Ég les

Björg Eysteinsdóttir: Bókmenntir

Í sumarfríum og ferðalögum er ágætt að lesa krimma og þeir norrænu eru oft frábærir. Síðasta bókin sem ég las  var Nærmeste pårörende eftir Elsebeth Egholm, f. 1960. Hún er búsett í Århus og er menntaður blaðamaður. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir hana og er ég alveg til í að lesa fleiri. Þetta mun vera fjórða bókin í seríu um blaðakonuna Dicte Svendsen.

Dicte þessi fær dag einn nafnlausa sendingu með póstinum og í ljós kemur að þetta er myndbandsupptaka þar sem maður er hálshöggvinn.  Allt bendir til þess að hér sé um múslimska aftöku að ræða. Dicte og Bo sem er sambýlismaður hennar og blaðaljósmyndari  hefja rannsókn sína um leið og lögreglan. Þegar Dicte heyrir nafn hins myrta kannast hún við hann  og minnist þess tíma þegar hún var ung og átti vingott við kennara sinn sem bjó í kommúnu ásamt fleiri ungum mönnum. Dicte heldur rannsókninni áfram og heimsækir alla sem bjuggu í kommúnunni á þeim tíma.    
Það fléttast svo allt mögulegt inn í söguna, t.d tengist þetta því að kornung varð Dicte að gefa burt son sinn og dóttir hennar Rose tekur aftur saman við fyrrverandi kærasta sinn, Azis sem er múslimi og innflytjandi. Anna vinkona hennar flytur til Grænlands og Bo sem er að fylla út tryggingapappíra þarf að skrifa á skjölin ”nærmeste pårörende!“
Höfundi tekst ágætlega að flétta nútíma málum  inn í atburðarásina eins og óttanum við hryðjuverk og  innflytjendavandamálin.

Ég er líka nýbúin að lesa Glasdjævlen eftir Helene Tursten, f. 1954 í Svíþjóð. Hún er víst tannlæknir en gaf út sína fyrstu bók að ég held 1998.  Hún hefur skrifað nokkra krimma  en Glasdjævlen er sú  eina sem ég hef lesið.

Lík Jacobs Schyttelius finnst í sumarbústað og skömmu síðar finnast foreldrar hans myrtir. Merki djöflatrúarmanna finnast bæði í sumarbústaðnum og á heimili foreldranna.  Faðir hans var prestur í þorpinu og saman höfðu þeir feðgar unnið að hjálparstarfi fyrir börn í Afríku.

Lögregluteymið er víst það sama og í öðrum bókum höfundar en þar ber mest á Irene Huss lögreglukonu. Það er gaman að hafa venjulega konu sem er ekki með allt of mikið af persónulegum vandamálum að burðast með í þessari stöðu.

Það gengur fremur erfiðlega fyrir lögregluna að finna eitthvert samhengi með merki djöflatrúar og morðanna og síðan kemur systir Jacobs, sem búsett er á Englandi  til sögunnar. Auðvitað tekst þeim að finna lausnina og kemur þá margt  fremur ógeðfelllt í ljós. Bókin er ágæt, mér finnst hún samt stundum vera einum of langdregin og höfundur kemur með svona auka útúrdúra sem koma efninu ekkert við.

Björg Eysteinsdóttir, september 2007

Björg er verkefnisstjóri á Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál