Ég les

Ólafur Páll Jónsson: Draumar og dumbsháttur

Ég hef nýlega lesið tvær bækur, og svolítið í þeirri þriðju. Allt eru þetta sannkallaðar fagurbókmenntir: Draumalandið eftir Andra Snæ, Skuggabaldur eftir Sjón og Matarást eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Kannski ég segi eitthvað um þær tvær síðarnefndu seinna. Nú ætla ég að segja nokkur orð um Draumalandið – og þó ekki svo mikið um bókina, frekar um lestur minn á bókinni og tilraunir mínar til að efast um málflutning Andra Snæs.

* * *

Eins og fleiri þá féll ég alveg fyrir Draumalandinu. Andri Snær er ekki bara góður penni, eins og menn segja um þá sem geta skrifað lipran texta, heldur afar hugmyndaríkur og skýr höfundur. Og svo kann hann bæði að lesa ensku og reikna. Og ofan á allt annað er hugsunin skýr. Eða það fannst mér þegar ég las bókina. Svo runnu á mig tvær grímur. Fannst mér bókin góð vegna þess að hún var virkilega vel unnin, eða fannst mér hún kannski bara góð af því að ég var sammála henni – var ég svona áfjáður í að heyra það sem ég var þegar sannfærður um: að stóriðjustefnan og Kárahnjúkavirkjun eru glórulaus brjálsemi.

Fólk fer á pólitíska fundi hjá pólitískum samherjum þegar það er í raun mun gáfulegra, vilji fólk á annað borð læra eitthvað, að fara á fundina hjá andstæðingunum. En þetta er raunar skiljanlegt því það er ónotalegt að heyra rökstuddar skoðanir sem maður er ósammála. Og það er beinlínis glannaskapur að gefa sig í rökræðu meðal þeirra sem eru manni ósammála, því í rökræðunni gengst maður inn á hlutlæga mælikvarða um góð og slæm rök. Kappræðan er öruggara skjól, því í henni er fyrirfram tryggt að enginn skiptir um skoðun. Þess vegna er rökræða við þá sem eru manni ósammála varasöm – með því að gefa sig í rökræðuna gefur maður færi á sér. Á endanum gæti maður þurft að skipta um skoðun. Rökræðan við þá sem eru manni sammála er svo jafn notaleg og hin er ónotaleg – þá getur maður verið viss um að rökræðan gerir ekki annað en að knýja mann til að fallast á þá niðurstöðu sem maður hefur þegar gengist inn á.
Grímurnar tvær runnu á mig þegar ég las frásögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landvirkjunar, af heimsókn Andra Snæs til fyrirtækisins. Þorsteinn segir m.a.:


Það kom fram í ábendingum og athugasemdum fundarmanna til Andra Snæs að staðreyndirnar sem hann dregur fram máli sínu til stuðnings eru oft á tíðum valin dæmi sem gefa ekki rétta mynd af því sem hann fjallar um að mati þeirra sem til þekkja. Til dæmis dregur hann fram fjölmörg neikvæð atriði um álframleiðslu erlendis sem eru ekki dæmigerð og í engu samræmi við það sem best er gert í þeirri starfsemi. Dæmi hans lýsa þess vegna ekki þeim raunveruleika sem á við um þessa starfsemi eins og hún fer fram á Íslandi. (http://www.lv.is/article.asp?catID=44&ArtId=884)


Var ég þá svona áfjáður í að gleypa við skrifum Andra Snæs, vegna þess að ég fann samhljóm í þeim með mínum eigin tilfinningum og skoðunum, að ég hafði lesið bókina öldungis gagnrýnilaust. Þarna hafði ég heldur betur verið tekinn í bólinu. En þá er bara að viðurkenna afglöpin og skoða málið betur. Hvað var það annars sem Andri Snær vildi segja í bókinni? Sex atriði komu strax upp í hugann.

(1) Við lifum á hugmyndum ekki síður (og kannski miklu frekar) en á auðlindum.
(2) Við þurfum ekki stóriðju til að komast af, og það bara vel.
(3) Við höfum ótal tækifæri önnur en stóriðju.
(4) Við þurfum ekki að vera hrædd við framtíðina þótt við getum ekki séð fyrir hvernig við munum komast af.
(5) Markaðssetning íslenskra orkulinda, og þar með íslenskrar náttúru, hefur verið fáránleg.
(6) Kárahnjúkavirkjun er sérstaklega óskemmtileg framkvæmd.

Skoðum nánar atriði (2), (4), (5) og (6). Skyldi stóriðjan hafa verið undirstaða efnalegrar velmegunar þjóðarinnar á seinni hluta 20. aldar og við upphaf þeirrar 21.? Hvaða stóriðju höfðum við fram undir 1990? Jú, það var álver í Straumsvík og járnblendiverksmiðja á Grundartanga. Gefum okkur nú að þessi stóriðja hafi skipt máli, t.d. vegna uppbyggingar virkjana og þar með fyrir rafvæðingu landsins. Við skulum bara gefa okkur þetta. En sú spurning sem nú brennur á okkur er hvort við þurfum á frekari uppbyggingu stóriðju að halda. Ef við þurfum á slíkri uppbyggingu að halda, þá er það vegna einhvers. En vegna hvers? Kannski vantar fólk atvinnu.

Athugum málið. Á forsíðu Morgunblaðsins 5. maí er sagt frá því að starfandi fólki hafi fjölgað um 7.700 milli ára. Atvinnuþátttaka hefur á sama tíma farið úr 79,8% í 81,1%. Tölurnar koma beint úr Hagtíðindum. Á Selfossi var einn á atvinnuleysisskrá og fékk strax vinnu. Á sömu forsíðu er líka sagt frá því að hátt í 4.000 manns vinni við stórframkvæmdir. Ætli flestir þeirra séu ekki útlendingar sem hafa komið hingað til þess eins að vinna við þessar framkvæmdir. Svo fara þeir aftur til síns heima, eða í eitthvert annað heimshornið að vinna við einhverjar aðrar stórframkvæmdir. Þessar tölur segja okkur að við þurfum ekki stórframkvæmdir til að halda uppi atvinnu. Það er ekkert atvinnuleysi. Kannski er eitthvað staðbundið atvinnuleysi. Mig minnir að það hafi 11 karlar verið atvinnulausir á Húsavík um daginn. Varla þarf heilt álver til að finna þeim vinnu. Það virðist alveg ljóst að efnaleg hagsæld okkar byggist ekki á stóriðju. Og það þarf engin valin dæmi til að sýna fram á það.

Hvað með atriði (4), þurfum við að vera hrædd við framtíðina? Framtíðin er óviss, það er staðreynd sem við komumst ekki frá. En er óvissan ógnvænleg? Nei, óvissan er ekki ógnvænleg. Þvert á móti er hún það sem gefur lífinu gildi. Vissulega hefur fólk búið við ógnvænlega óvissu á Íslandi. Seinast í lok 19. aldar flutti fólk vestur um haf vegna þess að afkoma þess var svo óviss, það vissi ekki hvernig það gæti átt til hnífs og skeiðar næsta dag. Það er ógnvænleg óvissa. En út úr þesskonar óvissu tókst þjóðinni að vinna sig og það öldungis án nokkurrar stóriðju. Í dag er staðan önnur. Í dag hafa Íslendingar allar forsendur til að takast á við óvissa framtíð. Og ekki nóg með það, heldur er óvissan beinlínis ein af forsendum innihaldsríks lífs. Óvissan er sá jarðvegur sem frumleiki og sköpun spretta úr. Það er óvissan sem gefur lífinu gildi, vegna þess að í henni felst áskorun. Gangverk í klukku er dæmi um kerfi sem hreyfist án óvissu. Eða öllu heldur, óvissan er ógn við slíkt gangverk. Staðreynd óvissunnar er sú staðreynd að kerfið getur bilað. Mannlífið er líka gangverk, en óvissan felur ekki í sér möguleikann á bilun. Ef óvissunni er útrýmt úr mannlífinu, þá hefur mannlífinu verið breytt í gangverk, líflaust gangverk þar sem manneskjurnar eru ekkert nema tannhjól. Þess vegna eigum við að fagna óvissunni, ekki vera hrædd við hana. Sá sem er hræddur við óvissuna, hann er hræddur við sjálfan sig.

Þá er það atriði (5), markaðssetning íslenskrar orku. Andri Snær stillir málinu þannig upp að markaðssetning íslenskrar orku hafi í raun verið útsala á íslenskri náttúru. Meira að segja brunaútsala. Hér hefur hann kannski farið offari og fagmenn Landsvirkjunar getað bent honum á að „staðreyndirnar sem hann dregur fram máli sínu til stuðnings eru oft á tíðum valin dæmi sem gefa ekki rétta mynd af því sem hann fjallar um að mati þeirra sem til þekkja“. En hvaða staðreyndir? Það er engin vitleysa hjá Andra Snæ að bæklingurinn Cheap Energy Prices hafi verið gefinn út og honum dreift til stórfyrirtækja um allan heim. En skyldi það vera vitleysa að til að útvega þá orku, sem þar er sagt að megi afla, þurfi jafnvel að virkja nokkrar helstu perlur íslenskrar náttúru? Athugum málið. Besta heimildin um virkjanlega orku, og í raun eina opinbera heimildin þar sem gerð er heildargrein fyrir virkjunarmöguleikum, bæði í vatnsafli og jarðvarma, er Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. (Reyndar er bara búið að vinna fyrsta hluta, og þegar þeirri vinnu lauk var stórlega dregið úr fjárframlögum til verksins. Það er athyglivert í ljósi umræðunnar.) Í Rammaáætlun standa svartar á hvítu þær staðreyndir sem Andri Snær tínir til. Kannski hafa þeir „sem til þekkja“ getað bent Andra Snæ á að til að komast upp í 30 TWh í vatnsorku þurfi ekki að taka laxárnar ef menn taka Gullfoss, og kannski má hlífa Gullfossi og Dettifossi, ef menn eru duglegir að stífla annars staðar. Kannski var það einmitt hér sem þeir „sem til þekkja“ gátu leiðrétt Andra Snæ. En því miður segir Þorsteinn okkur ekki hvað þeir „sem til þekkja“ vita sem við vitum ekki. Kannski er búið að finna nýjar leiðir til að komast upp í 30 TWh. Eftir stendur að margar af fegurstu náttúruperlum landsins voru boðnar til sölu á niðursettu verði, „cheap prices“ var kjörorðið. Og það er enn verið að með sömu formerkjum. Og til hvers? Til að skapa atvinnu í landi þar sem ekkert atvinnuleysi er, og til að framleiða ál þegar nóg er til af áli í heiminum (því er bara hent í ruslið). Ég trúi því ekki að það séu einhverjir hjá Landsvirkjun sem „til þekkja“ og vita eitthvað sem breytir þessari mynd í einhverjum aðalatriðum fyrr en þeir hinir sömu gerast svo örlátir að deila þeirri þekkingu með okkur almúganum.

Þá er það liður (6), að Kárahnjúkavirkjun sé sérstaklega óskemmtileg framkvæmd. Sumir verkfræðingar virðast líta á virkjununina sem kórónu sköpunarverksins. Það virtist mér að minnsta kosti vera inntakið í sýningu Landsvirkjunar um byggingu virkjunarinnar í samkomuhúsinu á Valþjófstað í Fljótsdal sem ég sá fyrir tveimur árum (á myndbandinu um borana var reyndar engin sérstök fyrirstaða undir Þrælahálsi, og það var ekkert sérstakt misgengi undir virkjuninni, og það var heldur engin hætta á jökulhlaupi, og heldur ekkert sandfok úr lónbotninum). Ég get reyndar séð ákveðið aðdráttarafl í framkvæmdinni: Það er flott að geta búið til gangverk, sett það af stað og látið það ganga eins og klukku, og mala gull fyrir þjóðarbúið. Hverflarnir í virkjuninni snúast, framleiða rafmagn sem er leitt í línum niður á Reyðarfjörð, þar umbreytir það súráli í silfurgljáandi málminn, sem er skipað út til fjarlægra landa en inn streyma dollararnir. Þarna höfum við gangverk til að knýja þjóðarskútu. Og þegar þessu hefur verið komið í kring, þá gengur það öldungis af sjálfu sér. Er þetta ekki fögur framtíðarsýn?

Til þess að sjá Kárahnjúkavirkjun og Álverið á Reyðarfirði svona þarf ég að vísu að loka öðru auganu alveg og hinu næstum því líka. Hið nýja gangverk, Kárahnjúkavirkjun + Álver, er búið til með því að eyðileggja annað gangverk, gamalt gangverk, Hjalladal + Kringilsárrana + Dimmugljúfur + Húsey +..., og kannski líka Lagarfljót + Skjálfandi + ... Nýja gangverkið endist kannski í 50 ár, kannski 100. Þetta var þá ekki einu sinni framtíðarsýn, hvort heldur fögur eða ljót. Þetta var þá bara samtímasýn. Reyndar virðist enginn vita hversu lengi það endist, en 70 ár eru talin nógu langur tími því þá verður búið að afskrifa virkjunina. Þá mun stíflan standa fyrir lóni fullu af drullu. Þá eigum við ekki einungis stærstu grjótstíflu í Evrópu, við munum líka eiga dýpsta drullupoll í Evrópu. Við skulum vona að erfingjar okkar, og reyndar við sjálf, höfum áfram húmor fyrir fáránlegum Evrópu- og heimsmetum eftir 50 ár. Ég get ekki betur séð, meðan ég læt rifa í bæði augun, en að Kárahnjúkavirkjun sé sérstaklega óskemmtileg framkvæmd.
Kannski geta þeir „sem til þekkja“ leiðrétt mig, og Andra Snæ líka, því ég get ómögulega séð hvar honum verður fótaskortur í einhverju sem máli skiptir. Undir lok greinar sinnar á vef Landsvirkjunar segir Þorsteinn Hilmarsson:


Undirrituðum þykir athyglisvert að Andri Snær getur gjarna heimilda með áberandi hætti úti á spássíu Draumalandsins og birtir mikla heimildaskrá í bókarlok. Eins og að ofan má sjá er fljótgert að átta sig á því að meðferð heimilda er þó stórlega áfátt, hún er ekki hlutlæg eða til upplýsingar heldur miðast hún við að styðja málflutning sem virkjar fólk til baráttu. Þetta er í raun stílbragð sem gefur bókinni yfirbragð fræðirits en val á heimildum og meðferð þeirra undirstrikar að hún er áróðursrit. (http://www.lv.is/article.asp?catID=44&ArtId=884)


Þetta er athygliverð athugasemd. Við getum vel kallað Draumalandið áróðursrit, þetta er bók sem er skrifuð tilteknum málstað til stuðnings og öðrum til tjóns. Málflutningur Draumalandsins krefst þess að vísað sé í margvíslegar heimildir, og þá vitnar maður í heimildir, helst með áberandi hætti. Spássían er ágæt til þess. Hér gerir Andri Snær sig ekki sekan um neitt fúsk. En er uppsetningunni áfátt? Það fæ ég ekki séð. Andri Snær vill rökstyðja ákveðnar staðhæfingar, meðal þeirra eru staðhæfingar sem eru eitthvað í ætt við staðhæfingar (1) til (6) að ofan. Ef Andri Snær hefur vísvitandi sleppt heimildum sem afsanna þessar staðhæfingar eða myndu gera þær vafasamar, eða ef hann hefur gert sig sekan um fljótfærni eða vanrækslu, þá má segja að meðferð hans á heimildum sé áfátt. En það þýðir ekki að kvarta yfir því að hann hafi ekki bent á eina bjarta hlið fyrir hverja dökka. Og það er í raun fremur lélegt stílbragð hjá Þorsteini að gera bókina tortryggilega með þessum hætti, án þess að nefna dæmi máli sínu til stuðning. Á ensku segja menn stundum: „Put up, or shut up“. Það útleggst: „Rökstuddu mál þitt, eða þegiðu.“ Það er ágæt regla. Nú hefur Þorsteinn talað, þá vantar bara dæmin, rökstuðninginn.

Með Draumalandinu hefur Andri Snær fært hina lýðræðislegu umfjöllun um stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á nýtt stig. Bókin er ítarlega rökstudd gagnrýni á þessa stefnu. En það að setja fram rökstudda skoðun er ekki endir rökræðunnar. Það er miklu fremur upphaf. Rökin eru í raun forsenda þess að hægt sé að taka skoðunina – niðurstöðuna – til gagnrýninnar rannsóknar. Og nú er boltinn hjá fylgismönnum stóriðjustefnunnar. Boltinn er hjá Valgerði Sverrisdóttur, Geir Haarde, Halldóri Ásgrímssyni, Davíð Oddssyni, Árna M. Matthiessen, Þorsteini Hilmarssyni, Friðriki Sophussyni, Siv Friðleifsdóttur og fleirum. Ef þetta fólk ber einhverja virðingu fyrir lýðræðislegri umfjöllun – eins og það hefur stundum sagst gera – verður það að taka áskoruninni. Það er ekki hægt að sitja hjá, þegja, eða reyna að gera bókina tortryggilega án nokkurra raka. Lýðræðið kallar á rök, vegna þess að lýðræðið kallar á rökræðu. Það er ekkert lýðræði í því að meirihluti þumbist áfram og þegi í hel andstæðar skoðanir. Lýðræði kallar ekki bara á umræðu þar sem allir fá að tala en enginn þarf að hlusta. Lýðræðið kallar á rökræðu þar sem þeir sem fara með vald finna sig knúna til að svara rökum með öðrum rökum, ekki þögn, og þar sem menn eru tilbúnir að beygja sig undir leikreglur rökræðunnar.

* * *

Góði dátinn Svejk sagði að á stríðstímum væru mannslíf lítils virði. Á uppgangstímum er náttúran lítils virði. Gamla gangverkið, sem var fórnað fyrir nýja gangverkið, Kárahnjúkavirkjun + Álver, hefur verið í mótun í þúsundir ára, og það hefði getað staðið áfram, vaxið og þróast, í þúsundir ára til viðbótar. Þesskonar gangverk afskrifast ekki á áratugum. Hvernig sem á er litið, þá er það gangverk sem er fórnað bæði mikilfenglegra og langlífara en það sem á að búa til.

Og þó, er ekki einn munur á? Gleymi ég ekki alveg einni hlið á málinu? Nýja gangverkið skilar arði og skapar vinnu. Það gerir hitt ekki. Þetta höfum við heyrt. Nýja gangverkið eykur hagvöxtinn, gamla gangverkið gerir það ekki. Nýja gangverkið skapar auð, gamla gangverkið gerir það ekki. Þeir sem fá vinnu við nýja gangverkið geta haldið áfram að búa fyrir austan, þeir geta verið heima hjá sér en þurfa ekki að flytja á suðvestur-hornið. Gamla gangverkið gerir ekkert af þessu. Þetta höfum við heyrt aftur og aftur. En er eitthvað vit í þessu? Ég held ekki.

Í fyrsta lagi þá hvílir nýja gangverkið á öðru gangverki, gangverki náttúrunnar. Og ef við göngum of nálægt því, þá hrynur hið tilbúna gangverk eins og spilaborg. Í öðru lagi hvílir verðmæti afraksturs hins nýja gangverks á því gamla og ef við göngum of nærri því gamla, þá verður auðurinn sem hið nýja skilar okkur, einskis virði. Hagvöxtur er mælikvarði á köku. Meiri hagvöxtur þýðir að kakan verður stærri. En sú kaka sem við höfum er þegar býsna stór og hefði haldið áfram að stækka án þessa nýja gangverks. Hættan er hins vegar sú að ef við reynum að stækka kökuna með því að smíða gangverk eins og Kárahnjúkavirkjun + Álver, þá höfum við á endanum enga stássstofu til að borða hana í.

  Því hvað er auður og afl og hús
  ef engin urt vex í þinni krús?

Þetta sagði Bjartur í Sumarhúsum þegar þvergirðingsháttur hans hafði hrakið frá honum það sem honum þótti vænst um af öllu.

Í gamla daga fóru fátæklingar á hreppinn. Þeim var stuggað yfir fjöll og ár í fæðingarhreppinn þar sem þeirra beið vist hjá lægstbjóðanda. „Cheap labour prices“ hefði mátt segja. Það hlýtur að hafa verið ömurlegt hlutskipti. Sumir ómagarnir urðu að vísu vinnumenn á ágætum bæjum, fengu mat og húsaskjól og klæði. En það hlýtur samt að hafa verið ömurlegt að vera þannig upp á aðra kominn, rændur frumkvæði og sjálfræði. Rændur mennskunni. Nú hefur þessu fyrirkomulagi sem betur fer verið kastað. Og þá köllum við fæðingarhreppinn yfir okkur í formi alþjóðlegs stórfyrirtækis. Það er tilbúið að sjá fyrir okkur, veita okkur klæði og húsaskjól. Og það fer ekki fram á mikið, bara nokkur dalverpi til fjalla þar sem enginn hefur hvort sem er komið. Eða ef einhver hefur komið þangað, þá getur hann bara farið eitthvert annað.

Ólafur Páll Jónsson, maí 2006

Ólafur Páll er lektor í heimspeki við Kennaraháskóla Íslands


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál