Ég les

Arndís Hrönn Egilsdóttir: Um le ravissement de Lol V. Stein (eða Hrifning Lol V. Stein) eftir Marguerite Duras

Ein af mínum uppáhaldsbókum er skáldsagan Le ravissement de Lol.V. Stein eftir frönsku skáldkonuna Marguerite Duras. Bókin hefur ekki verið þýdd á íslensku. Eftir því sem ég best veit þá er Elskhuginn eða L´amant eina  skáldsaga Duras sem hefur verið þýdd á íslensku.

Marguerite Duras var einn af virtustu og mest lesnu rithöfundum  Frakklands en hún lést árið 1996. Hún var afkastamikil, eftir hana liggja tæplega fjörutíu skáldsögur og um helmingur þeirra hefur verið kvikmyndaður. Auk þess skrifaði hún fjöldamörg leikrit.

Skáldsagan Le ravissement de Lol V. Stein eða Hrifning Lol V. Stein eftir Marguerite Duras var fyrst gefin út úrið 1964. Þetta er seiðmögnuð saga um unga fallega konu sem fær taugaáfall þegar hún er 19 ára gömul á balli þegar unnusti hennar yfirgefur hana og tekur eldri konu framyfir.

Þráðurinn er allur spunninn í kringum þetta örlagaball og þá atburði og þau áhrif sem  ballið hefur á líf Lol V. Stein. Lol nær sér eftir taugaáfallið, allavega á yfirborðinu, setur minningarnar og sársaukann ofan í skúffu, grefur allt ofan í kistu og sjálfa sig með, yfirgefur heimaborg sína S.Tahla, giftir sig, eignast börn og virðist hamingjusöm.

Tíu árum síðar snýr hún svo aftur, hittir þar fyrir æskuvinkonu sína Tatiönu Karl sem hún var búin að gleyma, þá hina sömu og var við hliðina á henni á örlagaballinu. Tatiana á elskhuga sem Lol tælir frá henni. Og sagan endurtekur sig, veikindin taka sig upp aftur. Það er elskhuginn sem segir sögu Lol V. Stein.

Það er ef til vill hægt að segja að Hrifning Lol V. Stein sé saga um geðsjúkdóm, um það hvernig geðsjúkdómur springur út.  Persónurnar velta sér upp úr upptökum og ástæðum veikinda hennar. Saga um ákveðna eyðileggingu aðalpersónunnar á sjálfri sér.

Arndís Hrönn Egilsdóttir, apríl 2007.

Arndís Hrönn er leikkona.

Bókin hefur verið þýdd á ensku sem The Ravishing of Lol Stein.

Þú getur fundið bækur eftir Marguerite Duras í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál