Ég les

Sigurborg Rögnvaldsdóttir: Vetrarlestur

Ég er svo heppin að í vinnunni les ég mikið. Mest reyndar Litlu gulu hænuna, Lesum og lærum, Skóladagur, Sílaveiðin, Dísa á afmæli, Doddi fer í siglingu, Lax lærir að hlusta og aðrar ámóta bókmenntir. Ég les, því í starfi mínu felst sem sé meðal annars að lesa með börnum. Það er gaman, þó að sumar bækurnar kunni ég utan að nú orðið, því upplifunin af lestrinum með hverju barni fyrir sig er einstök.
Þess utan les ég talsvert en gjarnan í skorpum og er reyndar oft „dulítið“ eins og heillum horfin þegar ég dett í góða bók og get eiginlega hvorki vakað né sofið almennilega fyrr en ég hef lokið henni.

Á tíðum ferðum okkar norður í land og til baka höfum við hjónin haft þann sið að lesa upphátt hvort öðru til skemmtunar á akstrinum. Upp úr jólunum keyptum við okkur Rokland eftir Hallgrím Helgason og nú er svo komið að við höfum farið þrjár ferðir norður og erum þó aðeins hálfnuð með bókina! Erfitt er þó að segja til um af hverju lesturinn sækist svo seint. Eru það hólarnir og holurnar í illa förnum veginum sem valda því eða eru það hæðirnar og lægðirnar í stílæfingum höfundar?

Enginn vafi leikur þó á því að við munum þrjóskast við og ljúka verkinu, þó bæta verði við húslestrum, því Hallgrímur launar oftast lesendum sínum vinnuna með geysigóðum sprettum og óvenjulegu sjónarhorni á venjulega hluti.

Annars var síðasta stórlota í lestri tekin um jólin þegar flestar innlendu sakamálasögurnar voru afgreiddar. Fyrst má nefna bók Þráins Bertelssonar, Valkyrjur, sem er sápukennd gandreið þar sem samtíminn er skoðaður í spéspegli. Góð skemmtun, höfundur hefur þó helst til lítið fyrir að skálda þegar kemur að þeim persónum sem telja má að eigi fyrirmyndir í raunveruleikanum. Hver er t.d. munurinn á dómsmálaráðherranum í tindátaleik í bókinni og verðandi æðsta yfirmanni Greiningardeildar ríkisins í raunveruleikanum?

Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson var líklegast sú bók sem mest kom á óvart. Ég hef ekki hrifist af stílnum á fyrri bókum, né söguþræðinum. En þessi var hin ágætasta afþreying, kannski gaf það henni ferskan blæ að gerast á Akureyri og ljóst að höfundur lagði nokkuð upp úr að lýsa staðháttum rétt.

Viktor Arnar hefur verið einn minna uppáhaldshöfunda, þó ekki liggi eftir hann margar bækur. Nýjasta bókin, Afturelding, var þó nokkuð frábrugðin næstu tveimur á undan og var ég lengi vel ekki viss um hvernig mér hefði líkað hún. Hún lifir þó lengi með mér, andrúmsloftið sem höfundur nær að skapa og nokkrar senur þar sem náttúrulýsingar spila stórt hlutverk sitja eftir.

Krosstré eftir Jón Hall Stefánsson var mjög sterk og vel skrifuð og verður gaman að lesa meira eftir hann.

Enn má svo nefna Súsönnu Svavarsdóttur og bók hennar Dætur hafsins. Þetta er fyrsta sakamálasaga sem ég les eftir Súsönnu. Hún er lipurlega skrifuð að mörgu leyti en frásagnir af löngu liðnum rekkjubrögðum látinnar sögupersónu trufluðu þó annars ágæta framvindu þess hluta söguþráðarins sem gerist í nútímanum.

Ekki má svo gleyma Stellu Blómkvist sem er trú sínum hráa stíl, kvikar hvergi frá hörkunni og vægir engum. Stella er töff!

Svo var það Arnaldur Indriðason og Vetrarborgin. Ég varð vör við að skoðanir fólks í kringum mig á þessari nýjustu bók Arnaldar voru nokkuð blendnari en á mörgum hinna fyrri. Mín skoðun er þó sú að tök Arnalds á því að skrifa um fólk og aðstæður þess, örlög og samskipti slái flestum öðrum við. Góð sakamálasaga er aldrei bara glæpurinn eða lausn gátunnar, heldur leið persónanna á milli þessara tveggja punkta.

Ýmislegt hefur svo tekið við af þessum mikla glæpasagnalestri og nefni ég hér eitthvað af því.
Opið hús Snæfríðar Ingadóttur og Þorvaldar Arnar Kristmundssonar er yndisleg og ilmandi stemmningsbók um mat og fjölmenningu á Íslandi nútímans og þar eru ekki bara girnilegar uppskriftir heldur líka margar athyglisverðar sögur. Er alveg sérlega veik fyrir svona bókum sem tvinna saman mat og menningu. Á pottþétt eftir að elda oft úr þessari bók.

Argóarflísin eftir Sjón. Var heltekin og heilluð af þessari bók líkt og oftast þegar ég les texta Sjóns. Byrjaði á henni seint um kvöld og vaknaði svo mjög snemma næsta morgun til að geta klárað hana áður en ég færi í vinnuna. Eitthvað við sagnaaðferð hans sem heillar mig, þessi óskýru mörk goðsögu og veruleika, nútíma og fortíðar.

Skotgrafarvegur eftir Kari Hotakainen. Finnsk, fyndin og ljúfsár. Eftir því sem lengra líður frá lestrinum er ég ekki einu sinni alveg viss um endinn.... Set mig ekki úr færi við að lesa finnskar bókmenntir ef ég kem höndum yfir þær. Finn oftast í þeim einhvern sérstakan tón eða stemmningu sem snertir mig á einstakan hátt.

Almennt les ég talsvert af norrænum bókum. Reyndar mest glæpasögur og hef nýlega lokið við Dansað við engil eftir Svían Åke Edwardson. Dálítið óhugnanleg en afar vel skrifuð og spennandi glæpasaga með sögusviðið bæði í Gautaborg og Lundúnum.

Dauðinn og mörgæsin eftir Andrej Kúrkov er bráðskemmtileg en tregablandin saga um rithöfund og þunglynda mörgæs. Gerist í Úkraínu eftir að Sovétríkin liðast í sundur og fjallar um hversdagslegt amstur þeirra félaga og ófyrirséðar breytingar á högum þeirra. Hlakka til að lesa meira eftir þennan höfund.

Ég les alltaf talsvert af ljóðum og tvo ólík ljóðskáld hafa átt upp á mitt pallborð nú nýverið. Annarsvegar er það Tímasetningar Margrétar Lóu sem kom út nú fyrir jólin. Mögnuð bók. Ádeila á stríð og hernaðarbrölt. Hins vegar hef ég verið að glugga í mikinn doðrant sem geymir því sem næst heildarverk Einars Benediktssonar. Hann hefur nú ekki fram að þessu verið í hópi minna uppáhaldshöfunda. Svei mér ef hann fer ekki að síga inn á þann lista. Þegar honum tekst best upp er snilldin svo glitrandi tær að slíkt er ekki á færi margra.

Svo má ekki gleyma Hjartahreinum ævidögum Úlfs eftir Ösp Viggósdóttur. Lítil saga sem ekki hefur farið mikið fyrir og er gefin út af forlaginu með flotta nafninu; Haraldi íkorna. Þessi saga finnst mér lítill gullmoli og skrifuð af hlýju og næmni. Algert krútt.

Annars hef ég nú varla getað lesið neitt af neinu síðan ég lauk við Flugdrekahlauparann eftir Khaled Hosseini. Það var svo sterk og áhrifamikil bók að lengi á eftir fannst mér allt annað heldur bragðdauft svo ég vitni nú hreinlega til umsagnar Isabel Allende um bókina.
Ég er óðum að ná mér held ég og hlakka nú til að lesa Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson en hún bíður mín á náttborðinu. Ég hef alveg sérstakt dálæti á bókunum hans. Það er svo mikið Ísland í þeim.

Fyrsta skref í lestrarendurhæfingunni var þó að kaupa Draumaland Andra Snæsog hefja lesturinn. Deilum við hjónin henni á milli okkar í bróðerni og sækist lesturinn vel. Draumalandið er hressileg bók og þar fá ýmsir á baukinn. Andra er lagið að horfa skemmtilega gagnrýnum augum á samtíð og samfélag og þetta er bók sem ég vona að sem flestir lesi og þá ekki síst ráðamenn þjóðarinnar. Andra tekst nefnilega í þessari bók að endurspegla svo margt af því sem fólk er að tala um sín á milli í boðum, á kaffihúsum og við matarborðið heima hjá sér, í kaffitímanum í vinnunni, en hann er sá sem lætur loksins vaða og gerir eitthvað með það ... skrifar þessa líka bráðgóðu bók. Ég tek ofan minn hatt fyrir honum.

Sigurborg Rögnvaldsdóttir, mars 2006.
Sigurborg er stuðningsfulltrúi í Grandaskóla.

Þú getur fundið bækurnar sem hér er fjallað um í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál