Ég les

Ingibjörg Björnsdóttir: Það sem ég er að lesa

Ég er óforbetranlegur bókarýnir og sofna ekki á kvöldin fyrr en hafa hafa rýnt í bók. Ég er fastagestur á bókasafninu í Sólheimum og þau þar vita að ég les í raun allt milli himins og jarðar. Þó er ég orðin löt í ástarsögunum. En þar benda þau mér á nýjar og áhugaverðar bækur. Fólkið þarna er orðið vinir mínir og alltaf jafn gott að koma í safnið, allir taka brosandi á móti manni.

Mig langar til að byrja á að nefna bók eftir danskan höfund, Hanne-Vibeke Holst, Krónprinsessan. Þar segir frá ungri konu á framabraut í stjórnmálunum og hvernig henni gengur að gera allt í senn – að vera eiginkona, móðir og stjórnmálamaður. Kemst hátt í metorðastigann innan danskra stjórnmála með öllum þeim átökum við aðra stjórnmálamenn, fjölmiðla o.fl. sem fylgja starfinu. Mér fannst sérlega gaman að lesa þessa bók, þekki dulítið til í þessum geira og mér fannst bókin áhugaverð, skemmtileg og mjög svo trúverðug. Mæli eindregið með henni. Flokkast kannski undir kvennabókmenntir þó mér finnist að karlar hefðu líka gott af að lesa bókina.

Skuggabörnin hans Reynis Traustasonar las ég í einni lotu. Gat ekki lagt hana frá mér þegar ég var byrjuð. Átakanleg og sönn saga sem segir okkur hvað heimurinn er grimmur og hvað við erum varnarlaus gegn ýmissi vá, sem án þess við vitum leynist jafnvel í næsta húsi og er komin inn á heimilið án þess maður geri sér grein fyrir því fyrr en í óefni er komið.

Bók Eddu Andrésdóttur – Auður Eir – Sólin kemur alltaf upp á ný er saga sérstæðrar konu, konu sem þorði, lét ekki segja sér fyrir verkum, en er alltaf trú sinni sannfæringu. Einstaklega skemmtileg aflestrar og ekki síst að lesa kaflana um æsku Auðar Eir, uppalin á menningarheimili og frábærar lýsingar á daglegu lífi þess tíma. Eddu tekst vel að koma hispurslausri frásögn Auðar til skila og auðfundið í gegnum bókina að þarna hefur gott samband myndast milli höfundar og sögumanns.

Ég er líka spennufíkill og hef að sjálflsögðu lesið Vetrarborg Arnaldar Indriðasonar. Hún hélt mér ágætlega við efnið, en mér finnst ég hafa lesið betri bækur eftir Arnald.

Dan Brown – Blekkingaleikur hélt mér vel við efnið og kom á óvart í lokin, eins og Dan Brown er lagið. Maður gerir ekkert annað meðan maður les bókina, hefur ekki útvarpið opið í leiðinni eða gýtur augunum á sjónvarpið. Spennandi bók.

Barnaleikir Tony Parsons er mjög raunsæ bók og trúverðug. Vel skrifuð og hvaða kona þekkir ekki þær tilfinningar sem systurnar í bókinni upplifa. Veit ekki hvort karlmenn skynji bókina á sama hátt og konur.

Árni Þórarinsson er í uppáhaldi hjá mér og núna á náttborðinu hjá mér er bókin hans Tími nornarinnar sem mér finnst lofa góðu.

Það eru margar bækur sem ég gæti sagt hér frá, geri það kannski seinna. Ég hvet alla til að nota bókasöfnin, þau eru frábær og allir tilbúnir að leiðbeina manni og það er ekkert eins gefandi og slakandi og lestur góðrar bókar.

Ingibjörg Björnsdóttir, júní 2006.

Ingibjörg er ritari fjármálaráðherra.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál