa hússins á Grandaveginum þótt hún kæri sig ekki alltaf um það. Draugarnir trufla sífellt hugsanir hennar og athafnir, grípa fram í fyrir henni og leiða hana af beinni braut einradda hugsunar, línulegs tíma og afmarkaðs rúms, þannig að hún ferðast milli tímaplana og staða, eða er á mörgum í senn.

Það má allt eins kalla skyggni hennar margröddun, því Fríða er miðill ólíkra og oft andstæðra radda sem kallast á. Þótt raddirnar fari allar í gegnum Fríðu og hún sé í þeim skilningi vitundarmiðja textans, er fyrstu persónu frásögnin víkkuð út þannig að rödd Fríðu er aðeins ein þeirra radda sem birtast í textanum. Það má því segja að miðjustaða hennar sé í senn undirstrikuð og leyst upp, hún verður að henda reiður á öllum þessum röddum, en einnig að finna sína eigin og þannig skapa sjálfa sig, og henni virðist takast það ólíkt þeim persónum sem hér hafa mest verið til umræðu. Vofurnar eða raddirnar sem fylgja henni geta einnig vísað til þeirrar stöðu sjálfsverunnar að vera okkar sé alltaf háð öðrum röddum, öðrum tíma og öðru rúmi og því séum við aldrei bara hér og nú, hvert eitt sjálf heilt og óskipt og skýrt afmarkað frá öðrum.

Vigdís nýtir sér einnig þetta útvíkkaða fyrstu persónu form í næstu bók sinni, barnabókinni Gauti vinur minn sem kom út sama ár og skáldsagan Z: ástarsaga. Í Gauta kynnumst við 5 ára gömlum strák í gegnum fullorðinn sögumann, Beggu vinkonu hans, en saman fara þau í ferðalög sem reynast vera sameiginlegir draumar þeirra beggja. Í draumaferðunum læra þau sitthvað um sjálf sig og aðra og Gauta tekst meðal annars að vinna bug á ótta sínum við að missa mömmu sína. Gauti er enn eitt barnið í sögum Vigdísar sem misst hefur foreldri sitt, hann er einmana og óöruggur eins og flest önnur börn í verkum hennar, enda fær hann ekki fremur en þau það öryggi heima hjá sér sem hann þarf á að halda. Því hefur verið slegið fram að Vigdís hafi skrifað þessa barnabók sem nokkurs konar "tryggingu" um leið og hún sendi frá sér sögu um samkynhneigðar ástir, en ég held að barnabókin sé alls ekki neitt hliðarspor eða öryggisventill í höfundarverki hennar heldur miklu frekar rökrétt framhald þess bernska sjónarhorns sem alla tíð hefur mátt sjá í verkum hennar.

Í nýjustu bók Vigdísar, skáldsögunni Nætursöngvum, er skrefið inn á við svo stigið til fulls. Sagan gerist öll í draumi söguhetjunnar og lesandinn fær nær ekkert að vita um líf hennar og aðstæður utan draumanna. Sagan lýsir draumförum söguhetjunnar sem nú er ekki barn eins og Gauti heldur kona, eiginkona og móðir ungrar dóttur. Sagan er í formi eins konar skýrslu með formála og eftirmála og í henni rifjar nafnlaus konan upp draumfarir sínar í níu nætur í fylgd mannsins með hrafnshöfuðið, nokkrum árum eftir að þessi einkennilegi draumamaður hefur yfirgefið hana. Skýrsluformið nær þó ekki lengra því tungumál og inntak frásagnarinnar tilheyra heimi skáldskaparins og fantasíunnar. Draumarnir eru eins konar framhaldssaga með skýrri framvindu þótt þeir virðist óræðir, en þeir snúast fyrst og fremst um sjálfsleit konunnar og þörf hennar fyrir að finna frið og jafnvægi í lífi sínu. Draumarnir eru konunni allt, þeir taka yfir líf hennar og það svo mjög að dagarnir verða aðeins óhjákvæmileg bið eftir næsta kafla draumsins. Hún "vaknar inn í drauminn" og þannig er látið að því liggja að "raunverulegt" líf hennar fari fram í svefni, líkt og prinsessanna í ævintýrunum sem eiga sér sjálfstæða næturtilveru sem tekur vökulífi þeirra langt fram.

Draumheimar konunnar eru framandi heimar, en þó ekki, því eins og annars staðar hjá Vigdísi kannast lesandinn þar við margt úr heimi ævintýra, þjóðsagna og goðsagna. Undirtitill bókarinnar, skáldsaga, vísar ef til vill í þessa átt, lönd draumanna eru að vissu leyti lönd skáldskaparins og þar við bætist að konan þarf að færa þessa innri reynslu í vökuheim sinn. Hér er stefnan því þveröfug við það sem gerist í sögu Ísbjargar og Gríms, því þótt draumar konunnar séu svo að segja einráðir í textanum miða þeir að því að kenna henni eitthvað um lífið og gera henni í senn kleift að sætta sig við takmörk sín og þenja þau út. Lokahnykkurinn á því ferli er að segja söguna níu árum síðar, til þess að skilja "eigið líf betur og um leið líf annars fólks" (136). Slík "endurvinnsla" er sterkur þáttur í flestum verkum Vigdísar, persónur færa reynslu sína í búning sögu og nota þannig meðöl skáldskaparins til að gefa lífi sínu merkingu.
Þetta tengist öðru áberandi þema í skáldskap Vigdísar, en það er umræða um list og listsköpun. Athyglinni er víða beint að mörkum skáldskapar og veruleika og textar hennar einkennast flestir af mikilli meðvitund um tilurð sína, þeir eru sjálfsvísandi og að því leyti póstmódernískir. Þetta á þó síst við um skáldsöguna Z : ástarsögu (1996), sem er ástarsaga tveggja kvenna og að mörgu leyti ólík öðrum bókum höfundar. Í Z er textinn brotinn upp með öðrum hætti, samband aðalpersónanna, Önnu og Z, fer að mestu fram í texta þar sem önnur yrkir til hinnar sem á móti tjáir sig í bréfaformi, auk þess sem samband systur Önnu og manns hennar myndar nokkurs konar hliðarsögu sem bæði speglar og gengur gegn sögu Önnu og Z.

Sjálf hefur Vigdís sagt að þegar hún hafi ákveðið að skrifa sögu um ástina hafi hún ákveðið að "yfir henni mætti ekki vera nein slikja" því það henti ekki þessu nærgöngula efni. Hún segist vilja "láta persónurnar stíga fram grímulausar og tala við lesandann og þær vilja að hann takist á við að leita svaranna." (2). Þetta er þó síður en svo fyrsta bók Vigdísar sem fjallar um ástina, það gera allar bækur hennar að meira eða minna leyti, en Z er hins vegar sú fyrsta þar sem lesbískar ástir eru beinlínis í forgrunni, ef undan er skilinn ljóðabálkurinn Lendar elskhugans (1991). Það er því ef til vill þetta tiltekna form ástarinnar sem hún telur að þurfi að koma "umbúðalaust" til skila til lesandans, en Z er meðal örfárra íslenskra skáldverka sem hefur samkynhneigð að meginviðfangsefni, efni sem hefur fram til þess verið allt að því feimnismál í íslenskri bókmenntaumræðu. (3).

Þótt ljóðabálkurinn sé mun brotakenndari og óræðari en Z fjallar hann að sumu leyti um svipað efni, þar koma saman raddir nokkurra kvenna sem allar virðast vera að leita að einhverju(m) sem þær hafa misst eða sakna í lífi sínu (eða dauða), en ljóðmælandi reikar um í turni efans sem er nokkurs konar leiðarstef í textanum og markar bæði upphaf og endi hans. Það má ef til vill líta á þessa ljóðsögu sem enn einn drauminn í verkum Vigdísar, draum ljóðmælandans sem yfirgefur sofandi börn sín og elskhuga og heldur upp í ferð þar sem hún hittir fyrir ástríðufullar konur sem virðast hafa upp á mun meira að bjóða en sofandi elskhuginn.

Hér hefur mjög verið stiklað á stóru en reynt að benda á innbyrðis tengsl í höfundarverki Vigdísar: svo ólíkar sem bækur hennar annars eru má þar sjá sömu stef og minni aftur og aftur og textarnir "tala" hver við annan og takast á með ýmsum hætti. Eftir útkomu Nætursöngva sagði Vigdís í blaðaviðtali að nú væri hún "búin með draumana", að hún væri "búin með flesta möguleika á hinni draumkenndu frásögn", en bætir þó við að slíkt viti maður samt aldrei. (4). Lesendur geta því beðið spenntir eftir næsta verki hennar, en víst er að erfitt er að hugsa sér texta frá hennar hendi þar sem ekki er rík áhersla lögð á þann innri heim sem er að minnsta kosti jafn stór hluti af veruleika okkar allra og sá ytri sem við erum vön að kenna við raunsæi.

Kristín Viðarsdóttir, 2000.

Tilvísanir:

1. Kristín Birgisdóttir (ritstj.): Niste på veien (Veganesti). Osló: Det kongelige Kulturdepartment, 1999
2. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir: "Saumað að sálinni". Vera, 15. árg. 6. tbl., 1996, s. 9
3. Sjá ítarlega umræðu Geirs Svanssonar í "Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi. Skírnir, 172. árg. haust 1998
4. "Draumurinn afgreiddur." Dagur, 4. desember, 1998


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál