Ég les

Sigríður Kristjánsdóttir: Um Konungsbók Arnaldar Indriðasonar og köflótta æsku Þráins Bertelssonar

Löngu áður en ég lærði að lesa tók ég bækur fram yfir leikföng. Síðan lærði ég að lesa og hef allar götur síðan verið forfallinn bókaormur sem veit ekkert betra en að geta kúrt uppi í sófa með bók í hendi. Bókasöfn voru himnaríki æskunnar, því ekki reyndist hægt að kaupa hverja þá bók sem hugurinn girntist, og þegar árin liðu féllu þau engan veginn af stalli sínum, heldur þvert á móti reyndust óþrjótandi fjársjóðskistur þar sem sífellt mátti ganga að nýjum ævintýrum vísum, þar á meðal eru þær tvær bækur sem um hér er fjallað á eftir.

Konungsbók eftir Arnald Indriðason.
Nýlega lauk ég við hina nýju bók Arnalds Indriðasonar. Á undanförnum árum hefur Arnaldur svo sannarlega skipað sér í fremsta sæti sem einn besti spennubókahöfundur Íslands. Bækur hans um Erlend hafa vakið verðskuldaða athygli og haldið lesendum í helgjargreipum á meðan Erlendur og samstarfsfélagar leysa hverja morðgátuna á fætur annarri.

Í hinni nýju bók sinni rær Arnaldur á önnur mið. Ungur háskólastúdent flyst til Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að lesa norræn fræði og kemst þar í kynni við meira en lítið sérlundaðan prófessor sem berst við ýmsa drauga fortíðar. Þessir draugar leiða síðan unga háskólastúdentinn og prófessorin á slóð Konungsbókar sem berst þvers og kruss um Evrópu og endar að lokum á Íslandi.

Það er best að segja það strax að Kongungsbók er ekki dæmigerð spennusaga. Hér hefur Arnaldur greinilega ætlað að róa á ný mið, þar sem hinn forni menningararfur og sagnahefð Íslendinga er í forgrunni. Bókin ber þess vissulega mikil og góð merki að Arnaldur hefur unnið heimavinnuna sína þegar kemur að heimildasöfnun, sem er ekki undarlegt enda er maðurinn með B.A. próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Vandamálið með Konungsbók hins vegar er að höfundur virðist ekki hafa gert upp við sig hvort hann ætlaði að skrifa spennusögu eða meira alvarlega og “dramatískari” sögu. Bókin er vel skrifuð á margan máta og heldur athygli lesanda, sérstaklega í fyrri hlutanum, en byrjar að hrynja innan frá eftir miðja bók. Hér skiptir mestu máli sú staðreynd að bókin er skrifuð fyrst og fremst eftir formerkjum hinnar dæmigerðu spennubókar, án þess þó að uppfylla fyllilega þau skilyrði. Sem spennubók nær Konungsbók aldrei nema hálfu flugi, en sem alvarlegri sögubók gengur hún heldur ekki upp því allt form hennar lítur að spennubókaforminu.

Helstu veikleikar sögunnar eru þannig formgerð hennar og uppsetning, þar sem höfundur nær ekki skrifa fyllilega sannfærandi sögu og tengingin við fortíðina, t.d. hina gömlu nasista, er aldrei fyllilega sannferðug né grípandi. Eins er sú ákvörðun að láta raunverulegt fólk, eins og Halldór Kiljan Laxness, taka þátt í sögunni með beinum hætti óviðeigandi að mínu mati. Hér um að ræða efni sem hefði mátt gera svo óskaplega mikið úr, en því miður fellur efnið talsvert mikið um sjálft sig og nær engan veginn að uppfylla væntingar sem gerðar voru af undirritaðri til bókarinnar.

Stærsta vandamál Kongungsbókar er fyrst og fremst fyrri sigurganga Arnaldar Indriðasonar á ritvellinum. Hann á langan lista af vel gerðum bókum sem eru hreinar spennusögur og þegar höfundur er þekktur fyrir eina afgerandi sagnagerð, þá búast lesendur við meira af hinu sama þegar ný bók kemur út. Þegar höfundur víkur síðan frá því og fer í gjörólíka átt, þá er ekki hægt að líta fram hjá því að stór hluti lesenda mun verða fyrir vonbrigðum, því þeir eru ekki að fá þá vöru sem þeir áttu von á. Það var að minnsta kosti tilfellið hjá mér.
       
Mér þótti bókin ekki beint leiðinleg aflestrar, en mér þótti hún ekki heldur skemmtileg. Konungsbók náði aldrei að hrífa mig með sér og gera mig svo spennta að ég gæti ekki beðið eftir framhaldinu. Þvert á móti eftir því sem leið á seinni hluta bókarinnar fóru leiðindi að gera vart við sig og eina ástæðan að ég hélt áfram lestrinum var sú að ég geng sjaldan frá hálflesinni sögu.

Af 4 mögulegum stjörnum myndi ég gefa henni 2 stjörnur, eina fyrir heimildavinnuna og þá næstu fyrir skýran og góðan texta.

Að lokum vil ég hvetja lesendur til að gera upp sinn eigin hug hvað varðar Konungsbók. Endilega lesið bókina og myndið ykkar eigin skoðun, því gagnrýni eins og hér að ofan birtist er samkvæmt eðli sínu aðeins skoðun einnar mannesku. Og það er nú einu sinni þannig í lífinu að það eru sjaldan allir sammála um nokkurn hlut. Ég geri fastlega ráð fyrir að það sama gildir án efa um Kongungsbók.

Einhverskonar ég eftir Þráinn Bertelsson.
Ég tók af rælni þessa bók fyrir nokkrum dögum. Almennt les ég ekki mikið af íslenskum ævisögum, enda hefur mér yfirleitt ekki þótt þær sérstaklega skemmtilegar aflestrar svona almennt séð. Bók Þráins er þó undantekning þar á.

Í bókinni segir frá mjög svo köflóttri og hreint út sagt skrautlegri æsku Þráins þar sem hann elst upp hjá einstæðum föður sínum við þröngan kost hvað veraldleg gæði varðar, en nýtur umhyggju föður, systur og ömmu, auk annarra í fjölskyldunni að ýmsu leyti.

Æska höfundar var aldrei það sem hægt er að kalla venjuleg. Til að byrja með var hann móðurlaus, en samt ekki, því móðirin var ekki látin heldur lagðist inn á Kleppsspítala strax eftir fæðingu Þráins og dvaldist á sjúkrastofnun það sem eftir lifði ævi hennar. Stöðugleiki var líka fjarverandi því faðirinn flakkaði um með son sinn á milli fleiri heimilisfanga en æskilegt gæti talist, auk þess sem Þráinn lýsir því afskaplega vel hvernig hann var nánast sjálfala alla æskuna á meðan faðirinn vann langar stundir til að framfleyta þeim.

Bókin er kostulega skrifuð, vel færð í stílinn og kímnigáfa höfundar fær að leika óbeisluð um allan textann og skiptir þá engu hvort verið sé skrifa um kátleg efni eða sorgleg. Þannig gat undirrituð ekki annað en skellt upp úr þegar brokkgengri skólagöngu höfundar er lýst á mjög svo skemmtilegan máta, þó í sjálfu sér sé fátt fyndið við það hlutskipti sem Þráni var úthlutað við upphaf skólagöngu sinnar. En það er kosturinn við Einhverskonar ég, að höfundi tekst að nýta kímni og meðfædda frásagnargáfu til að skemmta lesanda sínum og fræða um erfið málefni, án þess að falla í gryfju sjálfsvorkunnar og leiða.

Sú lifandi saga sem Þráinn færir lesanda sínum er einhver sú skemmtilegasta sem ég hef lesið eftir íslenskan höfund í langan tíma. Þó vissulega hafi æska hans og uppvöxtur talsvert mótast af erfiðleikum og fátækt, þá er hvergi að finna nokkurn vott um sjálfsvorkun í frásögninni. Þvert á móti er hver síða eins og sigursöngur yfir þeim hindrunum sem á vegi höfundar verða, þar sem hárbeitt kímni og skarpur hugur fær að njóta sín. Kostulegir og misgæfulegir karakterar blómstra á síðum bókarinnar og þar er Reykjavík á 5. og 6. áratugnum í aðalhlutverki, því uppvaxtarsaga Þráins er líka saga Reykjavíkur á tímabili hafta og banna, þegar Roy Rogers var sýndur í þrjú-bíói og Halldór Kiljan Laxness færði Íslendingum heimsfrægð með því að vinna Nóbelinn, þó höfundur (á þeim tíma) hefði frekar kosið að sú heimsfrægð landans væri tilkomin með stórkostlegum íþróttaafrekum frekar en ritstörfum.

Einhverskonar ég er ein skemmtilegasta saga sem ég hef lesið lengi og er svo sannarlega þess virði að eyða tíma í. Hvet ég alla sem langar til að lesa skemmtilegan og vel skrifaðan texta til að lesa þessa ágætu bók. Ég er nokkuð viss um að fáir munu verða fyrir vonbrigðum með hana.

Nóvember 2006. Sigríður Kristjánsdóttir, Hafnarfirði.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál