Greinar og umfjöllun

Guðrún Helgadóttir

Almenn umfjöllun

Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Guðmundur Karl Friðjónsson og Kristín Heiða Kristinsdóttir: "Dansað á línu"
Tímarit Máls og menningar, 47. árg. 3. tbl. 1986, s. 312-317

Guðrún Stella Gissurardóttir: "Það þarf þykkan skráp í pólitík" 
Viðtal við Guðrúnu Helgadóttur, fyrstu konuna sem gegnir embætti forseta Sameinaðs Alþingis
19. júní, 40. árg., 1990, s. 56-60

Guðrún Hannesdóttir: "Hamingjan á heima í manni sjálfum"
Börn og menning, 14. árg., 2. tbl. 1999, s.12-16

Illugi Jökulsson (ritstj.): Ritþing um Guðrúnu Helgadóttur
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 1999

Inga Sigrún Þórarinsdóttir: "Berbrjósta tröll" 
Spjallað við Guðrúnu Helgadóttur
Jón á Bægisá, 4. árg., 1.tbl. 1999, s. 44-50

Matthías Viðar Sæmundsson: "Ógleði og glötuð kynslóð" 
Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið, 1985, s. 9-36

Pétur Blöndal: "Svo skaðar ekki að fólk hafi snefil af kímnigáfu"
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 198-219

Silja Aðalsteinsdóttir: "Trú og siðferði í íslenskum barnabókum"
Raddir barnabókanna. Reykjavík: Mál og menning, 1999, s. 178-200

Silja Aðalsteinsdóttir: "Íslenskar barnabækur. Sögulegt yfirlit."
Raddir barnabókanna. Reykjavík: Mál og menning, 1999, s. 9-37

Steinunn Jóhannesdóttir: "Að opna glufu. Þrír verðlaunahöfundar"
19. júní, 43. árg., 1. tbl. 1993, s. 16-18


Um einstök verk:

Oddaflug
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: "Eins og í sögu."
Vera, 19. árg., 5.-6. tbl. 2000, s. 65

Saman í hring
Elín Garðarsdóttir: "Saman í hring."
Vera, 5. árg., 6. tbl. 1986, s. 37

Sitji guðs englar; Saman í hring; Sænginni yfir minni
Silja Aðalsteinsdóttir: "Þrjár systur."
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 1. tbl. 1988, s. 113-118

Sitji guðs englar
Silja Aðalsteinsdóttir: "Meira úr afahúsi"
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 3. tbl. 1984, s. 348-352

Öðruvísi dagar og Öðruvísi fjölskylda
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: "Hvernig öðruvísi?"
Börn og menning, 18. árg., 1. tbl. 2003, s. 26-27

Katrín Jakobsdóttir: "Leiðarstefið fyrirgefning : „öðruvísi“ fjölskyldubækur Guðrúnar Helgadóttur"
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2. tbl. 2007, s. 40-44

Margrét Tryggvadóttir: "Fjölskylda heimsins"
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 98-101

María Bjarkadóttir: "Fíasól og Karen Karlotta - sjálfstæðar stelpur sem læra af reynslunni"
Börn og Menning, 21. árg., 1. tbl. 2006, s. 18-20


Brot úr greinum

Úr Meira úr afahúsi
Sagan er sögð í þriðju persónu, þótt Heiða sé aðalpersóna, og sögumaður, hugsanir hans og skoðanir, eru alltaf nærri. Hann horfir með eftirsjá og nokkurri beiskju yfir þetta horfna svið, enda er hann að afhjúpa goðsögnina um hina átakalausu bernsku. Þó er sagan mjög skemmtileg, bæði í stíl og stökum efnisatriðum. Kannski er það einmitt þessi blanda af söknuði, sárindum og fyndni sem gefur sögunni sinn sérstæða svip.
Framan af er frásögnin ekki mjög myndræn, meira bein frásögn með stuttum orðaskiptum eins og Guðrún notar mikið í fyrri bókum sínum. Þó er þessi saga strax dramatískari en þær. En þegar þungi frásagnarinnar eykst í seinni hluta bókarinnar verður hún jafnframt myndrænni. ... 
Sama er að segja um lýsingar á tilfinningum, þær verða dýpri og flóknari þegar líður á söguna, og það kemur vel heim við boðskapinn sem er ekki síst sá að ekkert sé eins einfalt og okkur virðist. Sögumaður lýsir tilfinningum án þess að skýra þær, enda eru þær stundum svo mótsagnakenndar að engin leið er jafnvel fyrir fullorðinn lesanda að setja á þær merkimiða. ... Oft er gengið mjög nærri Heiðu og tilfinningasveiflum hennar lýst af dirfsku þótt öguð sé. Þetta er í samræmi við þá þróun sem barnabókmenntir okkar hafa verið að taka undanfarin ár, höfundar þeirra hafa orðið óragari við að lifa sorg og gleði með persónum sínum.
(s. 351)

Sjá Silja Aðalsteinsdóttir: "Meira úr afahúsi"


Úr Íslenskar barnabækur

Algengast í barnabókum okkar er sögumannsafbrigði sem liggur á milli hins alvitra sögumanns og fyrstu persónunnar: þriðju persónu sögumaður sem takmarkar sjónarhorn sitt og yfirsýn. Oft stendur hann þétt upp við aðalpersónu og takmarkar sjónarhorn sitt við hana; stundum veitir hann sér aðgang að fleiri persónum. Með þessu móti hefur söguhöfundur alla þræði í hendi sér, getur séð söguhetjur sínar að utan og innan, vitað það sem hann vill koma á framfæri strax og þóst ekki vita það sem hann vill bíða með. En þetta sparar höfundi ekki að velja texta sínum ákveðna rödd.
Þegar vel tekst til hefur þessi aðferð bestu kosti hinna beggja. Dæmið um það er úr fyrstu bók Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna. Í upphafi þeirrar bókar erum við inni í svefnherbergi tvíburanna. Sögumaður er staddur milli rúma bræðranna, les frásögnina úr hugum þeirra og notar þeirra orðalag. 

Jón Oddur og Jón Bjarni lágu hvor í sínu bóli og gátu ekki sofnað. Þeim fannst stundum hræðilega leiðinlegt að fara að sofa, sérstaklega þegar mamma flýtti sér einhver ósköp að drífa þá í háttinn. Þá andaði hún svo hratt og það var svo mikill asi á henni, að bræðurnir vissu hvað til stóð: Hún átti von á gestum. Hún hafði meira að segja gleymt að láta Jón Bjarna bursta í sér tennurnar í kvöld. Það var engin von til þess að þeir gætu sofnað. 

Strax í fyrstu málsgrein fyrstu bókar höfundar kemur fram óviðjafnanlegur hæfileiki hennar til að horfa á heiminn frá sjónarhóli barna og taka málstað þeirra. Afar algengt er að söguhöfundar bóka um börn undir skólaaldri horfi niður á þau úr fullorðinshæð, en Guðrún horfir á heiminn frá rúmum metra frá jörð og tekur aldrei svari fullorðinna á kostnað barna. 
En ekki má gleyma því að ævinlega er aldursmunur á sögumanni af þessari gerð og söguhetju hans, og það hlýtur að verða bil á milli þeirra. Munur sem kallar á tvíræðni eða íróníu vegna þess að ungir og gamlir hafa ólíka sýn á veröldina, finnst til dæmis ekki sömu hlutir fyndnir. Mjög ungur hlustandi textans um tvíburana hér að ofan fyllist hluttekningu yfir sárum örlögum bræðranna en þegar hann er orðinn svolítið eldri – og svolítið eldri en bræðurnir – sér hann hvað þeir gera mikið mál úr lítilræði og fer að skemmta sér yfir líðan þeirra. 
(s. 91-92)

Sjá Silja Aðalsteinsdóttir:"Íslenskar barnabækur : sögulegt yfirlit" 


Úr Trú og siðferði í íslenskum barnabókum 
Það er engin tilviljun að Marta María heitir tvöföldu biblíunafni. Hún er persónugervingur sorgar og þjáningar lengi framan af sögu sinni. Þjáningin sprettur ekki af hennar eigin gjörðum heldur óheilindum annarra. Fyrst og fremst er hún vansæl vegna þess að hún veit ekki hvað varð um pabba. Þjáningin gerir hana ofurnæma á umhverfi sitt og hefur þroskandi áhrif á hana, í gegnum hana verður Marta María næmari á annað fólk, skilur það betur. Það má vel ímynda sér að þjáningin verði undirstaða siðferðisgilda hennar í framtíðinni. Hún veit í sögulok að óheiðarleiki getur verið banvænn og ofdramb líka. 
(s. 192)

Sjá Silja Aðalsteinsdóttir:"Trú og siðferði í íslenskum barnabókum"


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál