Ég les

Sveinn Agnarsson: Alheimsráðgátur og fleira

Í mínu starfi les ég mikið og það getur verið erfitt að hafa sig upp í að lesa venjulega bók að vinnudegi loknum. Það er einna helst á sumrin sem tækifæri gefst til að sökkva sér niður í annað en fræðin, ekki síst ef farið er í sumarbústað út fyrir bæinn. Þá getur verið notalegt að sitja með bókastafla sér við hlið, nýlagaðan tepott í hæfilegri fjarlægð og hlusta svo á rigningardropana tifa eftir þakinu á meðan hugurinn svífur inn í eitthvert plottið á síðum bókarinnar.

Einhvern veginn er það nú svo að bækur sem beint eða óbeint tengjast starfi mínu verða oftar en ekki fyrir valinu þegar leggja á fræðin til hliðar, en sem betur ekki alltaf.

Ég hef alla tíð haft afar gaman af vangaveltum um upphaf alheimsins – og hugsanleg endalok – og hef síðustu árin oft gripið í bækur sem fjalla um þessi og skyld efni. Í vetur rakst ég á bók eftir Amir D. Aczel sem heitir God’s equation: Einstein, relativity and the expanding universe. Hún segir frá ferli Einsteins og rannsóknum hans sem leiddu til þess að hann setti fram afstæðiskenninguna frægu, sem og fyrstu tilraunum vísindamanna til að staðfesta hana. Afar skemmtileg bók og vel skrifuð og mig langar mikið til að kynna mér aðra bók eftir sama höfund um franska stærðfræðinginn Pierre de Fermat sem uppi var á 17. öld. Áhugafólki um alheimsfræði skal einnig bent á lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags, sér í lagi bækurnar eftir Steven Weinberg og Stephen W. Hawking og svo náttúrulega bókina um afstæðiskenningu Einsteins.

Á undanförnum árum hafa komið fram nokkrar spennusögur sem byggja á miðaldafræðum og hafa oftar en ekki að geyma margvíslegar og misflóknar tilvísanir í tákn- og dulmál fyrri tíma og leynisamtök. Sú þekktasta er líklega Da Vinci lykillinn, en hún dettur óskaplega mikið niður síðustu 100 síðurnar eða svo. Nýverið greip ég í bók Tom Egelands, Við enda hringsins og fylgdist með baráttu hins samsviskusama fornleifafræðings Björns Belto við varhugaverð öfl. Mér fannst þetta mun betri og trúverðugri bók en Da Vinci lykillinn. Ég las einnig aðra svona „menningarlega“ sakamálasögu í fyrra. Sú heitir The rule of four og er eftir Ian Caldwell og Dustin Thomason. Sögusvið þeirrar bókar er Princeton háskóli, rétt utan við New York, og þar segir af nokkrum bráðskörpum nemendum og tilraunum þeirra til að leysa ráðgátu sem sérfræðingar og kennarar við skólann hafa glímt við. Fyrirtaks afþreying.

Um daginn lauk ég einnig við nýja bók um orrustuna um Stalíngrad í síðari heimsstyrjöldinni eftir Antony Beevor sem er margverðlaunað verk. Þetta er óhemjugóð bók sem lýsir vel þeim hildarleik sem þessi orrusta var. Það er alveg ótrúlegt til þess að vita að nokkrir óbreyttir borgarar skuli hafa lifað af þetta stríð sem geisaði frá haustmánuðum 1942 og fram á kyndilmessu árið eftir.

Nú um jólin datt ég í Samkvæmisleiki Braga Ólafssonar, en sú bók kom út árið 2004. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Braga en örugglega ekki sú síðasta. Hún segir frá prentnemanum Friðberti sem býður til þrítugsafmælisveislu heima hjá á sér á Hringbrautinni, beint á móti Elliheimilinu Grund. Samkvæmisleikir er óhugnanleg bók, ekki hvað síst lýsingin á árásinni á Friðbert og þegar hann notfærir sér ástand eins gesta sinna eftir veisluna. Bókin gerist að miklu leyti í Vesturbænum og ég hef einsett mér að fara í göngutúr seinna í vor og skoða sögusvið hennar betur. Gaman hefði ég einnig af því að skoða íbúðina sem er vettvangur morðsins í bókinni, en hvernig skyldi það vera að búa í íbúð sem er sögusvið morðs?

Síðast langar mig að minnast á bók Guðmundar Magnússonar, Thorsararnir: auður-völd-örlög sem út kom nú fyrir jólin. Það er vitaskuld með öllu ómögulegt að gera svo stórri og mikilvægri ætt skil í einni bók, en mér finnst Guðmundur ná að bregða upp býsna góðri mynd af Thor Jensen og ætt hans og þeim áhrifum sem hún hafði á íslenskt atvinnulíf og stjórnmál á fyrri hluta 20. aldar. Ferill Thors er alveg ótrúlegur; hann kemur blásnauður til Borðeyrar rétt um fermingu en nær með dugnaði, ósérhlífni, áræðni og góðum stuðningi eiginkonu sinnar að brjótast áfram í lífinu og verða með tímanum auðugasti maður Íslands. Þessi bók ætti eiginlega að vera hálfgerð skyldulesning fyrir alla Íslendinga í dag, ekki aðeins vegna þess hve glæsilegur ferill Thors og barna hans var, heldur einnig vegna þess að hún sýnir að öfund og afbrýðissemi er aldrei langt undan þegar afburðarmenn eiga í hlut.

Sveinn Agnarsson, mars 2006.
Sveinn er hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun H.Í.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál