Ég les

Jón Ólafsson

Undanfarnar vikur hef ég af vissum ástæðum verið að lesa gúlagbókmenntir af talsverðu kappi. Gúlagbókmenntir eru umfangsmikil bókmenntagrein sem skiptist í marga flokka og undirflokka, ef vel er að gáð, þótt flestir hugsi væntanlega til Solzhenitsyns þegar hugtakið Gúlag er nefnt. Solzhenitsyn kallaði bók sína Eyjaklasann Gúlag, en myndlíkingin vísar til þess að fangabúðum var á tímum Stalíns dritað niður um öll Sovétríkin og á korti er eins og þær myndi eyjaklasa í risastóru hafi. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt þessi myndlíking langsótt og ekki sérlega hjálpleg. Kannski þarf ég að lesa Solzhenitsyn betur. En orðið Gúlag er álíka vel heppnað og tölva eða þota og kannski í sumra augum það orð sem best fangar sögu Sovétríkjanna í heild sinni. Orðið er ein af mörgum skammstöfunum yfir fangabúðakerfi Sovétríkjanna, dregið af Glavnoe upravlenie lagerov, sem þýðir yfirstjórn búða. Mér finnst það athyglisvert að þó að á erlendum málum sé oftast talað um fangabúðir, einangrunarbúðir eða eitthvað slíkt, þá hefur rússneskan bara orðið búðir yfir þetta fyrirbæri. Fangar Stalíns voru ekki sendir í fangabúðir, þeir fóru bara í búðir, börn og unglingar fóru líka í búðir á sumrin svo dæmi sé tekið. Þetta þurrlega en að mörgu leyti sakleysislega orðfæri lýsir uppruna fangabúðanna. Búðirnar voru ólíkt dýflissunni staður endurmenntunar og enduruppeldis samkvæmt hinni sovésku áróðursmælsku.

Framan af var alls ekki reynt að fela fangabúðir eða veruleika þeirra, heldur var dregin upp af þeim glansmynd. Sovétstjórnin gekk jafnvel svo langt í þessu, að innlendir og erlendir blaðamenn og menntamenn voru látnir heimsækja fangabúðir og skrifa um hvílíkt uppbyggingarstarf þar væri unnið. Maxím Gorkí er kannski þekktasta fórnarlamb þessarar áróðurstækni en hann skrifaði af mikilli hrifningu um Solovki búðirnar í Hvítahafi um 1930. Gorkí ritstýrði líka frægri bók um Hvítahafsskurðinn sem fangar þræluðu við nokkrum árum síðar og dásamaði hið tvöfalda afrek Sovétstjórnarinnar: Verkfræðilegt afrek skipaskurðarins sem opnaði beina leið á milli Eystrasalts og Norður-Íshafs og félagslegt afrek betrunarvinnunnar. Bókin heitir eftir skurðinum, Belomorkanal.

Það er þess virði að rifja upp Gúlag Solzhenitsyns núna löngu eftir að menn eru hættir að deila um Sovetríkin. Þetta er stórt verk, þrjú þykk bindi í rússnesku útgáfunni sem ég er með, þó að til séu margar styttri gerðir líka. Gúlagið er samsafn af sögum og staðreyndum og það merkilega er að þótt Solzhenitsyn hafi haft mjög takmarkaðan aðgang að heimildum þegar hann skrifaði bókina og byggi að miklu leyti á munnlegum frásögnum og jafnvel sögusögnum, hefur margt af því sem fullyrt er í Gúlaginu reynst nokkuð nærri lagi. Solzhenitsyn áætlar til dæmis fjölda aftakna á árunum 1937 og 1938 og gerir ráð fyrir að þær hafi verið tæplega 1000 á dag þessi tvö ár. Opinberar tölur sem birtar hafa verið nýlega eru mjög nálægt tölum hans.

Reyndar má segja að Gúlagbókmenntir hafi bæði byrjað og þeim lokið fyrir tilstilli Solzhenitsyns. Saga hans um Ivan Denisovitsj sem kom út uppúr 1960 hratt af stað flóðbylgju minningaskrifa. Með því að skapa Gúlaginu frásögn og tón gerði Solzhenitsyn fyrrverandi gúlagföngum mögulegt að tjá og ræða um reynslu sína. Hann bjó til orðaforðann sem leyfði þessa frásögn. En Eyjaklasinn Gúlag sem kom út 10-15 árum síðar setti tappann í flöskuna að nýju. Gúlagið er svo yfirþyrmandi verk að mörgum finnst eins og þessi heimur og þessi reynsla hafi einfaldlega verið þurrkuð upp með því. Bókmenntalegt og sagnfræðilegt gildi verksins sé slíkt að önnur minningaskrif blikni. Þetta er auðvitað tragísk niðurstaða. Handritin sem streymdu til útgefenda á 7. áratugnum fengu í fæstum tilfellum náð fyrir augum sovétkerfisins. Minnst af þessu kom út og aðeins það sem hæst þótti rísa frá bókmenntalegu sjónarmiði náði til útgefenda vestan járntjalds. Enn liggja hundruð ef ekki þúsundir handrita æviminninga gúlagfanga í skjalageymslum í Moskvu. Sumt hefur ratað á netið en þó alls ekki allt og aðeins brot hefur verið þýtt. Eitthvað af því er hægt að sjá á vefsíðu Memorial samtakanna í Moskvu (http:// www.memo.ru/eng/), en þau eru mannréttindasamtök fyrrverandi Gúlagfanga, afkomenda þeirra og aðstandenda.

Jón Ólafsson, október 2007

Jón er prófessor á Bifröst


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál