Ég les

Inga Ósk Ásgeirsdóttir: Hvað hef ég verið að lesa upp á síðkastið?

Þegar kennslu er lokið get ég farið að lesa til afþreyingar. Ég fór til Ródos um daginn í 3 vikur, vel birg af bókum. Las léttmetið en fræðibækurnar bíða betri tíma og verra veðurs.

Fékk gefins bækur hjá vinkonu minni sem ég gat skilið eftir úti. Fyrst skal nefna Síðasta musterisriddarann eftir Raymond Khoury sem var mjög í anda Da Vincis lykilsins með tilheyrandi samsæriskenningum og fjársjóðsleit. Musterisriddararnir voru við völd á Ródos og ég því á söguslóðum nokkurra atburða bókarinnar, mjög viðeigandi.  Næst var það sagan Ósýnilegir glæpir eftir Guillermo Martínez en hún er morðsaga með stærðfræðiþrautum. Þessar tvær voru mjög þægilegar og auðmeltar en ekkert sérstaklega skemmtilegar. Shutter Island eftir Dennis Lehane var þriðji reyfarinn sem ég gleypti í mig. Hann var sálfræðilegri, verulega spennandi og óhugnanlegur. Að lokum las ég glæpasöguna Arf Nóbels eftir Lizu Marklund sem toppaði alla hinar. Bækur hennar eru í uppáhaldi hjá mér ásamt bókum Hennings Mankells. Um leið og ég kláraði Arfinn lásu systur mínar hana og hún er enn í lestri í fjölskyldunni líkt og bókin Predikarinn eftir Camillu Läckberg. Góðir þessir sænsku glæpahöfundar!

Þegar heim var komið fór ég á bókasafnið og tók Undantekninguna eftir Christian Jungersen, afskaplega þykka bók sem ég hafði ekkert heyrt talað um. Sem betur fer er ég búin að klára hana því ég hef eiginlega ekki getað gert neitt annað síðustu daga en að lesa hana. Sagan er mjög trúverðug og vel skrifuð spennusaga um konur sem vinna á Dönsku upplýsingastofunni um þjóðarmorð, einelti, samkeppni á vinnustaðnum og viðbrögð við líflátshótunum. Persónulegu lífi kvennanna er lýst á mjög sterkan hátt frá mismunandi sjónarhornum, og varpað fram spurningum um þjóðarmorð, mannréttindastörf og mannlegt eðli. Bók sem virkilega situr í manni.

Inga Ósk Ásgeirsdóttir, júlí 2007.

Inga Ósk er kennari í Borgarholtsskóla.

Þú getur fundið bækurnar í bókasafnskerfinu Gegni, sem er aðgengilegt á netinu, sjá www.gegnir.is 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál