Ég les

Einar Hjartarson: Afdrifaríkar bækur

Eftir því sem maður eldist fækkar bókunum sem geta breytt hugsunarhætti manns til frambúðar. Af og til kviknar þó enn dálítill neisti í höfðinu þegar maður rekst á þær sjaldgæfu bækur sem eru færar um að flytja lesandann inn í nýja vídd.

Ég man sérstaklega eftir tveimur skáldsögum sem ég las á menntaskólaárunum og höfðu róttækar afleiðingar fyrir hugsanagang minn. Sú fyrri heitir Drakúla og var skrifuð af Íranum Bram Stoker árið 1897. Bók þessi hafði mikil áhrif á bókmenntir og kvikmyndir 20. aldar en af skáldsögunni spruttu margar eftirlíkingar eða sjálfstæð verk. Söguþráðurinn er flestum að einhverju leyti kunnur, jafnvel þótt fólk hafi ekki lesið bókina og því óþarfi að endursegja hann.
 Það sem heillaði mig svo mikið við söguna á sínum tíma var andrúmsloftið þar sem dulúð og erótík skarast. Dulúðin birtist í verum sem búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum, þ.e. greifanum og fylgisátum hans, og taka hamskiptum og eru ódauðlegar. Erótík sögunnar má segja að sé túlkuð með myndhvörfum, greifinn eru haldinn losta í blóð en öll hegðun hans og framkoma, þegar hann reynir að ná sér í það sem hann girnist, hefur yfir sér kynferðislegan blæ. Greifin hylur fýsn sína til þess að renna inn í mannlegt samfélag en þegar hann hittir fórnarlömb sín í einrúmi brjótast langanirnar út.

Hvað er það þá, við þessa sameiningu dulúðar og erótíkur sem gerir söguna svona heillandi? Ástæðuna tel ég vera að jafnvel enn í dag (og náttúrulega mun meira þegar bókin kom fyrst út) er kynlíf dálítið leyndardómsfull athöfn. Margir gætu býsnast yfir þessari staðhæfingu og sagt að á Vesturlöndum, með sinni klámvæðingu og opinberu kynfræðslu séu kynferðismál alls ekkert tabú lengur. Ég er ekki sammála því, jú auðvitað talar fræga fólkið um kynlíf sitt fyrir opnum tjöldum og sumar manneskjur, með sérstaklega opna persónugerð, eru alveg ófeimnar en við hin, þessi sauðsvarti almúgi, ræðum hlutina á frekar yfirborðskenndan hátt og erum ansi ólíkleg til að fara að segja ókunnugum frá erótískum löngunum okkar. Að minnsta kosti sé ég fæsta fyrir mér fara að gjamma yfir skrifstofusalinn til að segja einhverjum vinnufélaga frá ástarævintýrum síðustu helgar. Eða að byrja óforvarandis að tala um skoðanir sínar og draumóra um kynlíf í fjölskylduboði hjá afa og ömmu. Að mínu mati er þetta samt ekki slæmt, svo lengi sem prúðmennskan fer ekki að dylja hluti sem ættu– réttlætisins vegna – að koma fram í dagsljósið. Því hið leyndardómsfulla er alltaf meira spennandi en hið augljósa.

Hin bókin hafði ekki síðri áhrif á mig en titill hennar er Inferno og höfundurinn Ágúst Strindberg. Í raun á hún ýmislegt sameiginlegt með Drakúla, gefin út sama ár, 1897, og af henni er svipaður keimur dulúðar og þess sem leynist inni í mannssálinni. Sagan segir frá manni sem er í senn rithöfundur og efnafræðingur og tapar smám saman geðheilsunni við gullgerðartilraunir sínar ásamt fikti við galdra og særingar. Söguhetjan hverfur lengra og lengra inn í eigin heim þar sem hin ósýnilegu öfl stjórna öllu og leika sér að lífi hans. Eitthvert dót sem hann finnur á förnum vegi hefur táknræna merkingu, aðgerðum og jafnvel svipbrigðum fólks í kringum hann er stýrt af öflunum, tónlist sem ómar í fjarska er skilaboð til hans um að vera á varðbergi gegn óvinum sínum og svo framvegis og svo framvegis. Þessi skáldsaga Strindbergs kynnti mig í fyrsta sinn fyrir sálfræðilegri dýpt í bókmenntum. Kannski hafði ég áður lesið krufningu á sálarlífinu í bókum Stephens King en ekki fyrr lesið jafn nákvæma og óvægna lýsingu á sturlun né fundist ég komast eins nálægt persónu í skáldverki. Það sem heillaði mig líka var samruni fantasíu og raunsæis í bókinni sem er myndaður með sálkönnun sögupersónunnar sem sér heiminn með eigin hætti, sem dulrænan og fullan af yfirnáttúrulegum mætti sem blæs lífi í hvern hlut.

Auðvitað hafa fleiri bækur haft mikil áhrif á mig en flestar eru einhverra hluta vegna íslenskar eða runnar undan norrænum menningararfi. Í þeim hóp eru til dæmis Njála, Eddukvæðin, Ynglingasaga og Ólafssaga Tryggvasonar úr Heimskringlu, Völsungasaga og Hringadróttinssaga. En segja mætti að þessar bækur hafi einokað andlegt líf mitt á aldrinum 12-16 ára. Á þessum árum las ég einnig margar bækur sem flokkast undir „almenn fræðirit”. Þar ber hæst Saga mannkyns – ritröð A.B. en í gegnum þann bókaflokk varð mér Evrópusagan skýr og ég gerði mér grein fyrir því að þótt við á Íslandi séum öðruvísi og langt í burtu frá kraumandi pottum heimsins er rót menningar okkar evrópsk.

Ég biðst afsökunar á því ef rangt er farið með einhverjar staðreyndir en greinina skrifaði ég að mestu eftir minni.

Einar Hjartarson, júlí 2006.

Höfundur starfar í ÁTVR og skrifar í laumi.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál