Um höfundinn

Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um verk Steinunnar Sigurðardóttur
Úlfhildur Dagsdóttir: Sjálfsmyndir í tíma - Steinunn Sigurðardóttir


Nú er sál mín eina íslenska skottan
sem eftir lifir, ef líf er þá orðið.

Hún leggst á búfé og ærir eyfirska smala.

Það er engum skemmt þegar skotta hneggjar
og rykkist um dalinn með sauðakrof næst sér.

Staðráðin í að ganga aftur og aftur.

Þessari kvendraugs-sál Steinunnar er ekki allri lokið eins og sálinni í erindinu á undan í þessu ljóði frá 1991, "Sjálfsmyndir á sýningu". Þvert á móti; staðráðin í að ganga aftur og aftur líkt og kvendraugurinn er sál skáldkonunnar risi í íslensku bókmenntalífi, hvorki allri lokið né höktandi "dvergur á eftir með lítinn staf / óhuggandi í eins manns líkfylgd", eins og segir í lokaerindi þessa ljóðabálks.
Steinunn Sigurðardóttir gaf út fyrstu bók sína, Sífellur (1969), 19 ára gömul og vakti hún strax athygli. Bækurnar Þar og þá (1971) og Verksummerki (1979) fylgdu í kjölfarið og 1981 og 1983 gaf hún út smásagnasöfnin Sögur til næsta bæjar og Skáldsögur. Steinunn skrifaði tvö sjónvarpsleikrit, Líkamlegt samband í norðurbænum (1982), byggt á sögu úr Sögum til næsta bæjar, og Bleikar slaufur (1985). Kvikmyndin var nærtækur miðill fyrir hana í byrjun níunda áratugarins en Steinunn vann sem þáttagerðamaður hjá sjónvarpinu og sá um menningarþætti sem vöktu mikla athygli. Þar fyrir utan hefur Steinunn skrifað ævisögu forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur, og þýtt skáldsögur og leikrit.
Líkt og listform Steinunnar eru mörg og fjölbreytt eru sjálfsmyndir hennar margar og margvíslegar; á öllum aldri og af báðum kynjum, eins og fram kemur í ljóðabálknum "Sjálfsmyndir á sýningu" þar sem skáldið tekur á sig hverja myndina á fætur annarri. Og þökk sé íslensku tungumáli þá kemur upp sú skemmtilega staða að þótt sjálfsmyndirnar séu karlkyns; dvergur í upphafs- og lokaversinu, veðurfræðingur á einum stað og fallinn engill á öðrum, þá er sálin eða sjálfsmyndin alltaf kvenkyns; kona fönguð í líkama karlmanns sem undantekningarlaust gerir litla prívatuppreisn eins og veðurfræðingurinn sem spáir ekki lengur kórrétt;

En grunsemdir vakna í höfuðstöðvum
þegar veðurlýsing er þrumur og eldingar
í tvo sólarhringa samfleytt.

Svo átta menn sig: nú er sálin á yfirsnúning
og héraðslæknir er settur í málið.

Þannig er uppreisn falin í tungumáli líkt og kvenkynssál í karlmannslíkama; eða er þessi sál kannski músan sjálf, einskonar kvendraugur sem gengur aftur og aftur? Sjálfsmyndin er klofin frá sjálfri sér í upphafi líkt og kvenmannssjálf frá karlmanni, tvöföld og margföld, tvíkynja og margræð(in). Í þessu ljóði má sjá skýrast þá sjálfskönnun sem einkennir um margt verk Steinunnar; skáldkonan bregður sér í ýmis líki og speglar sig í aðförum veðurfræðinga og skotta.
Átök í tungumálinu eru áberandi í verkum Steinunnar, þar sem takast á og blandast írónísk sjálfsvitund og áleitnar tilfinningar. Þetta kemur greinilega fram í ljóðinu "Sjálfsmyndir á sýningu" þar sem skottan og veðurfræðingurinn eru ótrúlega kímnar fígúrur, með sín sauðakrof og sínar vitlausu veðurspár, en undirniðri kraumar í tilfinningahver; veðurfræðingurinn ekki bara spáir vitlaust heldur þrumum og eldingum "í tvo sólarhringa samfleytt". Þrumur og eldingar eru ein af þessum klassísku myndlíkingum andlegs fárviðris sem hér fær á sig nýja mynd; sálarángist kvensálar í veðurfræðingskroppi. Það er einmitt í slíkum írónískum orðaleikjum sem hæfileikar Steinunnar koma best fram, eins og bert er í prósaverkum hennar. Þessi tungumáls(á)tök veita ljóðum og textum Steinunnar kraft og ögrun.
Fyrsta skáldsaga Steinunnar, Tímaþjófurinn (1986) er kyrfilega staðsett í miðju umbrota póstmódernismans. Nálgunin er önnur en í smásagnasöfnunum og þá bæði hvað varðar efnivið og tungumál. Það er hér sem tök Steinunnar á tungumáli og átök hennar við það ná hápunkti sínum. Ljóð rennur inn í sögu og sagan breiðir úr sér til að umfaðma ljóðið og í þessari vöggu vaggast Alda aðalsöguhetja Tímaþjófsins. Með þessari bók sló Steinunn í gegn og náði almenningshylli jafnt sem aðdáun gagnrýnenda.
Tímaþjófurinn er ástarsaga stungin ljóði. Þó ekki bara ástarsaga heldur saga aðskilnaðarins miklu frekar, aðskilnaðarsaga. Ástarævintýrið sjálft stendur stutt, en kvölin, söknuðurinn, höfnunartilfinningin stendur eftir. Alda, ættstór og glæsilegur kennari í menntaskóla fellur í ást á ungum samkennara sínum og saman eiga þau hundrað eldheita daga. En þá er öllu lokið, með kaldri yfirvegun dauðadæmir elskhuginn Anton sambandið og meginhluti bókarinnar snýst um yfirgefna Öldu, rótlausa á úthafi ástarsorgar og minninga. Þetta þema aðskilnaðar hefur þegar stungið upp kollinum í ljóðum Steinunnar og tekur sig aftur upp í nóvellunni Ástin fiskanna (1993). Í Tímaþjófnum verður það ljóst að aðskilnaðarþemað er ekki síður sjálfskönnun, leit að (yfirgefnu) sjálfi, líkt og í ljóðinu "Sjálfsmyndir á sýningu" 5 árum síðar. Í Tímaþjófnum velkjast því tvær Öldur, söguhetjan Alda sem á frátekinn, öruggan legstað í gamla kirkjugarðinum og hennar annað sjálf, önnur Alda sem þegar er jörðuð í kirkjugarðinum, andvana fædd systir og nafna Öldu söguhetju. Þessi tvískipta sjálfsmynd kemur m.a. fram í líkamanum, í líkamstungumáli. Annars vegar er andlitið, yfirborðið og það sýnilega, og hins vegar er ólgandi kvikan undir, tilfinningarnar sem eru eins og ógeðsleg innyfli sem aldrei má sýna því:
Manneskja sem heldur ekki andlitinu er nefnilega ekki aðeins nakin hún er líka opin og skín í ógeðsleg innyflin. Enginn þolir annan eftir slíka innsýn, nema hann sé menntaður skurðlæknir. (178)
Með því að opinbera tilfinningar sínar opnar Alda líkama sinn fyrir hrörnun. Líkaminn svíkur hana eftir aðskilnaðinn, líkami Öldu beinlínis brotnar niður eins og ástarsambandið, hún fær í mjöðmina og missir málið. Táknrænt séð er það hinn dauðlegi rotnandi líkami dáinnar systur sem tekur yfir glæsilegan lifandi líkama Öldu. Aðskilnaðurinn er við hana sjálfa, eða réttara sagt við hina glæstu ímynd sem: "er afskaplega vel til höfð, hvert hár uppsett á sínum stað, í rauða prjónakjólnum sem leynir ekki fullkomnum skúlptúr líkamans" (25). Líkaminn er séður sem skúlptúr, stytta, ímynd en ekki raunverulegt dauðlegt hold. Sjö árum síðar forðast Alda Anton, vill ekki að hann "komist að því hvað hún er illa farin" og brosi "af meðlíðan með sér aldraðri", hún "kalkar í mjöðm og gengur við staf" (186). Í líkamanum kemur tímaþjófnaðurinn berlega í ljós, Anton stelur æsku og fegurð Öldu og hún eldist í bandvitlausu hlutfalli við dagatalið.
Tungumálið er notað á áhrifamikinn hátt í Tímaþjófnum, og framsetningin er ekki síður mikilvæg en það sem fram er sett, orð fléttast inn í atburði líkt og atburðir eru fléttaðir í orð. Eitt dæmi þessa er þegar Alda sýnir elskhuga sínum blómið sem hún ræktar svo vel, blóm sem er með nafni sínu ''óþolinmæði'' táknrænt fyrir ást Öldu á Antoni. Frá lýsingu á útsprungnum Lísublómum í glugga rennur textinn út í útsprungna ást:
Lísa sem heitir impatiens eða óþolinmæði á erlendum tungumálum [...] sprakk út margelfd um það leyti sem sólargangur var stystur. Agndofa skoðaði jólabangsi hundrað rauðbleik Lísublóm. Hélt ég gæti þetta ekki, einsog hann sagði.

Ástin mín fór að spretta hér inni

og ber af öðrum í glugganum

með átján blómum og alls konar knúppum.

Indæl er jurtin þín segja gestir mínir

og vita ekki að þetta er ástin. (47-8)

Hér er tekin kunnugleg myndlíking og henni umbreytt í frumlega ástarjátningu, þar sem blómum og blómalíkingum er þáttað inn í ástarlýsingar og óþolinmæði. Lísan óþolinmóða er eins og Alda óþolinmóð eftir ástinni og á hógværan hátt er þarna bergmál af Ljóðaljóðum Biblíunnar; línan "indæl er jurtin þín segja gestir mínir" ber í sér hrynjandi frá línu eins og "yndislegur ilmur er af smyrslum þínum" úr Ljóðaljóðunum.
Skáldsagan Síðasta orðið kom út 1990 og er hákómísk paródía á íslenskt þjóðfélag, eins og það birtist í hinni sérstæðu minningargreinamenningu Íslendinga. Og Steinunn yfirgaf ekki ljóðið og árið 1987 gaf hún út Kartöfluprinsessuna og 1991 Kúaskít og norðurljós.
Nóvellan Ástin fiskanna (1993) er að vissu leyti framhald af þeim pælingum sem birtast í Tímaþjófnum. Söguhetjan Samanta á stutt ástarævintýri með manni sem hún ákveður síðan að halda ekki áfram og flýr hann og ástina.
Hér sækir Steinunn í heim ævintýra og staðsetur fyrsta fund söguhetja sinna í kastala þar sem páfuglar spranga um garðinn. "Ég hugsa til þess þegar við hittumst fyrst og ég var í þeirri ótrúlegu aðstöðu að eiga heima í kastala og tveir páfuglar voru förunautar mínir" segir "prinsessan" Samanta. En ekki endar ævintýrið á hefðbundinn hátt með loforði um eilífa hamingju í hjónabandi heldur skiljast leiðir og konan kemst að því að endir ævintýra er ekki sjálfgefinn:
Ég skil þegar ég hlusta betur að það er ekki sjálfgefið að sú sem sendir hinn elskaða einan norður uppskeri eilífan aðskilnað, þótt það sé mín saga. Ég skil núna að sú sem sendir mann einan norður gæti allt eins grætt á því langa samfylg hans. Enginn veit hins vegar á hverju útkoman veltur, nema það væri á því hvaða lag fuglinn syngur þegar maðurinn er sestur á stein við Norðurá.
Það er Samanta sem tekur örlög sín í eigin hendur og afþakkar ástina gagnstætt Öldu sem varð undir í róti tilfinninga.

Kvenhetjur Steinunnar verða sterkari og magnaðari með hverri bók; líkt og afturgengna skottan sem lætur ekki bugast eflast kvenhetjur Steinunnar með hverri nýrri mynd. Í næstu bók Steinunnar, Hjartastaður (1995), er byggður upp hringur sterkra og sjálfstæðra kvenna sem taka á hendur táknþrungna ferð inn í fortíð og náttúru með það fyrir augum að ná stjórn á lífi sínu og sættast við sínar sjálfsmyndir.

''Þú ert hrikalega hjátrúarfull mamma'' segir umskiptingurinn Edda Sólveig við móður sína Hörpu Eir sem í örvæntingu sinni reynir að sjá gæfumerki í regnbogum og egypskum skordýrum. Hvorttveggja eru merki endurnýjunar og endurfæðingar og eiga því vel við það þema umskipta og hamskipta sem er meginþráður skáldsögunnar Hjartastaður. Sagan er ferðasaga í mörgum skilningi, þar er ferðast bæði í tíma og rúmi; ferð þriggja kvenna austur á land er einnig ferð þeirra aftur í tíma, tilraun til að enduruppgötva sakleysi æskunnar og friðsæld æskuslóðanna, og þriðja ferðin er ferð inn í sögu landsins, inn í þjóðsöguna þar sem umskiptingar ganga ljósum logum og undur gerast; líkt og átján álfa faðirinn hrökk inn í sitt fyrra líf af undrun, á að hrekkja vandræðabarnið inn í sína fyrri vandræðalausu æsku með undrum sveitasælunnar. En líkt og dóttirin er móðirin einnig umskiptingur. Harpa Eir kallar sjálfa sig fyrsta nýbúann; óíslensk í útliti vegna annarlegs faðernis er hún ekki aðeins óviss um uppruna sinn heldur óstöðug í móðurhlutverkinu, barn sem eignast barn og umskiptist því of snemma úr barni í fullorðna konu, einstæða móður. Fyrir utan umskiptingstitilinn kallar hún sjálfa sig ýmist fósturdóttur úlfanna, villibarn, undanvilling, ævintýraprinsessu, smáfólk og hálfan mann, allt með skírskotunum til þess að hún er ekki almennsk, ekki alíslensk, umskiptingur úr öðrum heimi.
En upprunaleysið gefur líka ákveðið frelsi, ''Sá sem veit ekki hverra manna hann er veit ekki hvað hann heitir'' segir Harpa Eir, en bætir við að ''hann heitir það sem honum sýnist þangað til allt kemst upp'' (93). Þeir sem þegar eru umskiptingar hafa þann möguleika að fara hamförum, ganga, eins og skottan í ljóði Steinunnar "Sjálfsmyndir á sýningu", aftur og aftur. Harpa Eir, sem þegar hefur upplifað svo mörg umskipti í sínu lífi á auðveldara með að taka örlögin í eigin hendur og skipta um líf á ný, snúa til baka í tíma og rúmi til að leita að nýjum uppruna, eigin og þarmeð barnsins síns. Og þann uppruna er að finna í landinu sjálfu, sögu þess og þjóðsögu, jafnt sem í hennar eigin ævisögu. Um umskiptinginn sjálfan er hafður heill orðaflokkur enda þar á ferðinni hröð umskipti, bæði í huga móður og svo í sjálfri hegðun vandræðadótturinnar. Edda er kölluð ''dýrið'', rétt í því sem hún finnur skordýr móður sinnar, leirbjölluna áðurnefnda, tákn umskipta og endurnýjunar, og eftir því sem á líður bók og ferð breytist hún í skrímsli, afturgöngu, ófreskju, marbendil (sem hlær), vampíru, sendingu, (magnaða og að sunnan) nöðru og höggorm; flestallt góð og gild orð yfir margvíslegar þjóðsagnafígúrur, og nær mýtískum blæ þegar kemur að höggorminum. Ekki eru umskiptingar þarmeð allir upptaldir, því þriðja konan er með í för, en það er draugur móður Hörpu, þeirrar sem ekki þoldi Ísland og þráði útlönd og felldi hugi við erlendan mann svo úr varð umskiptingurinn og ævintýrabarnið Harpa Eir. Draugar eru að sjálfsögðu umskiptingar líka, hafa umskipst úr lifandi í dauða og þaðan í drauga.

Inn í þetta sterka þjóðsagnaþema blandast svo nútíminn, Steinunn vinnur markvisst að því að skapa ákveðið tóm í tíma: ''tíminn er horfinn'' segir á einum stað og vegurinn er tímalaus. Konurnar eru kallaðar nútíma Reynisdrangar á sandinum, og í brekkunni þar sem afi sá skrímslið sem barn, gengur vandræðabarnið og skrímslið Edda í dag. Umskiptingurinn Harpa Eir er átta ára gömul send í matrósafötum með slöngulokka og sjóliðahatt á jólaball og sagan hrekkur inn í nútímann þegar hún segir um sjálfa sig að í þessu hljóti hún ''að hafa litið út eins og ungur transvestít á óræðri braut'' (54). Þannig er stöðugt haldið uppi samræðu í tíma, milli þjóðsagna og nútímahugmynda. Ekki er síður tóm í rúmi þegar bandarískum hryllingsmyndum er komið inn í textann við hlið rammíslenskra sagna, dæmi um það eru vísanir til myndanna Scanners (David Cronenberg, 1981) og The Exorcist (William Friedkin, 1973) þar sem ung stúlka er haldin illum anda og hefur í frammi ýmis óþokkabrögð, en sú mynd hefur einmitt verið séð í ljósi þeirra umbrota sem verða þegar börn komast á kynþroskaaldurinn og hvernig foreldrum þykir oft að þeir sitji upp með umskiptinga. Bæði kvikmyndadæmin eru mjög viðeigandi, saga skyggni og hamskipta og saga dóttur einstæðrar móður sem umbreytist, auk þess sem hryllingskvikmyndalíkingin í heild er beinskeytt, bæði sem líking við ástand svo og sem kjölfesta við nútímann og þá staðreynd að það er í hryllingsgeiranum sem að þjóðsagan og goðsagan er útfærð sem mest. Þannig haldast í hendur þjóðsaga og afþreyingarmenning.
Utan um þessi textatengsl öll er svo saga Hörpu Eir sjálfrar, ævisaga hennar sem aldrei verður skrifuð en skiptir sífellt um titil eftir því sem við á. Auðvitað er sagan skrifuð, en það er einmitt sagan sjálf, bókin Hjartastaður, sem aldrei kemur þó upp sem titill. Titlar hinnar ímynduðu ævisögu gefa stöðugt tóninn auk þess að taka virkan þátt í þeirri sögusköpun og endursköpun sem þarna er á ferðinni. Titlar eins og Vonlausir farþegar, Stúlkan sem óx ekki úr grasi, Með hálfum huga, hálfur maður, lífsflóttamaðurinn og Kvikindislegi sjúkraliðinn undir gnúp, eru ekki aðeins til merki um þau mörgu lög sögu og sagna sem í skáldsögunni fléttast heldur einnig til marks um að það er á endanum alltaf Harpa sem skrifar sína eigin sögu; líkt og kemur fram í umskiptingslínunum hér að ofan, ''sá sem veit ekki hverra manna hann er heitir það sem honum sýnist''. Það er hún sem kýs að eignast barnið, barn að aldri, það er hún sem tekur líf sitt í sínar hendur og tekst á hendur ferð inn í fortíð þar sem hún uppgötvar örlög sín og upphaf og finnur jafnframt upphafið að nýju lífi og nýrri sögu.

Það er eins og með hverri bókinni sem festir skáldkonuna betur í sessi verði kvenhetjur hennar öruggari og sterkari bæði sem örlagavaldar í eigin lífi og sem karakterar; enn koma hér upp vangaveltur um sjálfsmyndir (á sýningu).
Eftir allar þessar kvenmyndir valdi Steinunn sér karlmann að sögumanni í skáldsögunni Hanami: Sagan af Hálfdáni Fergussyni (1997), en sú saga segir frá sendibílstjóra sem heldur að hann sé dauður. Á síðasta ári sneri skáldkonan sér að barnabókaskrifum og gaf út söguna Frænkuturninn (1998).
Bækur Steinunnar hafa vakið mikla athygli, enda þar á ferðinni sérstæður léttleiki og leikur í orðum. Þema aðskilnaðar og hins margræða sjálfs sem stingur sér hvað eftir annað niður í ljóðum og sögum Steinunnar, fylgir fast á eftir umhugsun um tímann, eðli hans og fallvaltleika. Leitin að tímanum og sjálfinu haldast í hendur, þetta er leit að sjálfi í tíma, hvar og hvenær, og sem sæmir þroskaðari skáldkonu verður tímahugtakið ríkara í seinni ljóðabókunum tveimur, sjálfsleitin er önnur, skynjuð gegnum tíma og rúm, fremur en sem innhverf sýn. Leitin að tímanum, sem var stolið á svo árangursríkan hátt í Tímaþjófnum, heldur áfram af enn meiri einbeitni. Þessari leit er vel lýst í ljóðinu "Andartakið" í Kartöfluprinsessunni, þar sem allt er aðeins fyrirboði eða eftirlíking hins fullkomna andartaks:

Ég varpaði geislum
á dimman augnhimin þinn.

Ég meðtók endurkast þeirra,
einnig orðanna hljóðan.

og elskaði þig
þetta augljósa andartak.

Önnur voru fyrirboði hins eina
eða eftirlíking þess.

Í ljóðinu "Tímaskekkjur" í sömu bók, taka mínúturnar á leik og stökk, þær "eru hættar að tölta áfram réttsælis" og "Áðan sá ég eina stökkvandi afturábak/svo fram tvö skref", í trássi við blindingjann "sem knýr vísana" og í ljóðinu "Monstera deliciosa á næturvakt" í Kúaskítur og norðurljós, tekur lúmsk planta sig til og flækir sig í klukkunni og kyrkir tímann á útsmoginn hátt:

Húsbóndinn hryllir sig svefndrukkinn
er hann gengur til stofu að morgni

því kynjablómið sem Málfríður ræktaði best
og klukkan á veggnum
eru lent í flækju.

Yngsta blaðið vefur sig ljósgrænt um stóra vísi og neglir hann á miðnætti.

Þessi útsmogna planta fann aðferð - og kyrkti tímann.

Þarna er kjarni verka Steinunnar samankominn í einni ungri plöntu sem á útsmoginn hátt tekur öll völd. Tíminn er karlkyns og reglulegur í háttum eins og húsbóndinn meðan plantan og Málfríður eru konur í uppreisn flækja og miðnæturfunda. Þannig festir skáldkonan sig í tíma, sig og sín fjölmörgu andlit sem horfa á lesandann í ljóðinu "Sjálfsmyndir á sýningu", andlit sem umbreytast og hafa hamskipti fyrir framan augu lesandans, stökkva afturábak sem dvergur á dansstað og svo tvö skref áfram sem íslenskur kvendraugur, skotta eða músa, og tímaskynslaust ljóðið lifir áfram sem fryst andartak í tíma, sem má skoða og grandskoða frá öllum hliðum og er eins og skottan staðráðið "í að ganga aftur og aftur".

© Úlfhildur Dagsdóttir


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál