Ég les

Eva María Jónsdóttir: Ég les...

Svarfdæla sögu, verstu Íslendingasöguna að mati margra. Fyrstur til að fullyrða þetta var hinn menntaði Guðbrandur Vigfússon á ofanverðri 19. öld. Hann rökstuddi dóm sinn ekki mjög vel.

Þegar ég les söguna, reyni ég látlaust að átta mig á því hvað er slæmt. Ég sé að varðveisla sögunnar er slæm, því það eru margar eyður í henni. En það eru nú eyður í öllum sögum, svo það er ekki svo slæmt þetta með eyðurnar, og ekki mikið við því að gera úr þessu.

Svo sé ég að það eru allskonar gloppur í sögunni. Til dæmis er búið að reikna það út að aðalkonan í sögunni, Yngvildr fagrkinn, er um sjötugt þegar sögumaður er enn að spá í hvort hún hafi gengið út, í þriðja sinn! En það er nú ekki eins og maður sé alltaf að reikna út tímann sem líður í sögum, svo það truflar ekki svo mjög.

Það eru margir ljótir hlutir sem gerast í þessari sögu. En Íslendingasögurnar ganga út á ljóta hluti að mestu, svo ég skil ekki að það trufli þá sem segja þetta vonda sögu.

Sumir af þessum lærðu mönnum segja að maðurinn sem skrifaði Svarfdæla sögu, eins og við þekkjum hana, hafi ekki verið vel lesinn, að hann hafi ekki haft gott auga fyrir skáldskap, en hann hafi verið mjög góður í örnefnum í Svarfaðardal og þar um kring. Eins og honum er lýst, er þetta maður sem hefur eingöngu komist í kynni við sögur sem sagðar voru þarna í dalnum hans. Svo fer hann á fullt að stela öllum minnunum sem honum finnast áhugaverð og treður þeim síðan í eina sögu, sem á að segja frá fyrstu íbúum Svarfaðardals, en segir í raun ekki frá neinu nema einhverjum ævintýragraut með íslenskum nöfnum.

Það er auðvitað slæmt fyrir sagnfestumenn, þegar menn fara svo illa að ráði sínu eins og höfundur Svarfdæla sögu hefur verið sakaður um. Það er ómögulegt að leggja nafn virðulegra landnámsmanna við þvílík ævintýri eins og lýst er í Svarfdælu.

En eru þessi ævintýri gott söguefni? Mér finnst þau hreint æsilegt söguefni. Það getur vel verið að þetta hafi verið gamalkunnugar frásagnir í eina tíð, en ég rek upp stór augu þegar sagt er frá 10 ára morðingja, sem heitir Klaufi. Klaufi gerir meira en að kála mönnum með köldu blóði, hann beitir bellibrögðum til að ná í aðalkonuna Yngvildi fagurkinn og fastna sér hana.

En Yngvildur er klár kona og ekki gefin fyrir að láta forljótan morðingja stjórna sér. Hún nær hreðjataki á Klaufa og sér til þess að hann er veginn. En Klaufi gefst ekki upp þó dauður sé, hann gengur aftur og byrjar að kveða mjög draugalegar vísur, sem gera alla karlana frávita af skelfingu. Þvílíkur baráttujaxl, sem hann Klaufi er. En þá eru líka kostir hans upptaldir.

Jafnhörð er þó Yngvildur fagurkinn, sem er spurð í kjölfar fráfalls Klaufa, hvort hún geti hugsað sér að giftast góðum manni, sem er reyndar algerlega afskræmdur í andliti, fyrrverandi þræll og heitir Skíði. Hún er efins, eins og skiljanlegt er. En á endanum segist hún vera til í að verða kona Skíða ef hann hefnir sín á þeim sem níddist á honum með þessum skelfilegu afleiðingum fyrir andlitið á honum, þannig að hún sé sátt við hefndina. Skíði gengur að þessu, enda er sagt að konan sú hafi verið sú fegursta sem sást um þær mundir. Eftir að Yngvildur fagurkinn setur þessi skilyrði, vofir yfir að Skíði muni drepa einhvern úr ætt Klaufa, því það voru þeir kallar sem pyntuðu Skíða.

Svo finnst körlunum í Svarfaðardal eitthvað svo yfirþyrmandi að standa í þessum ófriði alla tíð, þannig að þeir reyna að semja um frið. Þá fremur konan Yngvildur hinn versta glæp, sem gerir líf hennar að helvíti: Hún talar! Hún segir skoðun sína umbúðalaust á fundi með körlunum. Hún minnir alla á skilyrðið sem hún setti fyrir því að giftast Skíða með skarðið í vörinni. Þvílík frekja og skass. Enda hafa margir bókmenntamenn sagt að í þessari sögu komi fram minnið um skassið sem er tamið.

Þegar Yngvildur hefur framið glæpinn og talað á fundinum, bölva karlarnir henni í sand og ösku og kalla hana öllum illum nöfnum. Líka Skíði. En þó líður ekki á löngu áður en Skíði drepur Karl, þann sem pyntaði Skíða til afskræmingar. Karl er ekki alveg sáttur við að deyja svona, því það er annar maður með Skíða, sem valdar hann og tryggir að þetta morð misheppnist ekki hjá honum. Það finnst Karli ekki nógu gott, honum finnst að Skíði eigi að vera einn að drepa sig. En hann semsagt deyr svona ósáttur og ósættið heldur áfram að lifa í fjölskyldu hans, því sonurinn Karl Karlsson, vex úr grasi og varla þó, því hann er rétt á táningsaldri þegar hann tekur til við að hefna föður síns og ákveður að hefna sín á Yngvildi, því hún var svo frek þarna um árið að tala á fundinum.

Þrettán ára gamall drepur hann alla syni Yngvildar, sendir Skíða mann hennar úr landi og selur hana svo mansali. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.

Það er þetta sem er reglulega hryllilegur kafli í Svarfdæla sögu, vegna þess að annað eins ofbeldi gegn konu þekkist ekki í Íslendingasögunum. En kaflinn hefur líka þótt mjög góður og sæma stórum rithöfundi. Mörgum hefur fundist Yngvildur fá makleg málagjöld. En ef menn rifja upp hvaða glæp hún framdi, þá blasir við að hún talaði og hélt fram samningi sem við hana var gerður. Já það er þetta sem er vandræða kafli í sögunni. Sumir vilja halda því fram að það sé ekki satt að Karl hafi selt Yngvildi mansali tvisvar, það séu bara ýkjur í sögunni, því hún er öll svo ýkt og ævintýraleg. Það er líka skrifað í söguna að Karl hafi verið drengur góður og þessvegna hljóti þessi endurtekning að vera dæmi um eyðileggingu þessa slæma höfundar sem skrifaði Svarfdæla sögu niður. Já slæm er sagan að mörgu leyti, en aðallega þó um slæma hluti. Það sem er verra þó eru tilraunir allar til að afsaka söguna eða afskrifa hana, en hvort tveggja hefur verið reynt með svo góðum árangri að fáir lesa Svarfdæla sögu, nema þeir sem þyrstir í að lesa það versta sem skrifað hefur verið.

En þeir verða sjálfsagt fyrir vonbrigðum því Svarfdæla saga er æsispennandi saga um mjög litskrúðugar persónur og dramatísk örlög þeirra.

Eva María Jónsdóttir, júlí 2007

Eva María er dagskrárgerðarkona hjá RÚV.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál