Ég les

Sigrún Höskuldsdóttir

Á flugstöð um daginn las ég bók Álfrúnar Gunnlaugsdóttir, Af manna völdum. Hana hafði ég auðvitað lesið áður fyrir löngu síðan, og þótti þetta mjög góður lestur. Bókin er næm og skemmtileg aflestrar og á allan hátt vel gerð. Hér er fjallað um fólk og líf þess er svona frekar í erfiðara kantinum. Mér er eftirminnileg sagan úr stríðinu þar sem konan verður hrædd við hermann og skríður með barnið í gegnum girðinguna. Það sem gerir söguna svo áhugaverða er að þessi hræðsla var í raun ástæðulaus, konan bara verður allt í einu svona skelfingu lostin.

Einnig greip ég niður í nýja bók Baldurs Óskarssonar, Í vettlingi manns,  og fannst mjög gaman af að lesa pistla hans um gamla útvarpsfélaga og aðra vini. Pistlarnir eru hæfilega stuttir og ekki of ljósir fyrir, svolítið dularfullir og mjög skemmtilega gerðir. Ég hef ekki lesið þá bók alla enn.

Um daginn las ég líka afskaplega undarlega bók, Steinarnir hrópa eftir Hikaru Okuizumi, sem var samt ákaflega læsileg og spennandi, þrátt fyrir að ég gæti ekki alltaf áttað mig vel á hvert hún hvar að fara og hvernig hún eiginlega endaði. Bókin fjallar um mann sem er að rifja upp þegar hann var ungur maður í stríðinu, hann á tvo syni og svo eru þarna atburðir í hellum og það er dálítið dularfullt hvernig það er, því það er eins þetta í hellinum endurtaki sig.

Nú er ég hálfnuð með að lesa nýja bók Böðvars Guðmundssonar, Sögur úr síðunni. Þetta er ljúf endurminningabók um lífið í sveitinni á stríðsárunum og eftir það. Drengjabækur geta oft verið svolítið einhæfar en þessi bók Böðvars lofar bara nokkuð góðu, hann segir vel frá og ekkert nema gott um hana að segja.

Annars fer minn lestur oftar en ekki fram um miðjar nætur, en þá gríp ég iðulega í bók ef ég ligg andvaka og því er minn bóklestur á stundum dálítið tætingslegur, eða eiginlega frekar dálítið í bútum.

Fyrir utan þetta sem ég finn á Amtsbókasafninu og fæ lánað hjá vinum og ættingum þá les ég mikið af glæpasögum og hef það fyrir reglu að lesa Agöthu Christie og Sherlock Holmes alltaf inni á milli.

Sigrún Höskuldsdóttir, nóvember 2007


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál