Ég les

Bjarki Jóhannesson: Andrés og félagar

Mig langar til að byrja þennan pistil á að þakka starfsfólkinu í Foldasafni, heimasafninu mínu, kærlega fyrir góða þjónustu í gegnum árin. Ég er að lesa nýjustu kvittunina frá safninu og úrvalið er óvenju fjölbreytt að þessu sinni: Andrés og félagar, nokkur Gestgjafablöð, teiknimyndaseríur (Spiderman, Vetrarvíg og Sandman), tölvublöð, tvær sakamálasögur og tvær fantasíur.
Auk þessa hef ég verið duglegur að lesa svokallaðar barna- og unglingabækur og er þeirrar skoðunar að í þeim hópi hafa gæðin aukist mjög á síðastliðnum árum. Harry Potter, þríleikurinn um Lýru eftir Philip Pullman (Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn), Lemony Snickett, Spiderwickserían og margar aðrar skemmtilegar bækur.
Reyndar vil ég helst tala um góðar bækur og slæmar en ekki að skipta bókmenntum í flokka eftir markhópum.

Ein ástæða fyrir því af hverju ég byrjaði að lesa aftur bækur skrifaðar fyrir yngri lesendur er lengd þeirra. Þessar bækur eru mátulega langar fyrir mig. Það virðist vera rík tilhneiging hjá mörgum rithöfundum að lengja mál sitt of mikið og þá svíkur athyglisgáfan mig. Höfundar eiga að vera kjarnyrtir og nákvæmir og leyfa lesendum sínum að búa til umhverfið í sögunum.
Í framhaldi af þessu langar mig til að segja frá lesreglun ni minni en það er nauðsynlegt öllum duglegum lesurum að koma sér upp einni slíkri. Mín regla er þannig að ef ég er ekki dottinn oní söguna eftir 50 blaðsíður þá legg ég hana frá mér og tek til við eitthvað nýtilegra og skemmtilegra.

Mig langar til að mæla með nokkrum höfundum og munu duglegir lesendur kannast við þá alla.

Terry Pratchett. Fyndnasti höfundur sem ég man eftir. Bækur hans um Discworld eru í einu orði frábærar. Pratchett er mjög afkastamikill rithöfundur og nokkuð mistækur en ég bíð alltaf jafnspenntur eftir næstu bók frá honum. Sögurnar fjalla um mismunandi aðalpersónur en ég hef mest dálæti á Sam Vimes og liði hans sem sér um löggæsluna í Ankh-Morpork. Á náttborðinu er nýjasta bókin hans, Thud, og ég tími eiginlega ekki að byrja á henni.

Ian Rankin. Ótrúlega heilsteyptur höfundur. Allar bækurnar um Rebus rannsóknarlögreglumann eru góðar en sumar eru glaðlegri en aðrar. Að mínu viti er mikilvægt að lesa bækurnar um Rebus nokkurn veginn í réttri tímaröð.

Neil Gaiman. Ég var að lesa Neverwhere. Frábær bók sem fjallar um heiminn undir London og ótrúlegar persónur sem þar búa. Algjör skyldulesning. Þessi bók verður víst að kvikmynd í náinni framtíð. Alltaf að lesa bókina á undan myndinni.

Boris Akúnin. Tók mig nokkuð langan tíma að átta mig á nafnakerfinu sem notað er í bókunum og er forsenda þess að maður skilji bækurnar en þegar það tókst þá var það umstangsins virði. Bækur sem ekki er hægt að leggja frá sér, bókstaflega. 

Arnaldur Indriðason. Var að ljúka við Vetrarborgina. Mýrin er enn í fyrsta sæti hjá mér en þetta var dálítið eins og að hitta gamla vini. Það sama má segja um Ævar Örn Jósepsson en um jólin las ég þriðju glæpasöguna hans en í þeim öllum er að finna sömu aðalpersónurnar. Sama liðið, mismunandi glæpir. Allar góðar. 
Viktor Arnar Ingólfsson. Hef lesið tvær af hans bókum og sátu báðar eftir í huga mér löngu eftir lesturinn.

Í allri þessari upptalningu á eftirlætishöfundunum mínum má ekki gleyma Douglas Adams og sögum hans um geimferðalög og ferðalanga.
Annar höfundur sem ég hef lesið nokkuð af, og er öllu geggjaðri en Adams, er Robert Rankin. Mjög fyndnar, undarlegar og skemmtilegar sögur.

En síðast og alls ekki síst á listanum mínum er hann Andrés og allir félagarnir. Ég var að skoða útlánasöguna mína í Gegni og Andrés er greinilega í fyrsta sæti hjá mér og mínum. Ef það er eitthvað sem getur sameinað fjölskyldur, a.m.k.mína, þá er það lestur á ævintýrum Andrésar við eldhúsborðið ásamt kaldri mjólk og smákökum.
 
Bjarki Jóhannesson, febrúar 2006.
Bjarki er deildarstjóri í upplýsingatækni í Víkurskóla.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál