Ég les

Ingvi Þór Kormáksson: The Possibility of an Island - ensk þýðing Gavin Bowds á La possibilité d'une íle eftir Michen Houellebecq

Bókin segir frá Daniel, farsælum uppistandara sem hefur byggt feril sinn á því að spila á fordóma áhorfenda sinna. Hann er þekktur fyrir napurt háð á mannlífið, en hefur þó meiri áhuga á eigin kynlífi en á mannkyninu almennt. Við upphaf 21. aldarinnar og endalok heimsins eins og við þekkjum hann, hefur hann fengið sig fullsaddan af hlátri og hefur einnig komið sér upp óbeit á mannkyninu má segja. Hann heldur þó fast í trúna á möguleika ástarinnar.

Daniel gengur í sértrúarsöfnuð (The Elohimites) til þess að yfirstíga eigin forgengileika, en söfnuðurinn safnar erfðaefni úr meðlimum sínum svo hægt verði að klóna þá og þannig veita þeim eilíft líf. Til þess að forðast ellina fremja meðlimirnir sjálfsmorð í von um að vakna upp ungir og fjörugir og (sem er aðalatriðið hjá Daniel) tilbúnir til að njóta líkamlegra nautna að eilífu.

Þúsund árum síðar hafa stríð, þurrkar og aðrar náttúruhamfarir eyðilagt jörðina og Daniel24 býr einn í öruggu skjóli; það er tuttugastiogfjórði afkomandinn sem hefur verið klónaður úr erfðaefni Daniels. Eini félagi hans er hundurinn Fox, sem er líka hundur einsamall. Þeir láta dagana líða í óvirkum doða, á meðan þeir fáu sem eftir eru af mannkyninu ráfa um í hjörðum úti fyrir.

Eftir því sem á sögu Daniels líður verður ljóst að þetta er saga sem snýst ekki aðeins um þessa einu persónu heldur ekki síður um hrun heimsins. Daniel24 og síðar Daniel25 (o.s.frv.) reyna að átta sig á hvað er átt við með ást, kynlífi, eftirsjá, hlátri og þar fram eftir götunum en síðasti hluti bókarinnar segir frá Daniel25 þar sem hann yfirgefur bústað sinn og heldur út í leit að ást.

Í þessari athyglisverðu bók beinir Houellebecq spjótum sínum að venju í ýmsar áttir en hún er að sönnu hálfgerð vísindaskáldsaga. Sumir álíta höfundinn sömu skoðunar og söguhetjur hans, en svo þarf þó að sjálfsögðu alls ekki að vera. Fyrst og  fremst eru bækur hans óvægin athugun á nútímasamfélagi og ekki bara í Frakklandi þótt sögur hans gerist þar að miklu leyti. Islamistar fá það yfirleitt óþvegið og ótal margir aðrir þjóðfélagshópar, svo sem listamenn og heimspekingar. Hann hefur látið hafa það eftir sér að Islam  séu "vitlausustu trúarbrögð í heimi." Hvort það er vegna þessa sem hann lifir hálfgerðu felulífi í afskekktri sveit á Írlandi skal ósagt látið en af og til mætir hann þó í sjónvarpsviðtöl í heimalandi sínu. Þá er ekki óvanalegt að hann veki hneykslun með hegðun sinni og því sem hann lætur út úr sér.

Á íslensku hafa komið út eftir hann skáldsögurnar Öreindirnar (Mál og menning, 2000) og Áform (Mál og menning, 2002), báðar í þýðingu Friðriks Rafnssonar.

Ingvi Þór Kormáksson, apríl 2007.

Ingvi er verkefnastjóri á Borgarbókasafni Reykjavíkur og tónlistarmaður.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál