Um höfundinn

Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um verk Vilborgar Dagbjartsdóttur

Úlfhildur Dagsdóttir:
Vilborg Dagbjartsdóttir: Húskrossinum hent og búrhnífurinn brýndur

Nú, í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar, er hin svokallaða sextíuogáttakynslóð orðin að hálfgerðri klisju, og hefur sætt bæði gagnrýni og háði í bókmenntum ungra höfunda. Heimssýn og hugsjónir þessa tíma þykja hálfvandræðaleg og eldmóðurinn sem einkenndi tímabilið næsta óviðeigandi. Margt í þessari gagnrýni er sjálfsagt réttmætt en því má ekki gleyma að þessi kynslóð ruddi brautina fyrir margt af því sem þykir sjálfsagt í dag, svo sem gagnrýni á neysluþjóðfélag kapítalisma, andspyrna gegn stríðsrekstri yfirvalda, breytt viðhorf til borgaralegra viðmiða og gilda, ný sýn á list og menningu og síðast en ekki síst uppstokkun á hefðbundnum kynhlutverkum.
Í femínisma tíunda áratugarins sem stundum er kenndur við póstfemínisma, hafa baráttukonur sjöunda og áttunda áratugarins oft sætt harðri gagnrýni fyrir einstrengislega framgöngu og ungir femínistar í dag keppast við að sýna framá að kvennabaráttan hefur breyst og batnað, viðhorfin eru orðin fleiri og kaldastríðsbragurinn heyrir til liðinni tíð. Já nú er talað um femínisma í fleirtölu, eðlishyggja er bannorð og sumar vilja jafnvel halda því fram að nú séum við konur í höfn, baráttunni sé lokið og að hún hafi haft erindi sem erfiði. Á námstefnu sem haldin var á kvennadaginn 19. júní 2002 var hinsvegar bersýnilegt að allar fregnir af fullkomnu jafnrétti eru stórlega ýktar. Í opnunarerindi fagnaði borgarstýra Ingibjörg Sólrún því hvað margar konur sætu námstefnuna og tók það sem merki um að kvennabaráttunni væri aftur að vaxa fiskur um hrygg eftir nokkra deyfð undanfarinna ára og ítrekaði í framhaldi af því mikilvægi áframhaldandi baráttu fyrir jöfnum rétti kvenna á við karla. Og minnti á ávinninginn af átökum sjöunda og áttunda áratugarins.

Ég er ein af þeim ungu femínistum sem hef barist fyrir nýrri sýn á femínisma og nýrri sýn femínisma á kyn, kynjamun og jafnréttisbaráttu. Því er það mér mikið umhugsunarefni að lesa ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur frá þessum tíma, ljóð sem fjalla um stöðu kvenna og eiga nákvæmlega jafn vel við nú og þá. Vilborg var virk í kvennabaráttu áttunda áratugarins og var einn af frumkvöðlum rauðsokkahreyfingarinnar alræmdu. Þessi viðhorf birtast greinilega í ljóðum hennar, sem jafnframt því að vera iðulega kímin og írónísk, bera alltaf alvarlega undirtóna. Vilborg gefur út sína fyrstu bók, Laufið á trjánum, árið 1960, ein af fáum skáldkonum módernismans. Ljóðin eru velflest ástarljóð, en þó bregður fyrir pólitískari tóni í ljóðunum "Hver getur ort?" og "Ráðið". Í "Hver getur ort?" er spurt: "Hvers vegna yrkir þú ekki um gleðina?/Reynirinn hefur brumað./Þrestirnir eru farnir að syngja./Vorið kom í gær." Og skáldkonan svarar: "hver getur ort um gleðina/meðan erlendir hermenn hlæja fyrir utan/og ungar mæður kveða á framandi tungu við börn sín?/Hver getur ort um gleðina/- og land hans selt fyrir peninga?" Ljóðið "Ráðið" lýsir spilamönnum sem sitja umhverfis borð og "kasta teningum um líf mitt/líf okkar." En í stað þess að draga af þessu dramatískar ályktanir speglar Vilborg þessa ímynd valdatafls í kvenlegri sýn og undrast að "líka þeir voru börn/eins og hann sem liggur í vöggunni/og fyllir herbergið andardrætti sínum." Þannig takast á tvær ólíkar myndir, ógn þess sem upplifir sig sem leiksopp og hlýja og umhyggja móður gagnvart barni sínu. Barnið má svo sjá sem ímynd varnarleysis, sem er varpað yfir á valdhafana, og yfir öllu ríkir móðirin. Þessi sterka kvenlega nálægð einkennir öll ljóð Vilborgar, jafnframt því sem bernskan og börn eru einskonar leiðarminni. Í Dvergliljum frá 1968 er hinn pólitíski tónn orðinn mun sterkari og tengingin við líf og baráttu kvenna jafnframt skýrari. Jafnframt eru kristileg minni áberandi eins og í ljóðinu "Páskaliljur", en þar finna konurnar sem koma til að gráta við gröfina "gul blóm/sem höfðu sprungið út um nóttina./Vorið var komið/þrátt fyrir allt." Viðhorf skáldkonunnar til kristninnar eru skemmtilega tvíbent, því þrátt fyrir að á stundum bregði fyrir heitri trú, þá er hún einnig gagnrýnin á drottinn og framgöngu hans. Þessi tvíræða sýn kemur einnig vel fram í ævisögu Vilborgar, Mynd af konu, sem skrásett var af Kristínu Marju Baldursdóttur. Þar segir Vilborg: "Ég hef alla tíð samsamað mig náttúrunni. Haft sterka tilfinningu fyrir guði. En ég hef ekki leitað eftir honum, heldur hafnað honum. Hann hefur þó aldrei hafnað mér." Mynd af konu: Vilborg Dagbjartsdóttir, Reykjavík: Salka 2000, bls. 16. Þetta kemur frábærlega skemmtilega fram í ljóðinu "Köllun" úr ljóðasafninu Ljóð frá 1981:

Þarna fer hann átvaglið og vínsvelgurinn
hversu oft hefur mig ekki langað til
að varpa af mér húskrossinum
og fylgja honum

Ljóðmælandi vill sitja við fætur hans í "forsælu undir fíkjutré", undrast orð hans og hlaupa með honum í fjörunni þarsem hann párar "myndir af fiskum" í sandinn. Svo kæmust þau í partý hjá tollheimtumanni eða í sveitabrúðkaup og ljóðmælandi væri sko alveg til í:

að gera uppsteit á torginu
hneiksla hina rétttrúuðu í samkunduhúsinu
og velta um borðum mangaranna
í musterisgarðinum.

Þessi frábæra sýn á lífshlaup Jésú kallast á við sögulegu endurnýjunina sem birtist í mörgum ljóðanna um frægar kvenpersónur, auk þess sem femínískur tónn er greinilegur í myndinni af húskrossinum. Álíka kómíska nálgun á drottinn er að finna í titilljóði Kyndilmessu (1971), en þar byrjar Drottinn óvænt að veia yfir húsmóðurinni þarsem hún situr og reykir og henni bregður svo að hún slekkur í sígarettunni. Eftir að Drottinn hefur veiað um stund yfir vondu ástandi mannfólksins gefst hún upp og skrúfar frá útvarpinu "og poppmessan yfirgnæfði kallinn." Hin tvíbenta sýn á trúna birtist einnig í "Og enn sem fyrr" úr Dvergliljum, en þar er fjallað um stríð í miðausturlöndum:

Nú blása þeir í hrútshornin,
sigurvegararnir,
hlæjandi við Grátmúrinn.

Með fótinn á hálsi Egifta.

Jórdani og Sýrlendinga
hafa þeir lagt að fótum sér.
Verði setja þeir á vöðin.

Og enn sem fyrr
mun ung dóttir hlaupa
út um dyrnar á húsi föður síns
með bumbuslætti og dansi
og fagna bardagahetjunni.

Dætur Ísraels,
farið ofan í fjöllin
og grátið.

Stuttur frestur er ykkur gefinn.
Altari er reist fyrir brennifórnina.
Grimmur er Jave.
Grimmur er drottinn hins slóttuga Moshe Dayan.

Hér er írónían fjarri og alvaran ríkjandi. Eins og áður fléttar Vilborg kvenleg minni inn í pólitíska gagnrýni sína og skapar í tungumáli sterkt samspil í tíma, þarsem mætast forn heimur Biblíunnar og nútíminn. Tímasamfellan heldur svo áfram inn í tuttugustu og fyrstu öldina, þarsem bardagar halda enn áfram á þessu svæði. Í ljóðinu "Karl og kona" er Vilborg enn á Biblíuslóðum og enn er hún að stríða guði. Hún lýsir því hvernig Guð í eigin persónu þjarkaði við uppreisnarmanninn og útlagann Móses, þar til þeir náðu samningum. "Og aldir liðu." "Þá var það/að Drottni guði lífsins/kom konan í hug." Og hann sendir skutulsvein sinn Gabríel til að bera hinni vammlausu mey Maríu laumuleg skilaboð og stúlkan mælir án umþenkingar ""Sjá ég er ambátt Drottins."" Þessi aðferð, að draga upp myndir af sögulegum atburðum og sýna þá í nýju ljósi, lætur skáldkonunni einkar vel og mörg hennar eftirminnilegri ljóða eru mælt í orðastað horfinna mikilkvenna. Þekktast þessara er líklega "Skassið á háskastund" í Kyndilmessu, en þar eru "löðrungar og köpuryrði" gleymd:

hérna er fléttan
snúðu þér bogastreng

ég skal brýna búrhnífinn
og berjast líka

bæinn minn skulu þeir
aldrei brenna
bölvaðir.

Fyrir utan hina ofurkvenlegu mynd af búrhnífnum sem bardagavopni í hetjustráðum íslendingasagnaheimi, þá er sláandi setningin um "bæinn minn", sem er sláandi umsögn um stöðu Hallgerðar innan sögunnar: bærinn er þar aðeins kenndur við Gunnar, konan má ekki eiga neitt. Í fjórðu ljóðabók sinni, Klukkan í turninum (1992), gerir Vilborg Hallgerði aftur að umtalsefni í ljóðinu "Þjófsaugun", en þar er því lýst hvernig fyrsti biðill Hallgerðar færir henni langbrók, öðrum börnum til mikillar skemmtunar, og mælir hana út kámugu augnaráði þarsem hann situr á tali við föður hennar: "Nú kallaði faðir hennar".
Fedra, Hedda Gabler, Anna Akhmatova og ævintýraprinsessan Mjallhvít birtast allar í ljóðum Vilborgar, og Nóra og Anna Karenina hittast stuttlega í "Erfiðum tímum" úr Kyndilmessu. Þar dregur skáldkonan á ný saman ólík tímaskeið og sýnir framá hversu lítið hefur í raun breyst fyrir konur, og enn hlýtur lesandi að spegla ljóðið í eigin tíma: vissulega ættu þær Nóra og Anna meiri möguleika í dag, en konur sem yfirgefa börn sín eru enn gagnrýndar harðlega, og enn bitnar atvinnuleysi meira á konum en körlum, "samkvæmt heilagri venju".
Sterkasta kvenmyndin er þó hin ónefnda verkakona sem skoðar spegilmynd sína í ljóðinu "Spegilmynd" í Klukkan í turninum.

Mér ætti víst að vera það ljóst
hvað ég er ljót
kona úti í bæ setti saman texta um mig
ekki kann ég að orða hlutina
aftur á móti hitti hún naglann á höfuðið
og nú hlæja allir að mér
víst er ég feit og ljót
strita daglangt við færibandið
með æðarhnúta á fótunum
hendurnar rauðbólgnar
maginn slapandi
samt get ég ekki gert að því
að í hvert sinn sem ég lít í spegil
finn ég gleðina streyma um mig
og ég brosi fagnandi
við spegilmynd minni
ég er orðin alveg eins og
mamma sáluga!

Hér er lýst kvenlíkama sem stangast á við allar þær fegurðarhefðir sem einkenna samtímann, konan er slitin af vinnu, þrútin og feit – alveg eins og næsta kynslóð kvenna á undan. Í ljóðinu skiptast á kímni, söknuður og gleði í bland við hörkulega gagnrýni á fegurðarímyndir og stöðu verkakvenna.
Árið 1981 voru fyrstu þrjár bækur Vilborgar gefnar út í safnritinu Ljóð ásamt með þýddum ljóðum og ljóðum birtum í blöðum og tímaritum á árunum 1971-1981. Þar er að finna nokkur bráðskemmtileg ljóð í stíl kvennabaráttu, eins og "Myndir frá pressuballi 1972", þarsem skáldkonan bendir á að starfsheita eiginkvenna fyrirmenna sé hvergi getið – en slíkt tíðkast enn í dag, eins og lesa má í tilkynningum um gesti í opinberum boðum. Ljóðið "Óður til mánans" sem lýsir því hvernig konan ætlar að loknum heimilisstörfunum (að vaska upp, fara út með ruslið, skúra eldhúsgólfið, bóna gangana, ryksuga, þurrka af, þvo) að fara út á svalir og "steyta skrúbbinn/framan í mánann/þangað hefur engin kona/verið send með/KARKLÚTINN/ekk enn." Ljóðið kallast skemmtilega á við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur um konuna sem er að tryllast við uppvaskið og um konuna sem þrífur stofuna og veitir út vindlareyknum eftir heitu pólítísku umræður karlanna sem ætla að bjarga heiminum.
Mest sláandi er þó prósaljóðið "Draumur" en þar hittir skáldkonan Óðinn, guð skáldskaparins á förnum vegi. Hún kallar til hans og þykist eiga við hann margt vantalað en í augnaráði hans sér hún aðeins girnd. Og þá rennur upp fyrir henni "að jafnvel Óðinn sjálfur á ekki nema eitt erindi við konur. Og ég sem hélt ég væri skáld – mér tókst að hrista af mér svefninn og komst yfir í vöku – í sál minni brann reiðin." Í íslenskri bókmenntasögu er frægt hvernig skáldin hafa ort til Óðins – "Sonartorrek" Egils Skallagrímssonar gengur beinlínis út á sátt skáldsins við sonarmissinn, því hann fékk skáldskapinn í staðinn – en skáldkonurnar standa utan við þetta, við þær á skáldgoðið önnur erindi. Í grein í Þráðum spunnum Vilborgu Dagbjartsdóttur 18. júlí 2000, segir Svava Jakobsdóttir réttilega að Vilborg hafi hreinlega ekki þurft á kallinum að halda, hún hafi átt sér önnur skáldgoð! Sjá "Edda aldinfalda" í Þræðir spunnir Vilborgu Dagbjartsdóttur, Reykjavík: Háskólaútgáfan 2001.
Þrátt fyrir að skáldkonan hafi ekki viljað þýðast Óðinn þá er hún síður en svo fráhverf ástum. Mörg ljóðanna eru ástarljóð og oft með fallegum erótískum undirtóni, eins og þriðja erindi "Skammdegisljóðs" í Kyndilmessu, en þar hefur snjóað um nóttina "og nú blasir við allra augum/í nýfallinni mjöll/sporaslóð/frá mínum dyrum/að húsi þínu." Eins og áður sagði eru flest ljóðanna í Laufinu í trjánum ástarljóð, þau fyrstu lýsa viðkvæmri ást eins og "Þrá", en þar er minningin um ástina eins og ilmur í kvöldblænum: "Þegar hann snertir vit mín/verð ég feimin að anda." Síðar koma ljóð sem lýsa ástarsorg eins og "Glæpur", en þar drýpur blóðið sem áður söng úr hjartasári. Vilborg skrifar einnig náttúruljóð, aðallega um árstíðirnar, og enn tekst henni að gefa því klassíska myndmáli nýja mynd eins og í ljóðinu "Nú haustar að", en þar eru það lítil börn með skólatöskur sem koma með haustið.
Þessi sýn á börn og bernsku er einnig ríkt þema í ljóðum Vilborgar, enda hefur hún verið barnakennari frá 1952, og er þekkt fyrir barnasögur og störf að málefnum barna. Sjá frekar um þema bernskunnar í ljóðum Vilborgar, "Sorg mín er bláklædd stúlka" eftir Silju Aðalsteinsdóttur, í Þræðir spunnir Vilborgu Dagbjartsdóttur. Hún hefur þýtt mikið af barnabókum og skrifað fjölda kennslu og leiðbeiningabóka fyrir börn. Fyrstu bækur Vilborgar voru barnabækurnar Alli Nalli og tunglið, myndskreytt af Sigríði Björnsdóttur (1959) og Sögur af Alla Nalla, með myndum eftir Friðriku Geirsdóttur (1965). Alli Nalli og tunglið var síðar endurútgefin, fyrst árið 1976 með myndum eftir Gylfa Gíslason og síðan með nýrri tunglsögu í bókinni Tvær sögur um tunglið, frá 1981, einnig myndskreytt af Gylfa. Sagan af Alla Nalla og tunglinu er ein af þessum dásamlegu dæmisögum fyrir börn, en þar er útskýrt af hverju tunglið er svona stórt og feitt. Alli Nalli er ekki spenntur fyrir grautnum sínum og því setur móðir hans grautarpottinn út í glugga handa mögru tunglinu að éta. Á hverju kvöldi hámar tunglið í sig graut þar til það er orðið kringlótt af áti og þá gefst Alli Nalli upp og heimtar sinn graut. Og þá minnkar tunglið aftur! Sagan af Labba pabbakút kom út árið 1971 og segir, líkt og Sögur af Alla Nalla, nokkrar sögur úr lífi Labba pabbakúts sem býr í stóru húsi í miðborginni. "Það er enginn garður við húsið, en allt í kringum það eru bílastæði" og "þess vegna er húsið, þar sem Labbi á heima, eins og eyja í bílahafi." Bókin er frábærlega myndskreytt af Vilborgu sjálfri og er einn af gimsteinum minnar bernsku. Af öðrum barnabókum má nefna Langsum og þversum (1979 og 1982), Sögustein (1983), sem er safn sagna, gátna, leikja og annarskonar skemmtiefnis fyrir börn, sem Vilborg þýðir og endursegir og skrifar frumsamið efni í. Bogga á Hjalla (1984) er sveitasaga af lítilli stúlku, sem er upptekin af álfum og huldufólki og Barnanna hátíð blíð (1993) er líkt og Sögusteinn safn af blönduðu efni, sögum, söngvum og fróðleik um jólin.

Sú dásamlega næmni fyrir bernskunni og barninu sem birtist í öllum barnabókum Vilborgar kemur einnig fram í mörgum ljóðanna. Í "Maríuljóði" í Laufinu í trjánum er það barnsleg rödd sem lýsir aðdáun sinni á Maríu, sem breiðir "ullina sína hvítu/á himininn stóra." Maríuerlan er kölluð eftir henni og "í kirkjunni er mynd af Maríu/með gull utanum hárið./Mamma segir að það sé vegna þess/að María á dreng svo undur góðan." Með hinni barnslegu sýn hverfur hin tvíbenta írónía á kristnina og heið barnstrúin tekur við. Húmor skáldkonunnar kemur vel fram í barnaljóðunum, auk þess sem þau einkennast af gleði og birtu. Þannig er ljóðið "Sumardagur" í Dvergliljum teiknað upp í björtum litum: "Sólin: stór rauður sleikibrjóstsykur/Skýin: þeyttur rjómi/Aldan: hlæjandi smástelpa" og aldan stríðir þér sem ert í fjörunni að baka sandkökur og "steinarnir brosa líka". Ekki er minni gleðin í "Barnagælu" úr ljóðasafninu, sem sýnir okkur hið aldna þuluform í nýju gerfi. Hrekkirnir eru margir, en skemmtilegust er samt hugmynd barnsins um kynin, þegar það gerir ráð fyrir að mamma hafi einu sinni verið lítill strákur alveg eins og hann:

segðu mér sögu
segðu mér söguna af því
þegar þú dast í sjóinn
þegar þú braust rúðuna
þegar þú tjargaðir hanann
þegar þú kastaðir grjóti í gumma
þegar þú söngst klámvísuna fyrir ömmu þína
þegar þú laugst að afa þínum
þegar þú skiptir um haus á fiskiflugunum
þegar þú stiklaðir yfir ána rétt ofan við fossinn
þegar þú skreiðst undir girðinguna á rósuhústúninu
þegar þú drapst rottuna
þegar þú gekkst aftur á bak í poll í sparikjólnum
þegar þú reifst nýju svuntuna
þegar þú drakkst brunnklukkuvatn
þegar þú skemmtir skrattanum á sunnudegi
þegar þú kvaldir ljósið á jólunum
þegar þú hlóst í kirkjunni
þegar þú klifraðir upp á dvergasteininn
þegar þú bentir á skip
þegar þú steigst á strik
þegar þú blótaðir þrisvar í röð
þegar þú varst lítill strákur
eins og ég mamma mín


© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál