Ég les

Kristín R. Thorlacius: Hvað er ég að lesa?

Það er víst ýmislegt, ef marka má af himinháum bókastöflum á náttborðunum mínum. Af nógu er að taka. Já, ég verð að viðurkenna að ég er oft með margar bækur í einu hálflesnar. Sumar hæfa kvöldi, aðrar morgni. – En núna?

Í gær (um miðjan dag) lagði ég frá mér nýjustu bók Alexanders McCall Smith um þrýstnu Botswanakonuna Mma Ramotswe: Blue Shoes and Happiness. Hún er frábær eins og allar hinar, og mér finnst ég vita ofurlítið um Afríkuríkið Botswana sem ég vissi varla áður að væri til. Í þessari bók eins og hinum fyrri ræður þessi kvenspæjari nokkrar gátur og hjálpar einnig til við að leysa vandamál samstarfsfólks síns.

Svo er ég í miðju kafi að lesa Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Ég byrjaði á þessari sögu aðallega af því að ég kannast við þýðanda sem situr um þessar mundir við að snúa henni á danska tungu. Ég vildi vera búin með hana á íslensku áður en ég fengi hana í hendurnar á dönsku – og sé ekki eftir því. Sagan er bráðskemmtileg og aðdáunarvert hvernig höfundi tekst að vekja andblæ löngu liðinna tíma. Hún hlýtur að hafa lagt á sig ómælda rannsóknarvinnu, þessi unga kona, til að geta lýst vinnubrögðum og starfsháttum á fyrri hluta 20. aldar, húsakynnum og klæðaburði – og hugsunarhætti fólks – jafnvel og hún gerir.

En svo er það menningin. Það vill svo vel til að menningarlegasta bókin á náttborðinu er líka alveg bráðskemmtileg. Það er Listin að lesa eftir Árna Bergmann. Þetta eru sjö ritgerðir um bókmenntir og bóklestur sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gaf út á síðast liðnu ári í tilefni af sjötugsafmæli höfundar. Árni kemur víða við, enda fjölfróður og víðlesinn, og ég er ekki frá því að ég lesi sjálf með ofurlítið öðru hugarfari eftir að hafa rennt í gegnum þetta kver.

Og þá eru krimmarnir eftir. Bókmenntir sem maður hálfskammast sín fyrir, en getur þó ekki látið ólesnar. Það gladdi mig því mjög þegar Árni Bergmann segir í ofannefndri bók: “Glæpasagan, morðgátan, hrapaði aldrei mjög langt niður virðingarstigann. Að henni var oftar en ekki staðið af góðri kunnáttu og fagmennsku.”

Yfirleitt les ég þessa bókmenntagrein á ensku, en nú vill hins vegar svo til að ég er nýbúin að uppgötva frábæran íslenskan höfund (aðrir hafa uppgötvað hann á undan mér, hann hefur verið tilnefndur til verðlauna og fengið lof gagnrýnenda), en þetta er Viktor Arnar Ingólfsson, og ég hef lokið við Aftureldingu og Flateyjargátuna og er nú tekin til við Engin spor. Þetta eru allt vel skrifaðar spennusögur með góðum staðarlýsingum, en efnið má auðvitað ekki rekja.
Annarri bók í þessum flokki bíð ég spennt eftir, var búin að lesa nokkra kafla í henni úti í Silkiborg og treysti því að ég fengi hana á söfnum hér heima. Og nú hefur hún fengið Glerlykilinn svo að hún hlýtur að berast mér fljótlega frá Borgarbókasafninu. Þetta er sænska sagan: Män som hatar kvinnor eftir Stieg Larsson. Höfundur mun hafa skrifað þrjár bækur með sömu rannsóknarmenn (karl og konu) í aðalhlutverkum. Því miður verða þær ekki fleiri, því höfundur er nýlátinn.

Þá er bara eftir að nefna tvo vini mína sem ég skil eiginlega aldrei við mig. Den fortryllede vandringsmand er rússnesk skáldsaga eftir Nikolaj Leskov (1831-1895), sem fyrst nú á okkar dögum mun metinn að verðleikum í heimalandi sínu og settur á stall með Tolstoj og Dostojevski. Hvað sem því líður er þetta frábær bók, hetjusaga furðufugls sem fengist hefur við ýmislegt um dagana, verið hestasveinn og tamningamaður, hermaður og munkur, svo eitthvað sé nefnt. Hann segir samferðafólki sínu ævisögu sína.

Á eftir Leskov kemur svo Gyrðir. Steintré eftir Gyrði Elíasson er á borðinu hjá mér núna, 24 stuttar smásögur, sem hver um sig er í rauninni heil skáldsaga, sumar heilar ævisögur. Ég þekki engan sem getur sagt jafnmikið í jafnfáum orðum og Gyrðir Elíasson, og sagt það fallega.

Kristín R. Thorlacius, júní 2006.

Kristín er þýðandi og nýhætt störfum sem kennari í Borgarnesi.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál