Ég les

Kristinn Stefánsson: Af gömlum og nýjum tímum

Það er líkt farið um mig og marga aðra að mikill lestur er órjúfanlegur hluti daglegrar vinnu jafnt og símenntunar tengdri henni. Til að geta fylgst með þarf að hafa sig allan við, einkum eykst upplýsingaflæðið yfir Internetið dag frá degi. Það er kannski til að hvíla sig á 21. öldinni að ég hef síðasta misserið horft nokkuð til fortíðar í vali á lesefni í frístundum.

Fyrir margra hluta sakir hefur saga vísindarannsókna í Bretlandi á 17. og 18. öldinni verið mér hugleikin í vali á bókum undanfarið. Ég hef verið að lesa bók John Gribbins, The Fellowship sem rekur meðal annars sögu hins konunglega vísindafélags í London. Það er áhugavert að velta fyrir sér af hverju sú vísindabylting sem varð kringum þann félagsskap átti sér einmitt stað á þessum tíma og í Englandi en ekki á meginlandi Evrópu. Ísak Newton var að sjálfsögðu þar í burðarhlutverki og las ég nýlega ævisögu hans, Isaac Newton, skrifaða af James Gleick. Það verður kannski ekki sagt að sem einstaklingur hafi Newton verið aðlaðandi þó framlag hans til vísinda sé ótvírætt, raunar var hann smámunasamur, hefnigjarn og langrækinn.

Einn hluti ævistarfs Newton sem hefur ekki alltaf verið í forgrunni er starf hans sem yfirmaður hinnar konuglegu myntsláttu. Þessi þáttur í ævi hans og samspil framfara í vísindum við þróun peningakerfa Evrópu leikur stórt hlutverk í sögulegu skáldverki Neal Stephenson sem kom út í þriggja bóka ritröð, Quicksilver, The Confusion og The System of The World. Stephenson, sem er þekktastur fyrir vísindaskáldsögur sínar, fléttar saman skáldskap og raunveruleika og tekst að glæða þennan tíma lífi, sem fræðibækur ná ekki alltaf að gera. Þar sem sögulegar skáldsögur sem og vísindaskáldsögur höfða til mín, áttu þessar bækur vel við mig, þó það tæki fram eftir síðasta vetri að ljúka þeim enda hver þeirra um 900 blaðsíður.

Annar risi vísindasögunnar sem ég hef dálæti á, er Charles Darwin og síðast las ég ævisögu hans skrifaða af Cyril Aydon. Kenningar Darwins um þróun og náttúruval eru í mínum huga eitthvert mikilvægasta framlag einstaklings til vísindanna, ekki síst fyrir áhrif þeirra á heimsmynd okkar. Rithöfundur og vísindamaður sem duglegur hefur verið að útskýra og upplýsa almenning um kenningar Darwins, er Richard Dawkins og eru margar bækur hans, einkum The Selfish Gene og The Blind Watchmaker í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Reyndar hefur sú nýjasta, The Ancestor's Tale beðið lestrar á skrifborðinu hjá mér um nokkurt skeið og hlakka ég til að hafa gott tóm til að lesa hana.

Það er næstum klént að nefna að Hringadróttinssaga er ein af uppáhaldsbókum mínum og varla hefur liðið ár frá því að ég var á unglingsaldri að ég hafi ekki lesið hana að minnsta kosti einu sinni. Ég las svo síðasta vetur ævisögu J.R.R. Tolkien ritaða af Michael White og hét hún einfaldlega Tolkien. Þegar sami höfundur ritaði ævisögu C. S. Lewis, sem var lengi vel einn nánasti vinur Tolkien, var eðlilegt framhald að lesa hana, ekki síst þar sem þessi tvö nöfn eru svo nátengd í huga manns. Þeir voru á svipuðu reki, tengdust vinaböndum og eru báðir þekktir fyrir að skrifa fantasíubókmenntir. En eftir stendur að þó Tolkien hafi vissulega verið um margt sérvitur og ekki margt í einkalífi hans sem stafar miklum ljóma af, verður samt að segjast að á köflum var Lewis undarlegur ef ekki hreinlega fráhrindandi persónuleiki.

Ég hafði aldrei lesið neitt eftir Lewis af ýmsum ástæðum og ævisaga hans hvatti mig síst til þess að breyta út frá því. En konan mín vildi að ég gæfi honum tækifæri og gaf mér Narníubækurnar í heildarsafni. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu gaman ég hafði af þeim. Vissulega er grunnt á kristilegum tilvísunum í sumum bókanna, frá sköpuninni, upprisunni og til hinsta dags en það er óþarfi að láta það skemma um of fyrir sér.

Það sést af því sem ég hef nefnt að ég les iðulega ævisögur. Oft er það til að leita skilnings á sögulegum atburðum og bakgrunni fræðikenninga en auk þess er ég veikur fyrir ævisögulegum frásögnum af landkönnun og fjallamennsku. Eftir að hafa gripið gamla bók eftir Edmund Hillary, Vogun vinnur, á fornbókasölu fékk ég svo gefins um daginn Sir Edmund Hillary, an Extraordinary Life eftir Alexu Johnston, sem rakti ævi þessa ágæta Nýsjálendings. Það er endurnærandi að lesa um jafn heilsteyptan einstakling og Sir Edmund, afreksmann jafnt í fjallamennsku sem og í góðgerðarmálum.

Konan mín kynnti mig svo um daginn fyrir einum af sínum uppáhaldsbókum úr æsku, sögunum af Prins Valíant eftir Harold R. Foster. Á mínum ungdómsárum hafði ég haft einhverja fordóma gagnvart prinsinum með pottloksklippinguna en gott ef ekki kom bara í ljós að þessi hátt í sjötuga teiknimyndasería er hreinasti gimsteinn. Teiknimyndasögur eru í mínum huga jafngóðar bókmenntir og hverjar aðrar, á þessum margmiðlunartímum leitar maður allra leiða til að fá ungviðið til að slíta sig frá imbakössum sjónvarps og tölva. Það má reyna að stinga að þeim Prinsinum Valíant í þeim tilgangi.

Þegar ég les mér til hreinnar afþreyingar halla ég mér oft að vísindaskáldsögum. Gömlu meistararnir svo sem Isaac Asimov, Frank Herbert, Philip K. Dick og Arthur C. Clarke standa alltaf fyrir sínu, Neal Stephenson og William Gibson ættu svo að vera skyldulesning fyrir Internetkynslóðina. Sérstakir konfektmolar koma þó frá Iain M. Banks, síðasta bókin hans The Algebraist kom í kilju á síðasta ári og var hreint ágæt. Á mörkum vísindaskáldskapar og fantasíu eru svo tvær bækur sem ég las nýlega eftir China Mieville, Iron Council og The Scar sem voru virkilega hressandi lesning.

Fyrir nokkrum árum datt ég í að lesa hinar ágætu grínfantasíur eftir Terry Pratchett sem ég get ekki annað en mælt með fyrir þá sem vilja kúpla sig tímabundið frá þessari jarðkúlu. Grín í bland við oft hárbeitta þjóðfélagsádeilu, nýjasta bókin Thud ætti ekki að svíkja neinn en þeir sem vilja byrja að lesa þessar sögur hans sem gerast í Diskheimi ættu þó hugsanlega að byrja á eldri bókum.

Og svo að lokum, er það Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, sem ég get ekki annað en mælt með að allir lesi. Bókin er snilldarlega byggð upp. Ég hló og grét til skiptis lengst af en við lestur síðustu kaflana skalf ég þó mest af taugaæsingi. Það er sama hvar í flokki menn standa, allir ættu að lesa hana til að geta tekið afstöðu til þess sem Andri Snær hefur fram að færa. Svo yfirkominn var ég að lestri loknum að mig langaði mest að fara út og kaupa nokkur hundruð eintök til að senda á velvalda staði!

Kristinn Stefánsson, apríl 2006

Kristinn er tölvunarfræðingur hjá KB banka


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál