Ég les

Katla Kjartansdóttir: Að muna er að gleyma

Að skrifa endurminningar sínar er ekki aðeins upprifjun á liðinni tíð heldur felst einnig í því ákveðin sjálfssköpun - og gleymska.  Um leið og einn atburður, staður, samræða eða upplifun er rifjuð upp hljóta aðrir þættir ekki náð hjá minninu heldur falla í óminnið.  Ævi- og endurminningabækur eru áhugaverðar að þessu leytinu til.  Hvað er það sem höfundur velur að draga fram, í hvaða búning kýs hann að setja hlutina og hvað fær ekki að líta dagsins ljós.  Endurminningabók Sigurðar Pálssonar er líka áhugaverð bók – og skemmtileg.  Ég verð eiginlega að viðurkenna áður en lengra er að haldið að ljóðskáldið Sigurð Pálsson þekkti ég lítið sem ekki neitt áður en ég las þessa bók nú um jólin.  Ljóðabækur hans hef ég með öðrum orðum ekki lesið en manninn hefur maður auðvitað séð á götum Reykjavíkur með alpahúfuna, flaksandi trefilinn, Le Monde og jafnvel bagettu undir hendi.  Í bókinni eru aftur á móti (og að sjálfsögðu) dregnar upp töluvert margbreytilegri myndir sem sumar koma manni skemmtilega á óvart.  Fyrst var það þó myndin á bókakápunni sem fangaði athygli mína og langar mig að nota tækifærið og hrósa kápuhönnuði sérstaklega hér. Kápan öll finnst mér bara sérdeilis lekker með mjög lýsandi og skemmtilegri mynd af höfundi utan á.  Þar birtist hann okkur fyrst viðkvæmi unglingurinn sem vildi verða skáld í París og við svo fáum að kynnast betur í bókinni.  

“Nítján ára en leit út fyrir að vera fjórtán” fer hann aleinn til stórborgarinnar og byrjar þar í hringiðunni að spinna sína lífs- og ljóðaþræði.  Það er gaman að fylgjast með þessum unga manni lenda í alls kyns undarlegum, vandræðalegum og jafnvel háskalegum aðstæðum.  Hálfmállaus ranglar hann um fyrstu dagana og reynir að spjara sig.  Ýmis atvik eru auðvitað bráðhlægileg og náði ég að skella uppúr nokkuð hressilega á köflum.  Til dæmis þegar hann á hóruhúsi reynir að gera grein fyrir sjálfum sér og segist, einsog af rælni, vera prestssonur.  Kaþólsku hórurnar virðast aftur á móti hafa fremur lítinn skilning á því konsepti og í lokin er hann í örvæntingu byrjaður að hrópa “fils de pasteur, fils de pasteur!!” Sigurður gerir þetta líka mjög vel. Það er að segja, hann nær á svo fallegan máta að lýsa bæði sjálfum sér og því andrúmslofti sem skapast getur í hinum undarlegustu aðstæðum á borð við þessar.  Ungi maðurinn verður auðvitað, og kannski óhjákvæmilega, hálfgrátbroslegur þar sem hann lullar um stórborgina í leit að upplifun og andagift.  Frá einu kaffihúsinu til annars þeytist hann til að finna “réttu stemminguna.”  Að lokum finnur hann sér svo samastað þar sem framreiðslustúlkan, að sjálfsögðu, spilar stóra rullu sem ljóðrænn áhrifavaldur.  Smám saman sér maður svo bæði manneskjuna og ljóðskáldið dafna og styrkjast í átökum sínum við listina og róstursamt Parísarlífið. 

Inn í textann fléttar Sigurður ljóð sín oftar en ekki í tengslum við þær aðstæður eða hugrenningar sem þau eiga rætur sínar í – og fer það vel.  Ef eitthvað er þá hefðu þau jafnvel mátt vera fleiri svo ágæt fannst mér þau velflest.  En mynda saknaði ég og hefði gjarnan viljað hafa þær fleiri í bókinni.  Hvort sem hefði verið ljósmyndir eða jafnvel teikningar þá hefði farið vel á því að hafa þær fleiri. Ég hef nú ekki lesið margar ævisögur um ævina en eftir að ég las þessa kviknaði hjá mér frekari áhugi fyrir því formi og vatt ég mér því beint í að lesa Indjánann eftir Jón Gnarr.  Með henni mæli ég hér um leið og ég mæli með þessari bók.  Á meðan Sigurður Pálsson, eða öllu heldur Monsieur Pálson, fékk mig til að hlæja fékk Jón Gnarr fékk mig til að gráta.  Hvort tveggja var ágætt og hafi þeir báðir góða þökk fyrir.

Katla Kjartansdóttir, janúar 2008

Katla er þjóðfræðingur.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál