Ég les

Guðrún Geirsdóttir: Að missa (bók)vitið
Í janúar þegar allir eiga að vera að taka á honum stóra sínum eftir ofgnótt jólahaldsins dett ég í bókasukk af verstu sort. Að baki eru umræður gáfumanna um jólabækurnar og nú hafa þær loksins líkamnast á hillum bókasafnanna. Á sérhillum, vandlega merktar NÝ BÓK og á takmörkuðum útlánatíma sem kallar á heilmikinn lestrarhraða, andvökunætur og stolnar stundir frá öðrum verkum. Og ég geng af göflunum og missi (bók-)vitið!. Jólabækurnar sem komu úr pökkum heimilismanna eru geymdar ólesnar á góðum stað en ég leggst í víking á bókasöfnin. Reyni að heimsækja hverfisbókasafnið á tímum sem ég held að veiti mesta von um að nýjir titlar séu inni, nýti mér aðgang að ólíkum söfum, vináttu við bókasafnsstjóra og ýmist röfla eða daðra við almenna bókaverði í von um að fá lánaðar fleiri en tvær nýjar í einu. Náttborðið breytist í bókahlöðu þar sem öllu ægir saman og ég verð eins og karlinn í ljóðinu hans Þórarins Eldjárns sem át og át bækur og örugglega mun fleiri en hann hafði gott af. Ég reyni að troða í mig eins mörgum bókum og takmarkaður lestími leyfir. Hakka mig í gegnum hverja bókina af annarri hvernig sem þær eru, blanda saman ólíkum sortum, dauðhrædd um að geta ekki troðið meiru á diskinn minn. Þannig hef ég síðustu vikurnar náð að hesthúsa nokkrum sakamálasögum, skáldsögum, smásögum. fræðibókum og einni ævisögu. Og eins og oft vill verða á hlaðborðum fara bækurnar að blandast saman og einstakir réttir fá tæplega að njóta sín. Ég reyni að réttlæta yfirferðina með því að í sumar muni ég gefa mér meiri tíma og lesa aftur þær bækur sem báru sérstakan keim, komu mér á óvart eða sitja eftir og minna á sig í sálinni. Og nú þegar eru þrjár komnar í þann flokk.

Sú fyrsta er bókin Steintré eftir Gyrði Elíasson. Í henni er að finna 24 smásögur sem ég veit reyndar ekki hvort að heita smásögur. Í bókmenntatímum í menntaskóla lærðum við formúlu smásögunnar þar sem mikið var lagt upp úr rismiklum og afgerandi sögulokunum. Sögurnar hans Gyrðis falla ekki endilega að þeirri formúlu. Öllu frekar er eins og skáldið hvísli lágt en skýrt í eyra lesandans mögnuðum sögum sem enda fæstar heldur halda áfram að gerast eftir sögulok og minna á sig löngu eftir lestur, dulrænar og annars heims og á köflum örlítið hættulegar.

Bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin, er af öðrum toga þó hún segi eins og Steintré Gyrðis sögur margra sem við fyrstu kynni eru kynlegir kvistir og sérstakir. Fólkið hans Gyrðis stingur upp kollinum svolítið einmana á ýmsum stöðum í tíma og rúmi en Jónsbörnin deila tilverunni í þorpinu sínu og eins og almennilegir þorparar deila vonum og væntingum, takast á, elska og syrgja. Þorpið og íbúar þess búa við sögulega, sjálfbæra þróun og skapa sér í þorpinu sínu samastað í tilverunni sem getur sem best verið hvaða litli heimur sem er þó þessi sé svo ljóslifandi að ég lenti í þrasi við félaga minn um hvar hann væri að finna á landinu (Búðardalur sagði hann – hvar er sjórinn þar spurði ég). Og svo lifandi varð frásögnin að löngu eftir að bókinni hafði verið skilað á bókasafnið var ég spæld út í höfund yfir sorglegum örlögum þeirra tveggja sem ekki fengu að eigast um aldur og alla Hollyvúddæfi.

Síðasta bókin sem mig langar að minnast á er bók Birgittu Jónsdóttur, Dagbók Kamelljónsins. Bókin sú tarna segir uppvaxtarsögu ungrar stúlku sem gerir upp erfiða æsku. Birgitta leikur sér skemmtilega með textaformið og blandar saman dagbókarskrifum, teikningum og ljósmyndum þannig að sagan verður sérlega trúverðug og einhvern veginn sönn. Í sögunni talast og takast á barnið eða unglingurinn, á köflum ósveigjanlegur og dómharður á hina fullorðnu og þeirra gerðir, og svo hinn fullorðni sögumaður sem getur fyrirgefið og skilið. Bók sem er allrar athygli verð jafnt fyrir áhugamenn um textaleiki og þeim sem hafa áhuga á börnum og uppeldi.

Þessar þrjár bækur er ég harðaákveðin í að lesa aftur í sumar!

Og þá fer að líða á nýja árið og ég fer smátt og smátt að átta mig á því að enn eitt árið munu jólin og dagarnir þar á eftir ekki duga til að komast yfir öll þau ógrynni af bókum sem gefnar eru út og gaman væri að lesa. Á náttborðinu liggja enn jólabækurnar sem ég fékk að gjöf og ekki verða frá mér teknar. Það rennur af mér mesti móðurinn, ég fer aftur að öðlast ráð og rænu og öðlast trú á að allar hinar bækurnar sem ég næ ekki að lesa muni bókasafnið mitt varðveita og geyma þar til mér gefst betri tími til lesturs.

Guðrún Geirsdóttir, febrúar 2006.
Guðrún er lektor við H.Í.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál