Ég les

Einar Ólafsson: Um Þögn hafsins (Le silence de la mer) eftir Vercors í íslenskri þýðingu Sigfúsar Davíðssonar

Árið 1937 var bókmenntafélagið Mál og menning stofnað. Í boðsbréfi vegna félagsstofnunarinnar segir svo: „Með hverju ári þrengjast kostir almennings til að eignast nauðsynlegustu bækur. Margir eru hættir að veita sér nokkrar bækur. Þetta horfir til þeirra vandræða, að menntun alþýðunnar er stofnað í verulega hættu.“ Faðir minn, þá rúmlega tvítugur sveitapiltur, efnalítill og með minni skólagöngu en hann hefði kosið, gerðist félagi í þessu bókmenntafélagi. Því er að þakka að á bernskuheimili mínu var prýðilegt safn úrvalsbókmennta innlendra og ekki síður erlendra, og meðal þeirra ýmsar bækur sem ég hefði líklega aldrei ratað til ef þær hefðu ekki verið uppi í hillu heima. Og það á kannski við um litla bók sem ég man  varla eftir að nokkur hafi nefnt í mín eyru, Þögn hafsins (Le silence de la mer) eftir franska rithöfundinn Vercors.

Bak við skáldanafnið Vercors var Jean Bruller, fæddur 1902, dáinn 1991. Á millistríðsárunum var hann kunnur teiknari. Eftir innrás Þjóðverja í Frakkland árið 1940 gekk hann í andspyrnuhreyfinguna og nafnið Vercors var eitt dulnefna hans þar. Þögn hafsins mun vera fyrsta bók hans, skrifuð árið 1941 en útgefin 1942. Bókin varð strax mjög vinsæl, mikið lesin í Frakklandi og þýdd á mörg önnur mál, meðal annars á ensku 1944. Sú þýðing var gefin út aftur árið 1992 með ítarlegum inngangi (Berg Publishers, endurprentuð 2002). Sigfús Daðason þýddi hana á íslensku og hún kom út hjá Máli og menningu árið 1951 með inngangi Sigfúsar.

Bókin er skrifuð eftir að Þjóðverjar hernámu mikinn hluta Frakklands og hernámið er raunar efni bókarinnar. Hins vegar er allt yfirbragð og stíll bókarinnar andstæða við ruddaskap og hávaða hernámsins og stríðsins. Stíll bókarinnar er hljóðlátur og yfirvegaður, eða með orðum þýðandans: „Lipurð og nákvæmni málsins og skýrleiki, þessi fremstu einkenni franskrar tungu og hugsunar, eru með afbrigðum,“ kostir sem hann segist ekki hafa náð nema að litlu leyti í þýðingunni og má vera að sú hógværð sé óþörf.

Þýskur liðsforingi tekur hús á gömlum manni og ungri frænku hans í litlu þorpi einhversstaðar í Frakklandi. Eitt herbergi í húsinu er í raun hernumið. Í sögunni er síðan lýst samskiptum liðsforingjans og húsráðenda. Liðsforinginn er háttprúður og menntaður tónlistarmaður en húsráðendur sjá hann sem einn af hernámsliðinu. Gamli maðurinn er sögumaður og sjónarhornið er hans, en það er liðsforinginn sem talar, hann lítur við í stofunni á kvöldin og talar stutta stund í senn, húsráðendur hlusta en svara engu. Þannig er uppistaða bókarinnar orðræða þessa siðmenntaða fulltrúa hins siðlausa hernámsliðs og afstaða húsráðenda til hans, afstaða gamla mannsins sem segir söguna og frænku hans sem situr hljóð með saumnálina. Sagan er sögð í fáum orðum, engu er ofaukið, ekkert vantar. Þegar ég rifjaði bókina upp aftur fyrir stuttu, áratugum eftir að ég las hana fyrst, mundi ég efnið óljóst en eitthvert andrúmsloft úr bókinni hafði setið í mér allan tímann.

Eins og fyrr segir hefur þessi bók verið þýdd á fjölmörg tungumál en einnig hefur hún verið kvikmynduð og sett á svið. Árið 1947 gerði franski leikstjórinn Jean-Pierre Melville kvikmynd eftir sögunni og árið 2004 var hún endurgerð sem sjónvarpsmynd undir stjórn Pierre Boutron. Bresk sjónvarpsmynd var gerð eftir sögunni árið 1981 á vegum BBC.

En hér virðist Þögn hafsins vera að mestu gleymd. Borgarbókasafnið á nokkur eintök í öllum söfnum, en þegar að er gáð hafa þau sárasjaldan farið í útlán á undanförnum árum. En það er enginn tímaþjófur að fá þessa bók að láni og lesa hana.

Einar Ólafsson, apríl 2007.

Einar er deildarbókavörður á Borgarbókasafni Reykjavíkur og skáld.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál