Ég les

Salka Guðmundsdóttir

Eins og við bókaormarnir vitum þá ratar maður af og til á eitthvað alveg sérstakt - á bók sem gleypir mann í sig um leið og maður sjálfur gleypir hana í sig. Maður sér persónurnar fyrir sér ljóslifandi, gengur skilyrðislaust inn í heim bókarinnar og finnst maður hluti af honum. Á kvöldin hlakkar maður til þess að skríða upp í rúm og aftur inn í bókina. Þegar lestrinum lýkur grípur mann angurvær tilfinning - nánast sorg yfir að leiknum sé lokið.

Þetta upplifði ég mun oftar sem barn. Bækur Mariu Gripe, Tove Janson og Astrid Lindgren kalla enn fram sömu tilfinningarnar hjá mér; mér finnst ég dansa í herberginu með Sesselju Agnesi, heyri þruskið í frosnu grasinu í kringum Morrann og finn vindinn rífa í regnhlífina hennar Maddittar þar sem hún kastar sér fram af þakinu.

Við og við finn ég þó bækur sem heltaka mig svona gjörsamlega. Þegar ég fyrst las bókina Behind the Scenes at the Museum eftir breska höfundinn Kate Atkinson datt ég svo kirfilega inn í hana að á hverjum degi hlakkaði ég til að koma heim úr skólanum og halda áfram að lesa. Í bókinni sem kom út árið 1995 segir Atkinson fjölskyldusögu sem spannar hundrað ár og hefst á því að aðalpersónan, Ruby Lennox, segir frá getnaði sínum. Sagan er full af skrautlegum persónum, leyndarmálum, óvæntum skúmaskotum og kolsvörtum húmor. Einhvern veginn tekst Atkinson að snerta lesandann djúpt án þess nokkurn tíma að grípa til tilfinningasemi eða væmni. Ég bæði hló og grét yfir þessari bók og hef mælt með henni við hvern einasta lestrarhest sem ég þekki.

Í nótt lauk ég við lestur nýjustu bókar Atkinson, One Good Turn, sem gerist í Skotlandi með Edinborgarhátíðina í bakgrunni. Þetta er önnur bók hennar um fyrrum einkaspæjarann og lögguna Jackson Brodie, en fyrri bókin nefnist Case Histories og byggist upp í kringum fjórar ráðgátur úr fortíðinni. Eins og alltaf tekst Atkinson að spinna ótrúlega flókinn en þó (eftir á séð) rökréttan vef úr sögum nokkurra persóna. Eitt af stefjum bókarinnar eru rússneskar matrúskur og þannig er sagan í raun uppbyggð - maður "opnar" eina sögu og innan í henni leynist sú næsta. Heildarmyndinni er svo ekki náð fyrr en í allra síðustu setningu bókarinnar.

Ég sakna bókarinnar strax í dag. Ég sakna persónanna sem hafa allar sína kosti og galla og eru jafn þrívíðar og fólk í raun og veru er. Ég sakna þess að leggjast á koddann, breiða yfir mig sængina og opna bókina sem er velkt eftir að hafa ferðast með mér frá París til Glasgow. En ég hlakka líka til þess að finna næstu bók sem kveikir sömu gleði.
 
Salka Guðmundsdóttir, ágúst 2007

Salka hlaut Gaddakylfuna 2007 fyrir smásöguna “Við strákarnir” í glæpasagnasamkeppni Mannlífs, Hins íslenska glæpafélags og Grand Rokks. 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál