Ég les

Áslaug Benediktsdóttir

Meðal þeirra bóka sem á fjörur mínar rak, í síðasta bókaflóði, eru Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur, Magnea, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson færir í letur og loks Freyjuginning eftir Christina Sunley í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachmann.
Þetta eru gjörólíkar bækur en eiga það sameiginlegt að konur eru í meginhlutverkum. Þær eru líka ritaðar af konum, utan, eins og áður segir Magnea.

Ég las Magneu fyrst. Þetta er afar áhrifarík saga og svo átakanleg að ég varð að lesa hana í smá skömmtum. Hún er sögð í fyrstu persónu og það er Magnea sjálf sem segir söguna. Sögu af  ósköp venjulegri ungri konu, sem fæddist í Reykjavík um miðbik síðustu aldar. Ungdómsárin líða átakalítið og ljúflega. Ung eignast hún kærasta, verður barnshafandi og fæðir dreng sem síðar greinist með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm, sem meðal annars leiðir til blindu. Fáeinum árum síðar kemur lítil telpa í heiminn, hún greinist með sama sjúkdóm og lifir aðeins rúmt ár. Móðir Magneu deyr, þriðja barnið fæðist og það fjórða. Tíminn líður og einn daginn er Magneu tjáð að læknar finni aðeins 17 tilfelli, í heiminum öllum, með þann sjúkdóm sem þrjú af hennar börnum hafa greinst með. Sjúku börnin látast öll fyrir bókarlok. Aðeins eitt af fjórum lifir heilbrigt. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Það sem uppúr stendur er ótrúlega sterk og mögnuð kona, sem þrátt fyrir alla þá sorg sem hún gengur í gegnum, virðist alltaf geta fundið eitthvað jákvætt og séð fallegar og góðar hliðar lífsins. Hún stendur eftir óbrotin. Bókin er skrifuð  af nærfærni, hvergi væmin, stundum bregður jafnvel fyrir kaldhæðni og öðru hverju skín sólin.

Falleg, lítil bók, sem lætur ekki mikið yfir sér en innihaldið þeim mun stórbrotnara, skráð á ljóðrænu máli, vel skiljanlegu. Holl og góð lesning hverri fullorðinni manneskju.

Næst er það Freyjuginning. Þessi bók var gefin út fyrir jólin 2009, en ég hafði aldrei heyrt á hana minnst þegar hana rak á mínar fjörur. Sem leiðir hugann að auglýsingum á bókum. Sumar eru auglýstar stöðugt meðan á aðrar er ekki minnst, nema í Bókatíðindum. Hvað um það.

Freyjuginning er fyrsta skáldsaga höfundar, sem er af íslenskum ættum en fædd og uppalin vestan hafs. Sagan fjallar um leit ungrar konu að rótum sínum á Íslandi og ekki síður leit að sjálfri sér. Góðir sprettir, en fyrir Íslending, kunnugan í Reykjavík og víðar á landinu, fannst mér ég stundum vera að lesa handbók fyrir útlendinga á leið til Íslands! Bókin er tæpar 400 síður, óþarflega löng og stundum langdregin fyrir minn smekk. Þunglyndisleg er hún líka lengst af, en ástæða þess skýrist þegar á líður lestur. Mér þótti hún ekki „æsispennandi“, eins og segir á bókarkápu, en vissulega er það einstaklingsbundið eins og ævinlega. Þrátt fyrir allt lauk ég lestrinum og sennilega verður mér hugsað til sögunnar öðru hverju, þrátt fyrir allt!

Síðast, en hreint ekki síst, er Auður. Því miður er þetta fyrsta bók Vilborgar Davíðsdóttur sem ég les, en örugglega ekki sú síðasta – nú ætla ég að taka til við að lesa áður útkomnar bækur hennar eina af annarri!

Í einu orði sagt, þótti mér Auður frábær. Ég las hana hratt, því að hún er spennandi og vel skrifuð og naut hverrar mínútu. Mig langar að heyra meira af þessari frægu landnámskonu og vona að Vilborg haldi áfram að segja okkur sögu sterkrar og merkilegrar formóður okkar!

Áslaug Benediktsdóttir, janúar 2010.

Áslaug er leikskólakennari og starfaði lengstum við uppeldi barna á leik- og grunnskólum í Reykjavík en hefur nú látið af störfum


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál