Ég les

Björn Valur Gíslason: Falleg bók

Sumar bækur fylgja manni í gegnum árin og maður les þær aftur og aftur með reglulegu millibili. Ein slík er bók Astridar Lindgren Bróðir minn Ljónshjarta sem er með fallegri bókum sem ég hef lesið. Í bókinni er dauðanum gerð skil með þeim hætti að manni finnst tæpast þurfa að hræðast þau tímamót sem maður er þó skíthræddur við. Í meðförum Astridar er dauðinn hinsvegar fallegur og sjálfsagður hluti af lífinu, ekki endalok þess heldur eftirsóknarvert upphaf nýrra og spennandi tíma. Sagan segir frá tveim bræðrum sem kveðja jarðlífið, hvor með sínum hætti og halda á vit nýrra ævintýra í nýjum heimi hinna látnu sem kallaður er Nangijala. Þaðan deyr fólk síðan til þess að flytjast yfir á næsta tilverustig í Nangilima og svo væntanlega koll af kolli. Ég hef margsinnis tekið mér þessa bók í hendur, stundum til þess eins að lesa fyrstu tvo kaflana þar sem bræðurnir deyja og fara til Nangijala. Ótrúlega fallegir kaflar og áhrifamiklir. Svo les ég hana alla að minnsta kosti á tveggja ára fresti og hlakka alltaf jafn mikið til. Heimilisfang þeirra bræðra Jónatans Ljónshjarta og Karls bróður hans eftir dauðann í nýja heiminum hefur setið í mér frá því ég las bókina fyrst fyrir börnin mín fyrir mörgum árum:

Bræðurnir Ljónshjarta
Riddaragarði
Kirsuberjadal
Nangijala

Hver vill ekki eiga svona flott heimilisfang! Ég óska þess að minnsta kosti að mín addressa verði ekki síðri þegar að því kemur. En það er langt þangað til og nægur tími til stefnu. Eina sem hefur angrað mig varðandi þessa fallegu bók er að vita ekki hver afdrif móður þeirra bræðra var eftir dauða þeirra. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir einstæða bláfátæka móður að sjá á eftir einu börnum sínum svo ungum með stuttu millibili. En Karl litli náði samt áður en hann dó að skilja eftir smá skilaboð þar sem hann bað hana um að gráta ekki, þau myndu sjást síðar í Nangijala. Leiði alltaf hugann að þessu þegar ég les bókina.

Björn Valur Gíslason, október 2007

Björn Valur er stýrimaður á Kleifarbergi frá Ólafsfirði og varaþingmaður Vinstri grænna. Hann er einnig forsprakki hljómsveitarinnar Roðlaust og beinlaust.

Pistillinn birtist fyrst á vefsíðu Björns, www.bvg.is


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál